Á dögunum kom fram í gögnum frá Ferðamálastofu að þrátt fyrir góða og mikla aukningu í ferðalögum og neyslu Íslendinga innanlands í sumar næði það engan veginn til að fylla upp í það tómarúm sem erlendir ferðamenn skildu eftir sig í atvinnugreininni. Til þess þyrftu Íslendingar að fimmfalda neyslu sína í innlendri ferðaþjónustu frá því sem áður var.

Skynsamleg ákvörðun sóttvarnarlæknis

Árstíðasveiflur hafa alltaf verið akkilesarhæll ferðaþjónustu. Það er þekktur vandi í ferðaþjónustulöndum víða um heim að háönnin stendur yfir sumartímann nokkra mánuði á ári og svo tekur við langur vetur þar sem mun minna er um ferðamenn og fyrirtækin þurfa því að þreyja þorrann. Þetta þýðir að fyrirtækin þurfa að safna tekjum yfir sumarið sem þau svo nýta til að lifa af veturinn. Þetta á við um alla greinina, en sérstaklega um fyrirtæki á svæðum lengra frá höfuðborgarsvæðinu. Því miður mun aukning á ferðalögum Íslendinga innanlands, þó afar velkomin sé, ekki duga fyrirtækjum almennt til að safna nægum tekjum fyrir veturinn. Því skipta skynsamlegar ákvarðanir eins og þær sem sóttvarnalæknir lagði til í vikunni, að færa nokkur lönd af áhættulista og hætta skimun á farþegum þaðan, svo miklu máli fyrir fyrirtækin núna.

Ráðstafanir á borð við að vísa frá flugi eða fella niður áður staðfesta lendingartíma eru ótækar, þó ekki sé horft nema á orðspor og viðskiptahagsmuni Keflavíkurflugvallar og ferðaþjónustunnar inn í framtíðina. Slíkt myndi valda beinu tjóni á afar veikum fyrirtækjum og skemma verulega fyrir.

Efnahagslegir þættir vega þungt

Og vísa stóra samhengisins verður ekki of oft kveðin. Þeim mun fleiri erlendir ferðamenn sem eiga þess kost að ferðast til Íslands í sumar og haust, þeim mun meiri möguleika eiga fleiri fyrirtæki á því að lifa af veturinn með þeim úrræðum sem stjórnvöld hafa lagt til. Þeim mun fleiri fyrirtæki verða í stakk búin til að hefja starfsemi aftur af krafti næsta vor og leggja sitt af mörkum til að rífa efnahagslífið upp úr lægðinni og koma atvinnulausu fólki inn á vinnumarkað aftur.

Opnun landsins snýst um samþættingu efnahagslegra sjónarmiða og sóttvarna. Í því samhengi hefur ferðaþjónustan það hlutverk að benda á þá möguleika sem eru fyrir hendi og einnig þær afleiðingar sem ákvarðanir stjórnvalda og sóttvarnayfirvalda hafa á atvinnugreinina og þar með hið stærra markmið um hraða viðspyrnu efnahagslífsins.

Hingað til hefur okkur auðnast að haga sóttvörnum í landinu með árangursríkum hætti og því verður að halda áfram. Hins vegar er mikilvægt að við ákvarðanir um sóttvarnir á landamærum hugi stjórnvöld betur að efnahagslegum þáttum og samþætti þessi tvö ólíku sjónarmið þannig að báðum sé vel þjónað. Það er vissulega afar flókið verkefni, en það var alltaf augljóst að það yrði meiri áskorun að opna en loka.

Svigrúm þarf til að lifa veturinn af

Framundan er ágústmánuður, þar sem Íslendingar munu taka að hugsa um skóla og vinnu á ný og minnka ferðalög. Þá skiptir afar miklu máli frá hinu efnahagslega sjónarmiði að búa svo um hnútana að ferðaþjónustan nái að nýta þau tækifæri sem bjóðast í komum erlendra ferðamanna til landsins eins vel og mögulegt er. Til að svo megi verða þarf að huga að breyttri samsetningu ferðamannahópsins milli sumarmánaðanna og samhengi við flug og skimanagetu. Horfa þarf sérstaklega til þess að við náum að verja þær bókanir sem þegar eru til staðar og auka möguleika á því að nýjar bókanir verði til með því að haga sóttvarnatakmörkunum þannig að það liðki fyrir fremur en að hamla ferðum.

Með skynsamlegri samþættingu efnahagslegra sjónarmiða og sóttvarna, byggt á bestu gögnum og upplýsingum, eigum við þess kost að mynda svigrúm fyrir fyrirtækin til að lifa veturinn af og þar með að styrkja viðspyrnuna sem framundan er. Það mun koma öllu samfélaginu til góða þegar til lengri tíma er litið.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar.