Einkahlutafélög eru burðarás viðskiptalífsins og nýsköpunar enda algengasta félagaform fyrirtækja bæði í almennum rekstri sem og í fjárfestingarstarfsemi.  Í kjölfar efnahagshrunsins var mikið rætt um fjármálastöðugleika og aðgengi fyrirtækja að fjármagni. Ástæða þess var m.a. sú að félög voru sum hver í erfiðri stöðu vegna skuldsetningar auk þess sem rekstrarerfiðleikar fyrirtækjanna höfðu í för með sér ákveðna keðjuverkun þar eð tap á fjárfestingum í fjármálageiranum leiddi óneitanlega af sér högg á fjárhag fjárfesta.

Til þess að sporna gegn lömuðu hagkerfi var því nauðsynlegt að fyrirtæki hefðu nægjanlega tryggan aðgang að fjármagni. Þáttur í því er að fjárfestar eigi þess kost að leita ráðgjafar fjármálafyrirtækja eða annarra sérfróðra aðila við töku ákvarðana um fjárfestingu. Mikilvægi þess að fjárfestar hafi tiltrú á fjármálageiranum er bæði gömul saga og ný. Það kemur í hlut löggjafans að móta fullnægjandi regluverk og tryggja trúverðugleika markaðarins til þess að fjárfestar séu tilbúnir til að setja fjármagn inn á þennan markað. Í slíku hlutverki felst þörf á margþættri reglusetningu en meðal þess sem fellur undir fyrrgreint verkefni löggjafans er að regluvæða þann hluta fjármálageirans sem lýtur að viðskiptaráðgjöf, eignastýringu eða annarri sérfræðiráðgjöf við fjárfesta.

Um verðbréfaviðskipti gilda lög nr. 108/2007. Verðbréfaviðskiptalögin voru m.a. sett til þess að koma MiFID -tilskipun Evrópusambandsins í framkvæmd en tilskipunin miðaði einmitt að því að tryggja skilvirkni evrópsks fjármálamarkaðar  ásamt því að auka yfirsýn og tiltrú fjárfesta á markaðnum. Í því skyni kveða lögin á um ýmsa útfærslu fjármálaþjónustu, m.a. í tengslum við útboð verðbréfa, viðskipti á skipulegum verðbréfamarkaði, markaðsmisnotkun o.fl. Í öðrum kafla laganna er hins vegar að finna almennar reglur um fjárfestavernd, til að mynda skyldur fjármálafyrirtækja til þess að afla upplýsinga um þekkingu og reynslu viðskiptavinar til þess að geta veitt honum ráðgjöf í samræmi við raunstöðu fjárfestisins. Þá er kveðið á um skyldu til að veita skýrar og sanngjarnar upplýsingar svo að viðskiptavinir geti tekið upplýsta fjárfestingarákvörðun og að  leita allra leiða til að tryggja bestu mögulegu niðurstöðu fyrir viðskiptavini sína með tilliti til verðs, kostnaðar, hraða, líkinda til þess að af viðskiptunum verði, umfangs, eðlis og annarra þátta sem máli skipta. Reglur af þessum toga eru til þess fallnar að tryggja fjárfestavernd.

Fjárfestar verða að geta treyst því að ef þeir fjárfesti á grundvelli ráðgjafar sé sú ráðgjöf veitt á fullnægjandi grundvelli. Slík fjárfestavernd á við um kaup og sölu hlutabréfa, afleiðuviðskipti, eignastýringu, viðskipti með skuldabréf o.fl. Þar sem verðbréfaviðskiptalögin eru að mestu leyti takmörkuð við viðskipti með fjármálagerninga gilda þau þó ekki berum orðum um viðskipti með hluti í einkahlutafélagi en slíkri hlutafjáreign fylgja engin verðbréf. Þó að umfangsmikil löggjöf hafi þannig verið sett til að auka fjárfestavernd, m.a. í tengslum við ráðgjöf fjármálafyrirtækja, eru engin ákvæði í núgildandi löggjöf sem kveða skýrlega á um fjárfestavernd þegar að fjármálafyrirtæki eða annar sérfræðingur tekur að sér ráðgjöf eða milligöngu um viðskipti með hluti í einkahlutafélögum. Áður giltu um hluta slíkra viðskipta lög nr. 99/2004 um sölu fasteigna fyrirtækja og skipa sem höfðu að geyma reglur um upplýsingaöflun, upplýsingamiðlun og hagsmunagæslu. Fyrrgreind lög voru hins vegar felld úr gildi þann 9. júlí 2015 með lögum nr. 70/2015 um sölu fasteigna og skipa sem ekki taka til sölu fyrirtækja. Ekkert verður fullyrt um raunáhrif þess að skýrar lögfestar reglur skorti um sérfræðiráðgjöf og milligöngu um viðskipti með hluti í einkahlutafélagi. Ljóst er að sá sem tekur slíka sérfræðiþjónustu að sér verður ávallt að starfa í samræmi við eðlilega og heilbrigða viðskiptahætti og venjur á fjármálamarkaði auk þess sem tilteknum ákvæðum laga um verðbréfaviðskipti kann að vera beitt með lögjöfnun. Með vísan til fyrrgreinds hlutverks löggjafans og mikilvægis þess að festa, gagnsæi og fyrirsjáanleiki ríki á fjármálamarkaði verður þó að teljast bagalegt að á þessu hafi enn ekki verið ráðin bót.

Höfundur er lögmaður hjá Atlantik Legal Services.