Eignarhlutur ríkisins í bönkunum tveimur er í dag metinn á þriðja hundrað milljarða króna. Það er há fjárhæð en þó ekki meitluð í stein. Margt getur breyst í náinni framtíð.

Í fyrsta lagi er aukin samkeppni fyrirséð á bankamarkaði með tilkomu fjártæknilausna. Viðskiptabankarnir munu ekki aðeins þurfa að tileinka sér nýja tækni og aðlaga sig að breyttu samkeppnisumhverfi heldur einnig að skera verulega niður kostnað til að haldast samkeppnishæfir. Við slíkar aðstæður er víðtækt opinbert eignarhald á bankakerfinu varla skynsamlegt.

Í öðru lagi eru gerðar háar eigin- og lausafjárkröfur til íslensku bankanna, umfram það sem tíðkast í nágrannalönunum okkar , sem eru þegar farnar að hafa neikvæð áhrif á útlánagetu þeirra. Dregur það úr vexti og mögulegu söluvirði bankanna. Núgildandi eigendastefna fyrir bankana hefur legið fyrir frá árinu 2017. Ríkisbankana tvo skal selja, Íslandsbanka allan, Landsbankann að hluta. Nú tveimur árum síðar er söluferlið ekki enn hafið.

Í viðtali nýverið sagði fjármálaráðherra að beðið væri eftir tillögu frá Bankasýslunni þess efnis. Upphaflega var gert ráð fyrir því að Bankasýslan myndi ljúka störfum innan fimm ára. Stofnunin fagnar tíu ára starfsafmæli sínu á næstunni. Í eigendastefnunni stendur orðrétt: „Bankasýslan gegnir frumkvæðishlutverki við sölu á eignarhlut ríkisins í fjármálafyrirtækjum.“

Á meðan stofnunin hefur ekki lokið hlutverki sínu verður hún ekki lögð niður. Á sama tíma og vel hefur gengið að selja eignarhluti í Arion banka, eina stóra viðskiptabankanum sem ekki er að meirihluta í ríkiseigu, má velta fyrir sér hvort umboðsvandi skýri töf á sölu ríkisbankanna?

Hvað sem því líður virðist biðin á enda og er von á tillögum Bankasýslunnar fljótlega. Því ber að fagna enda fjármunum skattgreiðenda betur fyrirkomið í áhættuminni verkefnum en bankarekstri í dag.

Höfundur er forstöðumaður efnahagssviðs Samtaka atvinnulífsins.