*

miðvikudagur, 12. maí 2021
Örn Arnarson
19. apríl 2021 07:05

Ullarvinnsla á tímum eftirlitsvæðingar

Í geðshræringunni sem ríkir vegna sóttvarnaaðgerða hafa ferðir þjóðþekkts fólks til Spánar og í ræktina verið gerðar tortryggilegar.

Á þessum vettvangi hefur áður verið minnst á að það geti ekki talist sérstaklega fréttnæmt ef einhver hafi skoðun á einhverju máli. Íslenskir fréttamiðlar eru eigi að síður mjög uppteknir við að flytja fréttir af því að einhverjum finnist eitthvað um tiltekið málefni án þess að augljóst sé hvaða erindi það á við lesendur.

Á forsíðu Fréttablaðsins á þriðjudaginn í síðustu viku blasti við eftirfarandi fyrirsögn við frétt um framgang bólusetninga hér á landi í alþjóðlegu samhengi: Árangurinn verið lakari án ESB-samstarfs. Þetta eru vissulega sláandi tíðindi í ljósi mikillar gagnrýni á það hvernig Evrópusambandið hefur staðið að innkaupum og dreifingu bóluefna. Þegar fréttin er lesin kemur í ljós að það eina sem er að baki þessari fullyrðingu í fyrirsögn er skoðun Ingileifar Jónsdóttur, prófessors í ónæmisfræðum við Háskóla Íslands. Hún færir svo engin haldbær rök fyrir þessari skoðun sem ritstjórn Fréttablaðsins telur eiga jafn brýnt erindi við lesendur önnur en þau að Ísland sé fámennt land. Nú þarf ekki að efast um færni Ingileifar á sínu sérfræðisviði en efast má um að ónæmisfræðin veiti gagnlega innsýn í milliríkjasamskipti og önnur alþjóðamál sem ráða mestu um hvernig staðið er að framleiðslu og dreifingu bóluefna gegn Covid-19.

Í fréttinni er einnig fjallað um hvaða ríki hafa bólusett flesta íbúa. Blaðamaður kemur ekki auga á þá staðreynd að stór hluti þeirra ríkja sem hafa bólusett hvað mest eru fámenn og skipa sér í seint í þungavigtarflokk þegar kemur að alþjóðamálum.

                                                                  ***

Fréttastofa Stöðvar 2 hefur tekið að sér eftirlit með sóttvörnum erlendra ferðamanna. Um fyrri helgi gekk fréttamaður stöðvarinnar að ferðamönnum af erlendu bergi brotnu við eldgosið á Reykjanesskaga til að athuga af hverju þeir væru ekki í sóttkví.

Fréttin vakti töluverða athygli enda vatn á myllu þeirra sem telja að eina færa leiðin til þess að færa íslenskt samfélag í fyrra horf sé að meina bólusettum ferðamönnum frá Bandaríkjunum, Bretlandi og Kanada að koma til landsins. Klippa af fréttinni fór í dreifingu á samfélagsmiðlinum TikTok og mátti þar finna miður fögur ummæli um framgöngu þessara grunlausu ferðamanna.

Fréttamaður Stöðvar 2 lét þess ekki getið að þar sem ferðamennirnir sem teknir voru tali komu til landsins deginum áður en að þeir fóru að gosstöðvunum var mögulegt að þeir væru ekki að brjóta neinar gildandi reglur um sóttvarnir. Þetta staðfesti Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra, í samtali við DV vegna málsins og segir reglurnar þannig úr garði gerðar að fræðilega séð geti ferðamaður verið laus úr sóttkví sama dag og hann lendir á Leifsstöð.

Spyrja má hvaða tilgangi slíkur fréttaflutningur þjónar öðrum en þeim að ala á tortryggni gagnvart erlendum ferðamönnum. Jarðvegurinn fyrir hana virðist vera frjór ef marka má ummælin við fréttina á samfélagsmiðlum. Íslendingar sem verða á vegi slíkra ferðalanga hafa engar forsendur til þess að álykta um hvort þeir séu að brjóta sóttvarnareglur eða ekki og það sama gildir um fréttamenn. Vonandi verður ekki framhald á slíkri fréttamennsku enda yrði Ísland ekki heillandi áfangastaður ef ferðamenn geta átt von á yfirheyrslum frá fréttamönnum við komuna til landsins og hugsanlega alvarlegar ákúrur í löngu máli frá leiðarahöfundi Kjarnans í kjölfarið.

                                                                  ***

Annars hefur borið á því að undanförnu að fréttamenn reyni að gera þjóðþekkt fólk tortryggilegt í ljósi þeirrar geðshræringar sem ríkir vegna sóttvarnaaðgerða. Þetta er ákaflega hvimleiður fréttaflutningur sem er engum til gagns og flestum til ama.

