*

laugardagur, 8. maí 2021
Sigurður Ólafsson
17. febrúar 2020 07:25

Um ófjárhagslegar upplýsingar

Vönduð og vel unnin skýrsla stjórnar er ein mikilvægasta undirstaða heilbrigðs verð- og lánshæfismats.

Það má telja líklegt að upplýsingagjöf, sett fram á ábyrgð stjórnar, hefði mátt vera betri í skuldabréfaútboði WOW.
Haraldur Guðjónsson

Það er mjög mikilvægt fyrir stjórnarmenn í fyrirtækjum að gæta vel að ábyrgð sinni þegar kemur að því að undirrita skýrslu stjórnar í ársskýrslu. Vönduð og vel unnin skýrsla er ein mikilvægasta undirstaða heilbrigðs verð- og lánshæfismats fyrirtækja, enda á hún að lýsa bæði þeim árangri sem hefur náðst og þeim óvissuþáttum sem reikna má með að hafi áhrif á rekstur fyrirtækisins og umhverfi þess í nánustu framtíð. Um þetta er að finna mikilvæg ákvæði í ársreikningalögum og nýlega hefur verið gefin út reglugerð til fyllingar þessum lagaákvæðum.

Það vekur athygli að ársreikningaskrá RSK skuli nú birta sem sérstakar áherslur sínar, að í eftirliti með ársreikningum vegna ársins 2019 verði sérstaklega gengið eftir því að kanna upplýsingagjöf í skýrslu stjórnar hvað varðar ófjárhagslegar upplýsingar. Þetta gæti bent til þess að hjá mörgum fyrirtækjum sé þörf fyrir nokkrar úrbætur. En hvað felst í þessum ófjárhagslegu upplýsingum sem krafa er gerð um?

Í áhersluatriðum sem birt eru á vef ársreikningaskrár RSK er gerð góð grein fyrir þessum kröfum. Þar segir að öll upplýsingagjöf skuli byggjast á viðskiptalíkani félagsins og megintilgangi þess og gera skal grein fyrir árangri og stöðu fyrirtækisins. Þá skal og fylgja lýsing á stefnu félagsins í umhverfis-, félags-, mannauðs-, mannréttinda- og spillingarmálum og hvaða árangri félagið sé að ná á þessum sviðum. Einnig á að útskýra með rökum hafi félag ekki mótað stefnu í framangreindum málaflokkum. Loks er þess krafist að stjórn greini frá þeim óvissuog áhættuþáttum sem gera megi ráð fyrir í rekstrinum og hvernig félagið hyggist mæta þeim.

Mikilvægt er að átta sig á því að gæði þessara ófjárhagslegu viðbótarupplýsinga um árangur, stöðu og meginóvissuþætti eru ekki staðreyndar af ytri endurskoðendum. Þær eru því settar fram á ábyrgð hvers og eins stjórnarmanns byggt á upplýsingum frá stjórnendum.

Kröfur um viðbótarupplýsingar í skýrslu stjórnar um fjárhagsleg og ófjárhagsleg atriði eiga við um öll fyrirtæki sem eru stór eða meðalstór eða teljast vera svokölluð PIE (e. Public Interest Entities) félög, þ.e. félög sem tengd eru almannahagsmunum. PIE-félög eru t.d. lífeyrissjóðir og stór flugfélög. Það má telja líklegt að upplýsingagjöf, sett fram á ábyrgð stjórnar, hefði mátt vera betri í skuldabréfaútboði WOW sem og upplýsingar um áhrif þróunar ýmissa ytri áhættuþátta á viðskiptalíkan Icelandair síðastliðin ár og áskoranir varðandi endurnýjun flugvélaflotans. Fleiri dæmi má eflaust finna um ónógar upplýsingar hér á landi, ekki síst í aðdraganda bankahrunsins. Mikilvægt er að fjárfestar og lánveitendur hafi sambærilegan aðgang að viðbótarupplýsingum til greiningar. Þær verða því að vera hluti af þeirri skýrslugjöf fyrirtækja sem stjórn staðfestir með undirritun sinni í árlegum reikningsskilum. Mikilvægt er svo að bankar, lífeyrissjóðir og aðrir fjármagnsveitendur leiði þessa vegferð með góðu fordæmi í eigin upplýsingagjöf og veiti fyrirtækjum og markaðnum virkt aðhald á þessu sviði.

Viðmið um samræmda framsetningu ófjárhagslegra viðbótarupplýsinga hafa til þessa ekki verið til hér á landi. Hins vegar eru til alþjóðleg viðmið (The Integrated Reporting Framework) sem taka mið af upplýsingaþörf fjármagnsveitenda sem hugsa til langs tíma, s.s. lífeyrissjóða. Þau viðmið fjalla einnig um hvernig samþætta megi ófjárhagslega upplýsingagjöf um umhverfi, samfélagsþætti og stjórnarhætti við þær viðbótarupplýsingar sem krafist er að stjórn staðfesti. Samfélagsskýrsla sem byggir t.d. á GRI (e. Global Reporting Initiative) viðmiðunum fullnægir ein og sér ekki þessum skilyrðum auk þess sem hún er, eðli máls samkvæmt, almennt ekki staðfest af stjórn.

Lög um ársreikninga eru afgerandi hvað það varðar að viðbótarupplýsingagjöf um árangur, stöðu og meginóvissuþætti skuli vera hluti af skýrslu stjórnar. Þessar upplýsingar veita innsýn og eru mikilvægar til að auka gagnsæi. Atvinnuvegaráðuneytið hefur nú nýlega gefið út reglugerð til fyllingar þeim ákvæðum. Stjórnarmenn og stjórnendur sem vinna gögnin í þeirra hendur hafa því ærna ástæðu til að vanda sig því ábyrgð stjórnarmanna er talsverð.

Höfundur er stjórnarmaður í lífeyrissjóði og fyrirtækjum og er einn fyrirlesara á morgunfundi Stjórnvísi um ábyrga stjórnarhætti sem haldinn verður á næstunni.

 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.