Þegar ég lít yfir þær konur sem mér finnst vera mikilvægastar í lífi mínu þá er margt sem sameinar þær. Ákveðið „don’t give a damn“ attitjúd með kaldhæðni sem er beittari en hnífsegg, augnaráð sem gæti framið morð (en auðvitað aðeins á réttum tímapunktum og þegar það er lífsnauðsynlegt).

Þessar konur hafa enga sérstaka þörf eins og margar okkar fyrir að vera í saumaklúbbum eða fara í hópverslunarferðir til Boston. Fyrir þeim er karlmannslaust partí gersamlega glatað partí og frekar myndu þær kjósa að eyða kvöldinu einar í rúminu í gömlum kímónóslopp að lesa Huysmans eða aðrar dekadensur eða horfa á Suspiria í sjöunda sinn.

Stundum sitja þær einar á kantinum á sóðalegum púl bar í miðbænum með volgan bjór á 500 kr. tilboði af því að þeim finnst svo sjarmerandi að horfa á skítuga afkima veraldarinnar í gegnum dökk Rayban sólgleraugu.

Þessar sömu konur myndu líklega ekki mæta á „dekurkvöld“ þar sem konur snyrta á sér táneglurnar í sameiningu eða prufa nýja andlitsmaska. (Þær eru samt mjög duglegar við að lakka á sér neglurnar og bæta við í rauða varalitinn). Þær forðast Bacardi Breezer og alla kokkteila í skærum litum eins og heitan eldinn – fyrir utan kannski blóðrauðan Campari, (og þá dry), af því að bitrir drykkir eru fyrir bitrar konur eins og allir vita.

Þær voru sennilega ekki skólastúlkurnar sem teiknuðu hjörtu í stað punkts yfir bókstafinn I í sjöunda bekk né enduðu þær allar ritaðar setningar með upphrópunarmerkjum og mörgum „X“um. Í dag senda þær ekki sms skilaboð til vinkvenna sinna sem enda á hjörtum, blómum, einhyrningum og regnbogum né birta tilvitnanir í sjálfshjálpargúrúa og andlega leiðtoga á Facebook. Þær senda frekar sprengjur, klósett og hnefa.

Mér finnst sjálfri lítið svalt við þá þróun hjá smástúlkum og unglingsstúlkum að skrifa tíu þúsund sinnum, „Sæta“, „Nei þú ert sætust“, „Fallegust“, „Sæta sæta“ og þar frameftir götunum á Facebook myndir hvor annarrar.

Ég segi tólf ára dóttur minni að að það að vera bara „sæt“ sé ekki það eftirsóknarverðasta í lífinu. Ég vona frekar að hún verði algjör töffari.

Mae West sagði þau ódauðlegu orð eitt sinn að góðar stelpur færu til himna en þær slæmu færu út um allt. Málið er samt að „slæmar“ stelpur eru ekkert slæmar. Þær eru bara „hinar“ stelpurnar. Töffararnir. Þær nenna ekki að fitta inn í fullkominn ramma bleikra kokkteila, tannhvíttaðra brosa og sykursæts hláturs sem einhver ákvað einhvern tímann að væri kvenlegur. Þær eru sigri hrósandi hetjur ljóðskáldanna og músur listamannanna. Skál, fyrir „hinum“ stúlkunum.

Pistill Önnu Margrétar birtist í Viðskiptablaðinu 12. september 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið hér að ofan undir liðnum tölublöð .