Landsvirkjun er í eigu íslensku þjóðarinnar. Hlutverk fyrirtækisins er að hámarka afraksturinn af þeim orkulindum sem því er trúað fyrir með sjálfbæra nýtingu, verðmætasköpun og hagkvæmni að leiðarljósi. Þetta er ábyrgð sem við tökum alvarlega.

Eins og fram kom í ræðu fjármála- og efnahagsráðherra á ársfundi okkar í síðustu viku er nú unnið að stofnun þjóðarsjóðs, sem í munu renna arðgreiðslur Landsvirkjunar og ætlað er að fjármagna þjóðhagslega mikilvægar framkvæmdir og vera varasjóður okkar, ef gefur á bátinn í þjóðarbúskapnum. Það er ánægjuleg staðreynd að nú er komið að þeim tímapunkti í rekstri Landsvirkjunar að svigrúm hefur myndast til að byrja að auka þessar arðgreiðslur. Á undanförnum árum hafa skuldir fyrirtækisins lækkað um 100 milljarða króna, byggðar hafa verið þrjár nýjar aflstöðvar án viðbótarlántöku og lánshæfismat án ríkisábyrgðar er nú betra en nokkru sinni fyrr.

Grunnur að arðgreiðslum framtíðar

En hvaðan kemur þessi rekstrarbati Landsvirkjunar? Hvaðan kemur þessi grundvöllur að arðgreiðslum framtíðarinnar? Hefur fyrirtækið verið að sækja verðhækkanir til heimila og almennra fyrirtækja í landinu?

Svarið við síðastnefndu spurningunni er nei. Það er mikilvægt að hafa í huga að orkumarkaðurinn á Íslandi skiptist í tvennt. Annars vegar er um að ræða raforkusölu til lítils hóps stórnotenda og hins vegar til allra annarra almennra nota fólks og fyrirtækja. Þrátt fyrir að Landsvirkjun eigi ekki í beinu viðskiptasambandi við þessa síðarnefndu almennu notendur endar engu að síður lítill hluti, eða um 15%, af raforkuvinnslu fyrirtækisins hjá almennum notendum. Þetta er út af því að önnur orkufyrirtæki kaupa raforku af Landsvirkjun á heildsölumarkaði og selja á smásölumarkaði áfram til almennra endanotenda.

Einu tengsl Landsvirkjunar við rafmagnsreikning íslenskra heimila og almennra fyrirtækja utan stórnotenda eru því í gegnum áðurnefndan heildsölumarkað og þar hefur verð frá Landsvirkjun í grófum dráttum fylgt verðlagi síðustu ár. Reyndar lækkaði það um 2% á síðasta ári, en hafa ber í huga að verðið frá Landsvirkjun er aðeins u.þ.b . 25% af heildarkostnaðarverði almennra neytenda. Á það bætist dreifingar- og flutningskostnaður, auk álagningar sölufyrirtækjanna, skatta og annarra þátta.

Hvernig skýrist þá hin bætta afkoma Landsvirkjunar? Fyrst og fremst af aukinni framlegð frá hinum markaðinum, sem er sala rafmagns til nokkurra stórnotenda sem að mestu eru í erlendri eigu.

Alþjóðlegur samkeppnismarkaður

Megnið af raforkuvinnslu Landsvirkjunar, eða 85%, fer inn á stórnotendamarkað, sem er alþjóðlegur samkeppnismarkaður. Þar er Landsvirkjun lítill fiskur í stórri tjörn og keppir við orkufyrirtæki víðs vegar um heim um viðskipti stórnotenda. Landsvirkjun hefur að undanförnu lagt mikla áherslu á að endurspegla hækkandi verð á alþjóðamörkuðum í endursamningum við þessa aðila, draga úr tengingu orkuverðs við álverð og gera nýja samninga á hagstæðum kjörum. Það þýðir þó ekki að nýir og endurskoðaðir samningar séu ósanngjarnir fyrir hin erlendu stórfyrirtæki – þeir eru hagstæðir fyrir báða aðila og í samræmi við það sem gengur og gerist á alþjóðlegum samkeppnismarkaði.

Það væri því óráðlegt, með hagsmuni íslensku þjóðarinnar að leiðarljósi, að skipta Landsvirkjun upp. Það myndi aðeins leiða til þess að vogarafl fyrirtækisins (og íslensku þjóðarinnar) í samningum við erlend stórfyrirtæki minnkaði umtalsvert, raforkusamningar yrðu íslenskum raforkufyrirtækjum almennt óhagstæðari og eðlileg auðlindarenta til þjóðarinnar myndi síður raungerast.

Mótun orkustefnu mikilvæg

Samkeppni á stórnotendamarkaðinum er afar virk, heilbrigð og alþjóðleg, en Landsvirkjun deilir áhyggjum fjármála- og efnahagsráðherra hvað varðar ófullkomið fyrirkomulag á heildsölu- og smásölumarkaði rafmagns til almennings. Nú um mundir er við störf þverpólitískur starfshópur um orkustefnu fyrir Ísland. Við bindum miklar vonir við afrakstur hans og teljum m.a. mikilvægt að þar sé litið til séreinkenna íslenska markaðarins og þá ekki síst þeirrar tvískiptingar hans sem hér hefur verið rædd og mun Landsvirkjun leggja sitt af mörkum til að leggja fram þekkingu, upplýsingar og gögn sem geta gagnast við þá vinnu.

Höfundur er forstjóri Landsvirkjunar.