Tölur um fjölda ferðamanna fyrir árið 2019 liggja fyrir og nemur fækkunin „ekki nema“ 14%. Í byrjun ársins voru þó óveðursský á lofti vegna erfiðleika í rekstri Wow Air. Óttast var að ef félagið færi í þrot hefði það ófyrirsjáanlegar afleiðingar fyrir íslenska ferðaþjónustuna. Ástæðan var m.a. umtalsverð markaðshlutdeild félagsins og töldu ýmsir greiningaraðilar að gera mætti ráð fyrir að samdráttur í fjölda ferðamanna gæti numið um þriðjungi.

Mjög fáir í stóra samhenginu
Þróun í fjölda ferðamanna hér á landi hefur verið í litlu samræmi við það sem almennt gerist í heiminum. Á árunum fyrir 2019 nam meðaltals fjölgun ferðamanna á ári hingað til lands um 22%. Nú sjáum við fækkun sem er tveggja stafa prósentutala. Þetta eru miklar sveiflur. Í heiminum er þessi þróun hófstilltari. Á fyrstu níu mánuðum síðasta árs nam fjölgun ferðamanna, sem fóru milli landa í heiminum, um 4% samkvæmt tölum frá Ferðamálastofnun Sameinuðu þjóðanna. Áratug á undan var þetta á svipuðu reiki nema árið 2017 þegar fjölgunin nam ríflega 7% og 2018 þegar fjölgunin var 5,6%. Fjölgun í Evrópu hefur verið heldur minni og í Norður-Evrópu ekki nema um 1%.

Heildarfjöldi ferðamanna í heiminum á ferðalögum milli landa var tæplega einn og hálfur milljarður á síðasta ári. Þar af um helmingur á leið til landa Evrópu. Hingað komu tvær milljónir ferðamanna á síðasta ári og nemur það því 0,14% af heildarfjölda ferðamanna á heimsvísu. Markaðshlutdeild okkar er því ógnarsmá í hinu stóra samhengi. Þeir ferðamenn sem hingað koma eru þó afar mikilvægir fyrir okkar hagkerfi og brýnt að við höldum okkar striki. Það er enn nokkuð svigrúm til að auka markaðshlutdeildina en mikilvægara er þó að við ráðum því hverjir hingað koma en látum ekki tilviljun eða þrönga hagsmuni ráða.

Það þarf samt að huga að fjöldanum
Þó ferðamönnum hafi fækkað á síðasta ári voru tekjur nokkuð svipaðar og árið á undan. Marktækar tölur eru ekki að fullu komnar fram en svo virðist sem samdrátturinn hafi verið nær 1–3%. Gengi krónunnar hjálpaði til en það var að meðaltali 9% veikara 2019 en 2018. Afkoma í ferðaþjónustu virðist þó almennt hafa versnað enda kostnaðarhækkanir nokkrar á árinu.

Staðreyndin er að færri ferðamenn árið 2019 skiluðu svipuðum tekjum og fleiri ferðamenn árið á undan. Það er því ekki einvörðungu fjöldinn sem skiptir máli. Við frekari vöxt ferðaþjónustunnar verðum við að líta ákveðið til þessarar staðreyndar og stuðla að því að fá hingað ferðamenn sem skila sem mestum tekjum. Í því sambandi verður jafnframt að gæta að álagi umhverfis og náttúru. Ágang ferðamanna og kolefnisspor verður að lágmarka.

Ferðaþjónusta og hagvöxtur
Ferðaþjónusta hefur haldið uppi hagvexti hér á landi undanfarin ár. Með fækkun ferðamanna og óbreyttum tekjum verður breyting þar á. Ef ferðaþjónustan á að vaxa áfram verður að líta til þeirra tekna sem greinin skapar og afkomunnar en ekki fjöldans. Það er ljóst að við getum ekki endalaust stuðlað að auknum fjölda ferðamanna. Einhvers staðar eru þolmörk í því efni.

Ef ferðamönnum fjölgar að jafnaði um 3% á ári næstu ár verður fjöldi þeirra næstum 2,4 milljónir árið 2025, eftir aðeins fimm ár. Ef fjölgunin verður að jafnaði 7% verður fjöldinn um 3 milljónir eftir fimm ár. Helsti áhrifaþáttur um fjölda ferðamanna hér á landi hefur verið framboð á flugi til og frá landinu. Þar eru bæði innlend og erlend flugfélög. Það eru ekki endilega hagsmunir innlendrar ferðaþjónustu og náttúru sem ráða þar för.

Lærdómur af þróun síðustu ára er að stjórnvöld þurfa að geta haft bein áhrif á eftirspurn ferðalaga til Íslands. Það á bæði við um þegar auka þarf eftirspurn og eftir atvikum þegar draga þarf úr eftirspurn s.s. vegna álags. Til að það sé mögulegt þurfum við stjórntæki og ákveða hvernig þau skuli nota. Nærtækast er að notast við gjaldtöku af einhverju tagi eða fjöldatakmarkanir á fjölsóttum ferðamannastöðum til að draga úr eftirspurn. Á hinn bóginn þurfa stjórnvöld að búa yfir tækjum, aðferðum og fjármagni til að styrkja markaðsstarf, vöruþróun og nýsköpun ef auka þarf eftirspurn. Í þessu felst þó mikil áskorun, enda getur verið umdeilt að draga úr eftirspurn sem óhjákvæmilega kemur niður á tekjum einstakra fyrirtækja.

Við verðum okkar eigin gæfusmiðir í ferðaþjónustunni.

Skarphéðinn Berg Steinarsson er ferðamálastjóri.