*

sunnudagur, 25. ágúst 2019
Andrés Magnússon
11. nóvember 2017 13:43

Umboð og umleitanir

Þó að starfsmannavelta fjölmiðla sé alltof mikil, þá er hún ekki nándarinnar jafnmikil og gerist á Alþingi.

Haraldur Guðjónsson

Þreifingar um stjórnarmyndun standa enn yfir, enda í sjálfu sér ekki langt frá kosningum. Eins og gefur að skilja segja fjölmiðlar frá þeim viðræðum, svona að því marki sem unnt er að greina frá nokkru um þær.

Viðræður og þreifingar af því taginu eru í eðli sínu trúnaðarsamtöl um það sem gæti orðið og því er þess ekki að vænta að þaðan berist neitt sem hönd á festir. Sem er skýringin á hinum ótal og óendanlegu fréttum um að menn hafi varist allra frétta, það hafi verið létt eða þungt yfir þeim þegar þeir komu eða fóru til funda o.s.frv., ásamt einhverri flatneskju um hvernig veðrið hafi verið og hvort það sé fyrirboði einhvers.

Vangaveltur um að mikið eða lítið beri á milli, að þessi málin eða hin séu ásteytingarsteinar, en að menn séu að sameinast um eitthvað annað, allt kann það að vera rétt og jafnvel haft eftir innanbúðarmanni, en yfirleitt er slík speki fullkomlega fyrirsjáanleg útlegging á því sem menn vissu um flokkana fyrir.

Sumt af þessu eru bara hefðbundin almannatengsl. Þar má t.d. nefna hinar (viðvaningslega) skipulögðu myndatökur af vandræðalegum stjórnmálamönnunum í stofunni í Syðra-Langholti, þar sem krútthundurinn og pítsuveislan voru eini liturinn. Að ógleymdri froðunni um „lausnamiðaðar“ viðræður og það allt. En ekki hvað? Hefðu menn annars náð saman með vænni slettu af átakastjórnmálum?

                                                  ***

Auðvitað er fjölmiðlum vorkunn í þessum efnum. Stjórnarmyndunin varðar almenning miklu, en þar til hún lukkast er ekki mikið að frétta af þeim. Það er því vel skiljanlegt að þeir freistist til þess að dramatísera þessar þreifingar og viðræður allar. Það er auðvitað alveg sérstaklega auðvelt þegar þeir hafa Bessastaði sem leiktjöld, þar sem stjórnmálafólk kemur og fer til funda við þjóðhöfðingjann og hvert við annað, ábúðarmikið og íbyggið, nánast eins og það viti meira en það má segja.

Það er hins vegar freisting sem fjölmiðlar verða að reyna að standast. Það á ekki að dramatísera fréttir.

                                                  ***

Hugsanlega kann reynsluleysi að spila þarna inn í, því þessar stjórnarmyndunarviðræður eru stórt séð eins og þær allar, frekar varfærinn og klaufalegur dans í kringum heitan graut, þar sem engin ástæða er til þess að flýta sér um of, enda vita menn vel að þetta lukkast einhvern veginn að lokum.

Þessi skýring með reynsluleysið heldur hins vegar ekki vel þegar það rifjast upp hve títt hefur verið kosið undanfarin ár. Þó að starfsmannavelta fjölmiðla sé alltof mikil, þá er hún ekki nándarinnar jafnmikil og gerist á Alþingi.

                                                  ***

Fyrrnefnd dramatísering hefur fundið sérstakan stað í hjörtum fjölmiðlafólks þegar kemur að stjórnarmyndunarumboðinu.

Af fréttum að dæma er umboðið nánast eins og hið heilaga gral eða að lágmarki skrautritað kálfskinn, sem veitir handhöfum þess einkaleyfi og yfirskilvitlega krafta til þess að mynda ríkisstjórn fyrir forsetann.

