Magnús Harðarson, forstjóri Kauphallar Íslands, fjallar í áramótablaði Viðskiptablaðsins um mikilvægi hlutabréfamarkaðarins og jafnframt hvað lýðræði og valddreifing skipti miklu máli fyrir verðmyndun og trúverðugleika á fjármálamarkaði.

Athugaverður er sá málflutningur Magnúsar að tvímælalaust væri til bóta að stjórnir lífeyrissjóða yrðu kjörnar beint af sjóðfélögum. Hvað varðar árangur sjóðanna er ekkert sem bendir til þess að svo sé og sá sjóður sem tapaði mestu í tengslum við bankahrunið var sjóður þar sem sjóðfélagar kusu stjórnarmenn. Annar lífeyrissjóður þar sem sjóðfélagar kjósa stjórnarmenn hefur útvistað eignastýringu og rekstri til banka og stjórnin komið því lítið nærri fjárfestingum og rekstri.

Hvenær eru gríðarleg völd á fárra höndum?
Sú hætta er einnig til staðar, ef sjóðfélagar velja stjórnarmenn, að ákveðnir einstaklingar geti sölsað undir sig mikil völd í stjórnum lífeyrissjóða með stuðningi tiltölulega fárra sjóðfélaga t.d. öflugra fyrirtækja eða skoðanabræðra eða -systra. Við slíkar aðstæður má leiða líkur að því að einstaklingar, sem safnað hefðu atkvæðum m.a. fyrir fyrirtæki með fjölda starfsmanna í vinnu, hefðu getað beitt óeðlilegum þrýstingi til stuðnings hlutafjárkaupum eða lánveitingum til hálf gjaldþrota félaga. Það hefði valdið sjóðfélögum óbætanlegu tjóni, langt umfram það sem varð við hrunið. Lýðræði felst ekki í því að einhver hávær minnihlutahópur, jafnvel pólitískir flokkar, nái völdum innan lífeyrissjóðanna og ráðskist með fjármuni þeirra.  Vissulega eru einnig dæmi um óeðlileg áhrif fulltrúa aðila vinnumarkaðarins í stjórnum lífeyrissjóða t.d. þegar ákveðin byggðarlög eiga hlut að máli. Virkt eftirlit er því alltaf mikilvægt.

Það fyrirkomulag að aðilar vinnumarkaðarins velji stjórnarmenn er því síst lakara, en ekki gallalaust. Núverandi fyrirkomulag við stjórnarkjör er víða sambærilegt í nágrannalöndunum þótt stundum kjósi sjóðfélagar einnig hluta stjórnar.

Svo er furðulegt það sjónarmið að færri augu komist ekki yfir sama magn upplýsinga og sjóðirnir sinni því síður sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum. Lífeyrissjóðirnir eru beint og óbeint mjög virkir aðilar að sprota- og nýsköpunarfyrirtækjum og sjóðum sem sérhæfa sig í þess konar fjárfestingum.

Reynsla af hlutabréfamarkaði
Ég hef áratuga reynslu af virkni hlutabréfamarkaðarins og upplifði margs konar sveiflur, vandamál og misnotkun hvað varðar stjórnarkjör og stjórnarhætti stjórnarmanna fyrirtækja. Eftirminnileg er einkavæðing bankanna og hvernig ógæfumönnum var falin stjórn bankakerfisins. Afleiðingar þess þekkjum við öll.

Á árunum 1995-2004 var ég í stjórn Kauphallar Íslands. Þá var Kauphöllin í eigu hagaðila, þ.e. banka, lífeyrissjóða, skráðra félaga og fjárfesta (hluthafa) sem völdu stjórnarmenn. Síðan var Kauphöllin yfirtekin af Nasdaq og bein áhrif hagaðila hér á landi minnkuðu. Eftirminnilegust er aðkoma mín að stjórn Framtakssjóðs Íslands í lok árs 2009 skömmu eftir hrun. Þar tókst að koma að endurreisn, sölu eða á einhvern hátt uppstokkun á stórum mikilvægum fyrirtækjum með ávinning lífeyrissjóða og viðkomandi fyrirtækja í huga. Stjórn sjóðsins var algjörlega sjálfstæð og lét ekki margvíslega gagnrýni hafa áhrif á sig.