Í fyrri viku varaði Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir við því að fólk væri að ferðast að nauðsynjalausu. Þessi aðvörun er góð og gild svo langt sem hún nær en auðvitað ríkir ekkert ferðabann hér á landi. Það er því hvers og eins að vega og meta hvort nauðsynlegt sé að bregða fyrir sig fæti ekki. Degi eftir að sóttvarnalæknir réð fólki frá ferðalögum birti Vísir „frétt“ um að Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, hefði heimsótt bróður sinn, sem er búsettur á Spáni, þrátt fyrir viðvaranir sóttvarnalæknis. Brynjar hafði að vísu farið til Spánar tveimur vikum áður en sóttvarnalæknir ítrekaði viðvaranir sínar og gert býsna góða grein fyrir dvöl sinni á Facebook-síðu sinni. Það stöðvaði ekki fréttaflutning Vísis. Úr þessu varð svo heljarmikið mál og þurfti þingmaðurinn að mæta í fjölda fréttaviðtala úr sóttkví eftir komuna til landsins. Erfitt er að sjá hvað var fréttnæmt við málið.

Annað sambærilegt mál kom upp í síðustu viku. Silja Dögg Gunnarsdóttir, þingmaður Framsóknarflokksins, ákvað að rífa hressilega í stálið og birti mynd af sér á Facebook þar sem hún var að taka tæplega hálfan hestburð í hnébeygju. Samfylkingarkonan Ásta Helgadóttir, fyrrverandi þingmaður Pírata, hneykslaðist mjög á þessu framferði á tímum sóttvarnaaðgerða sem takmarka heilsurækt fólks. Tók Vísir málið upp en þar kom fram að þingmaðurinn hafði einfaldlega fengið leyfi til að rífa í lóð hjá systur sinni sem rekur líkamsræktarstöð sem að sjálfsögðu var enn lokuð almenningi samkvæmt reglum um sóttvarnir. Hér var ekkert á ferðinni sem orkar tvímælis, ekki frekar en þegar kemur að ferðalagi Brynjars Níelssonar til Spánar og engar reglur brotnar. Erfitt er að sjá hvaða tilgangi svona fréttaflutningur þjónar öðrum en þeim en að gera þjóðþekkt fólk tortryggilegt að ástæðulausu. Og sé það óyfirlýst markmið stjórnvalda að reyna að drepa Covid 19-veiruna úr leiðindum þá eru fjölmiðlar svo sannarlega að draga vagninn í þeim efnum með svona fréttaflutningi.

                                                                  ***

Þórólfur var í viðtali hjá Kristjáni Kristjánssyni í þættinum Sprengisandi á Bylgjunni fyrir rúmri viku. Þórólfur sagði ýmislegt áhugavert – jafnvel ógnvænlegt – sem ekki rataði í fréttirnar. Þannig staðfestir hann að verið sé að vinna að því að skipa sveit manna til þess að hafa skipulagt eftirlit með Íslendingum sem þurfa að fara í heimasóttkví eftir ferðalög erlendis. Þá bætti sóttvarnalæknir við í samtalinu að til skoðunar væri að nota síma og annan búnað við slíkt eftirlit. Það er kannski tímanna tákn að slík eftirlitsvæðing veki ekki meiri athygli en raun ber vitni.

                                                                  ***

Hildur Björnsdóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, viðraði hugmynd á dögunum um að opna sundlaugar sérstaklega fyrir eldri borgara sem hafa verið bólusettir á meðan sóttvarnareglur takmarka heilsurækt og hreyfingu fólks. Flestir voru sammála um að þetta væri ágæt hugmynd. Sóttvarnalæknir skaut hana hins vegar niður sökum þess hversu flókin hún væri í framkvæmd. Fjölmiðlar létu það algjörlega eiga sig að spyrja sóttvarnalækni hvað væri svona flókið við að hrinda henni í framkvæmd. Er það sérstakt í ljósi þess að fjölþætt þjónusta er rekin af hinu opinbera og einkaaðilum sem sumir hafa aðgengi að og aðrir ekki.

                                                                  ***

Fjölmiðlar velja sér oft sérhæfingu þegar kemur að fréttaflutningi eða tileinka sér ákveðin áhugamál. Oftar en ekki gefur nafn miðilsins til kynna frá hvaða sjónarhorni hann kýs að nálgast hrynjanda samtímans frá degi til dags. Þetta vita lesendur Viðskiptablaðsins. Álitamál er hvort sömu sögu er að segja um lesendur Fréttablaðsins.

Enginn skortur var á fréttum föstudaginn 9. apríl. Morgunblaðið sló því upp á forsíðu að embættismenn í heilbrigðisráðuneytinu hefðu látið það vera að spá í hvort umdeild reglugerð um nauðungarvistun á sóttvarnahóteli ætti sér lagastoð og í blaðinu var sagt frá helstu tíðindum af gosinu, breytingum á ráðstöfun séreignarsparnaðar og öðrum helstu tíðindum dagsins. Ritstjórn Fréttablaðsins hafði aðrar áherslur þennan dag. Á forsíðu blaðsins fjallaði aðalfréttin um bandarísk hjón í Minnesota – þau Jake og Theresu Bentz – sem hafa gaman af því að halda íslenskt sauðfé og hafi nýverið fest kaup á ullarvinnsluvél. Sú fjárfesting mun auðvelda þeim Jake og Theresu lífið enda munu þau ekki lengur þurfa að senda ullina af kindunum alla leið til Wisconsin í vinnslu. Ekki minni tíðindi biðu lesenda á blaðsíðu tvö þann daginn. En þar mátti sjá ítarlega umfjöllun um að forstöðumaður Veiðisafnsins á Stokkseyri bíði spenntur eftir því að komast aftur í veiðitúr.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.