Fjas fjölmiðla um formlegt umboð til stjórnarmyndunar (sem gefur þá til kynna að einnig sé til óformlegt umboð) er beinlínis villandi fyrir almenning. Hvaða stjórnmálamaður sem er getur leitað samstarfs við aðra flokka með stjórnarmyndun í huga. Hann þarf enga aðstoð forsetans til þess, það lukkast ef það lukkast. Ef illa gengur getur forsetinn auðvitað falið einhverjum einum umboðið en með því er hann fyrst og fremst að leggja frumkvæðisskyldu á viðkomandi. En það bindur enga aðra, hvorki til viðræðna né frá því að leita sjálfir fyrir sér. Ef Inga Sæland húkkar sér far á Bessastaði og segist vera búin að mynda meirihluta, þá skiptir engu máli hver annar heldur á þessu ímyndaða umboði.

Á Íslandi er þingbundin stjórn, ekki forsetabundin stjórn. Atbeini forseta er til þess fallinn að greiða fyrir stjórnarmyndun, ekki að stýra henni eins og mætti skilja af sumum fréttum. Og þetta vita fjölmiðlamenn flestir.

Af einhverjum ástæðum þykir þeim sumum betra að klæða viðræðurnar í einhvern ritúalskan búning með helgum gripum og handayfirlagningu. En þannig er það ekki.

Það er ekkert „formlegt stjórnarmyndunarumboð“ af því að stjórnarmyndunin er ekki formleg, ekki stjórnskipuleg, heldur persónuleg og pólitísk aðferð til þess að koma á skipulegum meirihluta í þinginu, sem síðan styður það lið sem það gerir út af örkinni til þess að veita framkvæmdavaldinu forstöðu.

Hlutverk fjölmiðla er að einfalda og skýra hið flókna og óljósa. Ekki að hafa uppi einhvern tilbúning af þessu tagi.

                                                  ***

Um liðna helgi var sagt frá því að 12 starfsmenn þriggja fjölmiðla — fjórir starfsmenn fréttastofu Ríkisútvarpsins, fimm starfsmenn 365 miðla og þrír starfsmenn Stundarinnar — hefðu verið boðaðir til skýrslutöku hjá Héraðssaksóknara vegna rannsóknar á gagnaleka úr Glitni.

Glitni HoldCo, þrotabúi Glitnis, hugkvæmdist í síðasta mánuði að gera kröfu um lögbann á fréttaflutning Stundarinnar af trúnaðargögnum úr Glitni, en fjölmiðlar hafa gert sér mat úr þeim reglulega frá árinu 2012. Í framhaldinu vaknaði Fjármálaeftirlitið til lífsins og lagði því fram kærur vegna brota á bankaleynd.

Eins og áður hefur verið bent á í þessum dálki eru blaðamenn ekki bankamenn og á þeim hvílir því engin almenn trúnaðarskylda um upplýsingar af þessu tagi.

Það kann hins vegar að vera forvitnilegt að spyrjast fyrir um það hvort héraðssaksóknara hafi dottið í hug að boða starfsmenn eigin embættis í skýrslutöku, en þaðan hefur ýmislegt góðgæti lekið út um dagana. Nú eða starfsmenn bankans, skilanefndarinnar, FME, KPMG, Kroll o.s.frv.? Við blasir að það var einhver þeirra, sem braut bankaleyndina, ekki blaðamenn, hvað svo annað sem þeir kunna að hafa gert. Er ekki öruggt að héraðsaksóknari sé að leita sökudólga, ekki syndahafra?

Hitt var þó óneitanlega skrýtið að þó margir fjölmiðlar segðu frá þessarri boðun, þá greindi enginn þeirra frá því hvaða blaða og fréttamenn ættu í hlut. Er það ekki alveg furðuleg óforvitni um það, sem þó er einna fréttnæmast. Og ef ekki óforvitni, hvað er það þá? Hlífð við kollegana? Samtrygging? Eða bara leti og lélegheit?

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.