*

fimmtudagur, 9. desember 2021
Georg Lúðvíksson
7. nóvember 2021 13:22

Um plastpokabann og áhrifaríka umhyggju

Þó það sé stundum gott að kaupa íslenskt, þá dettur fæstum í hug að kaupa lakari vöru á 5x dýrara verði.

Flest viljum við sem betur fer láta gott af okkur leiða og gera heiminn betri. En það er ekki sama hvernig það er gert. Greinarhöfundur er hluti af alþjóðlegri hreyfingu sem á íslensku kallast áhrifarík umhyggja (e. Effective Altruism – sjá: https://www.effectivealtruism.org/ ) sem gengur út á að hvetja fólk til að beita mælingum, gagnrýnni vísindahugsun, og verkfræðilegri nálgun til að finna áhrifaríkustu leiðirnar sem völ er á til að láta gott af sér leiða.

Við höfum öll takmarkaðan tíma, athygli og peninga aflögu og verðum því að vera skynsöm í hvernig við nýtum takmarkaðar auðlindir sem best í baráttunni fyrir betri heimi. Annað væri óábyrg sóun. Þetta kann að hljóma augljóst í eyrum margra en því miður eru dæmin allt í kringum okkur um hið gagnstæða þegar kemur að góðgerða- og umhverfismálum.

Getum við gert betur?
Tökum dæmi af kolefnisjöfnun enda umhverfismálin í brennidepli þessa dagana vegna 26. loftslagsráðstefnu Sameinuðu þjóðanna í Glasgow. Sífellt fleiri einstaklingar og fyrirtæki kjósa að jafna kolefnisfótsporið sem er frábært því eftir því sem fleiri taka sig saman og jafna fótsporið þá stækka þau verkefni að umfangi sem vinna gegn hlýnun jarðar. Allt of fáir velta hins vegar fyrir sér hvernig sé skilvirkast að gera það.

Á Íslandi fer t.d. stór hluti kolefnisjöfnunarframlaga til Kolviðar sem bindur kolefni með því að gróðursetja tré á Íslandi. Kolviður selur, skv. verðskrá á heimasíðu, jöfnun á einu tonni af koldíoxíði á 2.200 kr. og gefur sér svo allt að 60 ár til að binda umsamið magn kolefnis (enda hlýnun jarðar ekki svo mikil að tré vaxi sérlega hratt ennþá hér á landi). Til samanburðar er hægt að kaupa ýmis kolefnisjöfnunarverkefni erlendis, vottuð af stofnun Sameinuðu þjóðanna, á a.m.k. fimm sinnum lægra verði þar sem kolefnið er að auki jafnað nær samstundis en ekki áratugum síðar.

Nú er ég alls ekki að hallmæla skógrækt á Íslandi eða hinu ágæta starfi Kolviðar og Skógræktarinnar, eða að halda fram að skógrækt gegni ekki mikilvægu hlutverki í bindingu kolefnis. Ég er einfaldlega að benda á að ef skilvirk kolefnisjöfnun er markmiðið og ef fólk samþykkir að tíminn sé naumur til að hægja á hlýnun jarðar, þá er skógrækt á Íslandi langt frá því skilvirkasta leiðin að markinu.

Þó það sé stundum gott að kaupa íslenskt, þá dettur fæstum í hug að kaupa lakari vöru á 5x dýrara verði – sér í lagi þegar haft er í huga að loftslagsbreytingar eru hnattrænt en ekki staðbundið vandamál. En þegar kemur að kolefnisjöfnun virðast fæstir bera saman verð og gæði.

Er skynsamlegt að banna plastpoka?
Annað dæmi þar sem mér finnst skorta mjög á gagnrýna hugsun er ofuráhersla á útleiðingu einnota plasts, t.d. plastpoka, röra og skeiða, sem þó er aðeins lítið brotabrot af því plasti sem fellur til. Ásetningurinn er vissulega góður.

Plastmengun, sér í lagi í höfum jarðar, er sannanlega alvarlegt umhverfisvandamál, og hver vill ekki ganga fram með góðu fordæmi og hætta notkun einnota plasts? Það er vissulega gott og blessað og eftir nokkra áratugi gæti plastmengun minnkað ef þjóðir heims taka sig saman um að skipta út plastinu. Vandinn er bara sá að áhrifin af því að hætta notkun plastinnkaupoka, plaströra og plastskeiða eru lítil sem engin í náinni framtíð í stóra samhengi plastmengunar heimsins, varla lítill dropi sem við fjarlægjum úr stóru plasthafi.

Aðalástæða plastmengunar nú er sú að margar af fátækari þjóðum heims hafa slæm eða engin sorphirðu- og endurvinnslukerfi og plast á því miður oft greiða leið í hafið. Á Íslandi og í öðrum ríkari löndum er staðan hins vegar önnur og nær ekkert úrgangsplast endar í hafinu. Samt verjum við ómældri orku í að skipta út einnota plasti, sem væri kannski í góðu lagi ef álíka mikil orka og athygli fólks, fyrirtækja og stjórnmálamanna, færi líka í þær aðgerðir sem skipta mestu máli og munu líklega hafa þúsund sinnum meiri áhrif núna.

Dæmi um slíkar aðgerðir er að styðja fátækari lönd í að bæta rusla- og endurvinnslukerfi sín, að setja þrýsting á eða sniðganga útgerðir sem passa ekki upp á að veiðarfærin sín endi ekki í hafinu, styðja hreinsunarverkefni í hafinu, o.s.frv.

Óáhrifarík umhyggja er oft verri en engin
Hættan er nefnilega sú að aðgerðir sem hafa lítil áhrif gefi okkur falska tilfinningu um að við séum að uppfylla okkar siðferðilegu skyldu að gera eitthvað í málunum. Óáhrifarík umhyggja getur þannig verið verri en engin ef hún kemur í veg fyrir eða dregur úr áhrifaríkum aðgerðum.

Sama hvert markmiðið er, þá þurfum við að leggja okkur fram við að skilja vandann og finna svo skilvirkar leiðir til að ráðast að rótum hans og forgangsraða verkefnum eftir því hversu mikil áhrif þau hafa. Ekki láta nægja að biðja um tréskeið næst þegar við förum í ísbíltúr og láta þar við sitja.

Höfundur er verkfræðingur, forstjóri Meniga og einn stofnenda félagasamtakanna Áhrifarík umhyggja á Íslandi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.