Starfsumhverfi hefur áhrif á samkeppnishæfni Íslands. Með stöðugu, hagkvæmu og skilvirku starfsumhverfi skapast skilyrði til aukinna fjárfestinga, framleiðnivaxtar og hagvaxtar til lengri tíma. Stöðugleiki er lykilforsenda í starfsemi hvers fyrirtækis. Til að ná fram stöðugleika er mikilvægt að hagstjórnartækjum á sviði opinbera fjármála og peningamála sé beitt með samstilltum og réttum hætti. Með hagkvæmni má skapa fyrirtækjum forskot í samkeppni.

Það þarf að vera hagkvæmt að starfrækja hér fyrirtæki, samanborið við önnur ríki. Tryggja þarf skilvirknina þannig að atvinnulífið geti hlaupi hraðar. Regluverk þarf að vera einfalt og skýrt og eftirlitið skilvirkt. Stuðla þarf að heilbrigðri og virkri samkeppni þar sem öll fyrirtæki starfa eftir sömu leikreglum. Samtök iðnaðarins hafa lagt til umbætur í starfsumhverfi fyrirtækja til að ná enn frekari árangri.

Stöðugleikinn lykilforsenda

Stöðugleiki er lykilforsenda í starfsemi hvers fyrirtækis. Til að ná fram stöðugleika er mikilvægt að hagstjórnartækjum á sviði opinbera fjármála og peningamála sé beitt með samstilltum og réttum hætti. Eftir fyrirhyggju í hagstjórn á síðustu árum gefur góð skuldastaða hins opinbera nú svigrúm til að beita fjármálum ríkis og sveitarfélaga af fullum þunga til að örva hagkerfið. Efnahagslegur styrkur er undirstaða þess að treysta megi velsæld landsmanna.

Verkefni hagstjórnar á næsta kjörtímabili er að skapa nægan hagvöxt til að ná atvinnuleysinu niður á ásættanlegt stig og auka efnahagsleg lífsgæði þjóðarinnar þannig að þau verði í lok kjörtímabilsins jafn góð eða betri en þau voru fyrir það efnahagsáfall sem við glímum nú við. Til þess að þetta verði að veruleika þarf að ráðast í aðgerðir strax. Gæta þarf að því að forgangsröðun sé rétt og að skuldasöfnun sé ekki umfram það sem mæta má með sjálfbærum hætti litið til framtíðar.

Verðbólguvæntingar við markmið peningastefnunnar gefa Seðlabankanum einnig svigrúm til þess að beita tækjum peningastjórnunar til að hvetja hagkerfið til vaxtar. Stýrivextir bankans hafa verið lækkaðir umtalsvert til að hjálpa fyrirtækjum og heimilum að takast á við efnahagsamdráttinn. Bankinn hefur einnig beitt öðrum stýritækjum á borð við sveiflujöfnunarauka og bindiskyldu til að tryggja aðgang að lausu fé og stutt þannig við fyrirtæki og heimili í landinu. Mikilvægt er að haldið sé áfram á sömu braut.

Hagkvæmnin skapar forskot

Með hagkvæmninni má skapa fyrirtækjum forskot í samkeppninni. Það þarf að vera hagkvæmt að starfrækja hér fyrirtæki, samanborið við önnur ríki. Álagning gjalda og skatta má ekki vera of íþyngjandi. Létta þarf álögum af fyrirtækum eins og kostur er, m.a. með lækkun tryggingagjalds og fasteignaskatta á atvinnuhúsnæði.

Með vexti efnahagslífsins má tryggja sjálfbærni í opinberum fjármálum. Leið vaxtar – að veita atvinnulífinu svigrúm til að skapa aukin verðmæti og ný og eftirsótt störf – er farsælasta leiðin. Leið skattlagningar mun hefta vöxt atvinnulífs og tefja endurreisnina.

Skilvirknin eykur hraðann

Tryggja þarf skilvirknina þannig að atvinnulífið geti hlaupi hraðar. Regluverk þarf að vera einfalt og skýrt og eftirlitið skilvirkt. Stuðla þarf að heilbrigðri og virkri samkeppni þar sem öll fyrirtæki starfa eftir sömu leikreglum.

Ráðast þarf í breytingar á sviði löggiltra iðngreina með áherslu á bætt eftirlit og aukinn skýrleika. Auka þarf eftirlit og bætta framkvæmd á sviði samkeppnismála og er nauðsynlegt að auka enn frekar samkeppniseftirlit með starfsemi opinberra stofnana og fyrirtækja. Tryggja þarf að fyrirtæki á markaði starfi á jafnréttisgrunni og að samkeppni sé ekki raskað með opinberu fé.

Framkvæma þarf markvissa endurskoðun á gildandi regluverki með það að markmiði að einfalda það og draga úr reglubyrði. Það hefur verulega skort upp á að stjórnvöld og Alþingi leggi raunverulegt mat á áhrif nýrrar lagasetningar á atvinnulífið og telja SI að tækifæri séu fólgin í að framkvæma það mat og stuðla þannig markvisst að bættri samkeppnishæfni íslenskra fyrirtækja.

Fjölbreytni er vörn gegn efnahagslegum áföllum

Hagkerfið sem kemur út úr núverandi niðursveiflu er ólíkt því sem var fyrir niðursveifluna. Efnahagsbatinn verður á öðrum forsendum, í öðrum greinum og með þann lærdóm í farteskinu sem áunnist hefur. Meðal þess er að lífskjör framtíðarinnar þurfa að byggjast á fjölbreyttu atvinnulífi. Fjölbreytni er grundvöllur stöðugleika – vörn gegn efnahagslegum áföllum. Iðnaðurinn skapaði í fyrra um 22% landsframleiðslunnar og um eitt af hverjum fimm störfum í landinu.

Greinin er mjög fjölbreytt í eðli sínu – samsett af bæði rótgrónum og nýjum fyrirtækjum, stórum og smáum með starfsemi um land allt. Fjölbreytni er styrkur greinarinnar sem nýtast mun við uppbyggingu atvinnulífsins litið til næstu ára. Samkeppnishæfni íslensks iðnaðar ræðst að miklu leyti af því starfsumhverfi sem stjórnvöld skapa.

Stöðugt, hagkvæmt og skilvirkt starfsumhverfi styður við nýsköpun og frekari verðmætasköpun. Með ofangreindum umbótum eflum við samkeppnishæfni Íslands og verðum betur í stakk búin til að endurreisa hagkerfið.

Björg Ásta Þórðardóttir er yfirlögfræðingur Samtaka iðnaðarins og Ingólfur Bender er aðalhagfræðingur samtakanna.