*

miðvikudagur, 26. júní 2019
Leiðari
17. nóvember 2016 12:49

Umboð og ábyrgð

„Þar er sennilega farið forgörðum besta tækifæri liðinna áratuga til þess að mynda frjálslynda, borgaralega stjórn.“

Haraldur Guðjónsson

Á Íslandi er þingbundið lýðræði og af því að leiðir engin ríkisstjórn situr nema í friði þingsins. Hér er ekki hefð fyrir minnihlutastjórnum og utanþingstjórn er þvílíkt neyðarbrauð að sennilega yrði fyrr gengið til kosninga á ný en að þingheimur felldi sig við slíkan vanmátt og niðurlægingu. Því hvílir rík skylda á þingheimi að reyna sitt ýtrasta til þess að koma á starfhæfri ríkisstjórn. Þrýstingurinn er ekki minni fyrir það að fjárlagafrumvarp bíður afgreiðslu.

Vikuna fyrir kosningar var það sagt á þessum stað, að þrátt fyrir fjölda framboða snerist valið í raun aðeins um tvennt: hagsæld og öryggi undir borgaralegri stjórn eða óvissu og öngþveiti vinstristjórnar. Pólitískan og efnahagslegan stöðugleika mætti aðeins tryggja með því að kjósa þá flokka sem með sanni mætti telja frjálslynda og markaðssinnaða flokka. Í því samhengi voru hér nefndir Sjálfstæðisflokkur, Viðreisn og Björt framtíð.

Það voru því töluverð vonbrigði að stjórnarmyndunarviðræður þeirra flokka skyldu fara út um þúfur og áhyggjuefni að Vinstri græn eru komin með stjórnarmyndunarumboð í hendur með það að sérstöku markmiði að mynda fimm flokka vinstristjórn.

Þar er sennilega farið forgörðum besta tækifæri liðinna áratuga til þess að mynda frjálslynda, borgaralega stjórn, sem náð gat saman um fjölmörg af brýnustu framfaramálum landsins, þó sjálfsagt bæri eitt og annað í milli. Hermt er að þar hafi Evrópumálin og stjórn fiskveiða verið helstu ásteytingarsteinar. Það má telja með nokkrum ólíkindum, því þó þar ræði um veigamikil ágreiningsefni, þá er erfitt að halda því fram að þau séu brýn. Jafnvel Viðreisn hirti ekki um að gera Evrópumálin að kosningamáli.

Í kosningum fá stjórnmálaflokkar umboð kjósenda. Það getur verið mikið eða lítið eftir atkvæðatölum,en það stýrist einnig af þeim málum sem flokkarnir settu á oddinn í kosningabaráttunni. Þannig kynni Samfylkingin að taka þátt í stjórnarmyndun, en engum dytti í hug að hún hefði ríkt umboð kjósenda fyrir vaxtabótaleiðinni. Sjálfstæðisflokkurinn forðaðist í lengstu lög að taka upp stór kosningamál og því má líta svo á að í kosningasigri hans felist umboð til þess að halda áfram „á réttri leið“ en ekki til þess að taka til við stórkarlalegar umbreytingar.

Enginn efast um að Viðreisn náði ágætum árangri sem nýtt framboð, en það er óhyggilegt fyrir hana að nota tækifærið til þess að ná fram ýtrustu kröfum. Ekki aðeins gagnvart mögulegum samstarfsflokkum, heldur einnig gagnvart kjósendum. Hið sama á við um Bjarta framtíð, sem missti tvo þingmenn. Í raun má segja það um alla flokka á þingi, að þeir þurfi að stíga varlega til jarðar, fylgið er tvístrað og umboð þeirra flestra afar veikt. Þeir þurfa því að stilla metnaði sínum í hóf og gegna þeirri skyldu sinni við kjósendur að ná saman um starfhæfa ríkisstjórn. Jafnvel þótt þeir þurfi að vinna með flokkum sem þeim geðjast lítið að eða geyma gæluverkefnin til betri tíma.

Sennilega eru Íslendingar ekki fjarri hátindi hagsveiflunnar. Það verður ekki vandalaust þegar hægist á uppganginum og einnig eru erfið verkefni framundan á vinnumarkaði. Það skiptir miklu að næsta ríkisstjórn auðsýni ábyrga hagstjórn. Hún þarf að vera nógu stór og sterk til þess að geta stigið á hemilinn, þarf að sýna stefnufestu þegar niðursveiflan hefst og hún þarf að halda ró sinni og standast freistingar skattahækkana og aukinna ríkisumsvifa.

Umfram allt þarf næsta ríkisstjórn þó að forðast það að eyða tíma sínum í stórpólitískar krossferðir. Enginn flokkur á Alþingi hefur umboð til þess að leggjast í slíka leiðangra.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is