Framtakssjóðurinn skilaði 48 milljarða króna hagnaði og raunávöxtun starfstímans var 23%. Þessi ávinningur skilaði sér til eigendanna, 16 lífeyrissjóða og Landsbanka Íslands. Efast verður um að einstaklingar kjörnir af sjóðfélögum, án baklands aðila vinnumarkaðarins, hefðu stofnað Framtakssjóðinn eða tekist á við þau krefjandi verkefni sem fylgdu í kjölfar bankahrunsins.

Yfirráð banka í kauphöll
Um tíma réðu bankarnir miklu í stjórn Kauphallarinnar og í kjölfar einkavæðingar bankanna var útþensla þeirra hömlulaus. Í tengslum við það tóku bankarnir yfir fjölmörg stærri fyrirtæki landsmanna og stýrðu eignarhaldi og lántökum þeirra og viðskiptum með eigin bréf. Ekki varð vart andmæla eða mikils aðhalds Kauphallarinnar, eftirlitsaðila eða stjórnvalda á þeim tíma. Það leiddi síðan til hruns bankakerfisins. Ekki var hægt að kenna frumkvæði lífeyrissjóðanna þar um og aðilar vinnumarkaðarins höfðu styrk til að bjarga því sem bjargað varð. Á tímabili var hætta á að lífeyrissjóðir tækju þátt í vonlausum björgunaraðgerðum bankakerfisins, en aðilar vinnumarkaðarins börðust hart á móti því.

Lífeyrissjóðir hafa myndað ákveðið mótvægi við bankakerfið og tilburði þess til að hagnast á yfirtöku gjaldþrota fyrirtækja. Bein aðkoma sjóðfélaga að stjórnarkjöri sjóðanna hefði áreiðanlega ekki verið til bóta á þessu tímabili. Lukkuriddarar, lýðsleikjur eða fjársterkir einstaklingar hefðu hugsanlega getað sölsað undir sig sjóðina og nýtt þá í eigin þágu.

Þátttaka almennings og traust
Hér á landi er þátttaka almennings því miður lítil á hlutabréfamarkaði. Traust til hlutabréfamarkaðarins er ekki nægilega mikið, en það hefur lítið að gera með fyrirkomulag stjórnarkjörs í lífeyrissjóðum. Almenningur tapaði verulegum sparnaði í hlutabréfum í hruni bankakerfisins og stóðu þar Kauphöllin og eftirlitsstofnanir ekki nægilega vel vaktina allt frá árinu 2004. Hluthafar hafa ekki fengið hlut sinn bættan. Kauphöllin á að líta meira í eigin barm og sinna eftirlitsskyldum sínum burtséð frá því hvernig stjórnarmenn lífeyrissjóðanna eru valdir. Kauphöllin mætti kanna betur stjórnarhætti skráðra félaga og fjármálastofnana, hvernig stjórnarmenn eru valdir, hæfi þeirra og hegðun á hlutabréfamarkaði. Lífeyrissjóðir og aðrir fjárfestar verða að geta treyst því að eftirlitshlutverk Kauphallar sé skilvirkt.

Traust almennings þarf að aukast á hlutabréfamarkaðnum svo einstaklingar taki þar aukinn þátt. Einnig þurfa að koma til skattalegir hvatar. Þannig ætti að vera hægt að auka beina aðkomu einstaklinga að markaðnum og minnka hlutfallslega þátttöku lífeyrissjóðanna.

Höfundur er viðskiptafræðingur og stjórnarformaður Framtakssjóðs Íslands.