Ég þarf að viðurkenna eitt. Þótt ég telji mig alla jafna heiðarlegan mann þá stóð ég sjálfan mig eitt sinn að því að ljúga því að ég hefði lesið stórvirkið Önnu Kareninu eftir Tolstoj í heild sinni. Sannleikurinn var sá að ég hafði gefist upp á 128. síðu bókarinnar af 853 en til þess að ganga í augun á ótilgreindri manneskju sagðist ég hafa lesið hana alla og væri í þokkabót mikill aðdáandi höfundarins.

Það virtist duga til í umræðu um bókina að nefna athugasemd Tolstojs í upphafi hennar um að „allar hamingjusamar fjölskyldur væru líkar en að sérhver óhamingjusöm fjölskylda væri óhamingjusöm á sinn máta,“ til þess að teljast viðræðuhæfur. Því næst var mikilvægt að nefna þau grimmilegu örlög Önnu sjálfrar að verða fyrir lest undir lok bókarinnar og þá var það gulltryggt að viðmælandi minn vissi að ég væri vel að mér í heimsbókmenntunum. Þetta kjánalega atvik rifjaðist upp fyrir mér í vikunni í ljósi umræðna um fyrirhuguð viðræðuslit við Evrópusambandið. Margir fjölmiðlamenn, stjórnmálamenn og fleiri hafa vísað til ýmissa skýrslna sem gerðar hafa verið, gamalla og nýrra, sem varpa eiga ljósi á bæði stöðu Evrópumála og íslensks efnahagslífs.

Á þingi er til umræðu nýleg skýrsla Hagfræðistofnunar um aðildarviðræður við Evrópusambandið; bent hefur verið á skýrslu Seðlabankans um gjaldeyrismál á Íslandi, auk þess sem skýrslu á vegum McKinsey-stofnunarinnar hefur einnig borið á góma. Þorsteinn Pálsson, fyrrverandi forsætisráðherra, minntist t.d. á það í pistil sínum í Fréttablaðinu um nýliðna helgi að það yrði að ganga út frá því að utanríkisráðherra hefði lesið bæði skýrslu Hagfræðistofnunar og McKinsey-skýrsluna í þaula og að annað væri óvirðing við hann.

Ég tek ofan fyrir þeim sem hafa lesið allar þær skýrslur sem hafa verið til umræðu nýlega. Sérstaklega í ljósi þess að skýrsla Seðlabankans er um 600 síður að lengd og skýrsla Hagfræðistofnunar 675 síður ef allir viðaukar eru teknir með. Samanlögð lengd þeirra er á við nokkra doðranta eftir Tolstoj og því töluvert afrek að lesa þær báðar af kostgæfni. Það þarf líka vart að taka fram að þetta er aðeins dropi í haf þeirra skýrslna sem koma út á ári hverju og eru til umræðu í íslenskum fjölmiðlum. Helstu túlkendur og lesendur þessara skýrslna eiga mikið lof skilið fyrir afrek sín og það er einlæg von mín að greining þeirra sé dýpri en mín á Tolstoj.