*

fimmtudagur, 27. júní 2019
Pétur Arason
19. maí 2019 13:43

Umbylting í iðnaði – Jim Womack á Íslandi

Einn helsti stjórnunarhugsuður seinni ára er á leiðinni til landsins og kemur fram á tveimur ráðstefnum í vikunni.

Jim Womack er einn af upphafsmönnum lean hugmyndafræðinnar.
Aðsend mynd

Einn helsti stjórnunarhugsuður seinni ára er á leiðinni til Íslands en hann mun koma fram á tveimur ráðstefnum 21. og 22. maí.

Jim er einn af upphafsmönnum lean hugmyndafræðinnar en hann ásamt öðrum var í rannsóknarteymi MIT sem rannsakaði aðferðir bílaframleiðandans Toyota á árunum 1975-1992. Afrakstur þeirrar vinnu var bókin „The Machine that Changed the World“ sem kom út 1990 og þar kemur orðið „lean“ fyrst fram sem heiti yfir þær aðferðir sem Toyota var að nota.

Jim stofnaði árið 1997 Lean Enterprise Institute (LEI) og var framkvæmdastjóri þeirra samtaka frá stofnun til 2010. Í dag eru samskonar samtök í 31 landi, þar á meðal á Íslandi, en Icelandic Lean Institute var stofnað 2018.

Jim hefur skrifað margar bækur og greinar um lean aðferðirnar og sennilega er „Lean Thinking“ sem kom út 1996 sú þekktasta, en sú bók er af mörgum talin vera bókin um lean sem maður verður að lesa.

Lean er án nokkurs vafa útbreiddasta stjórnunaraðferð okkar tíma en þúsundir fyrirtækja um allan heim eru að innleiða þessa aðferðafræði. Á Íslandi hafa fyrirtæki og stofnanir verið að innleiða þessar hugmyndir í u.þ.b. 15 ár og hefur þetta verið prófað bæði í iðnaði, þjónustu og í opinbera geiranum. Mörg verkefni hafa verið unnin með frábærum árangri og væri þar hægt að nefna dæmi frá Landspítalanum, Arion banka, Þjóðskrá, Heimkaupum, Hringrás, Marel, Össuri, VÍS, Akureyrarbæ, Orkuveitunni, Icelandair, Alcoa, Landsvirkjun o.fl.

Hins vegar hefur ekkert íslenskt fyrirtæki ennþá tekið lean aðferðafræðina og notað hana sem strategískt vopn og farið í lean umbyltingu (e. lean turnaround). Um slík fyrirtæki var skrifað í bókinni Lean Thinking og var það ein helsta ástæða þess að vinsældir lean aðferðanna urðu eins miklar og raun ber vitni. Lean aðferðafræðin lagði líka að mörgu leyti grunninn fyrir agile aðferðafræðina og hefur því haft gríðarleg áhrif á nútíma stjórnunarhætti þar sem hraði, sveigjanleiki og skjót viðbrögð við breytingum og þörfum viðskiptavina eru í brennidepli.

Lean snýst, í allri sinni einfeldni, um að einblína á mannauðinn í fyrirtækinu og þróa hann áfram til að hjálpa fyrirtækinu að ná enn betri árangri. Þetta er gert með því að þróa sérstaka menningu stöðugra umbóta sem fela í sér að starfsmenn eru sífellt að leita leiða til að fjarlægja sóun úr innri ferlum með það að markmiði að gera vinnuna einfaldari og öruggari. Á þennan hátt skapast rými til að vinna með nýsköpun og búa til meira virði fyrir viðskiptavini eða skjólstæðinga.

Þetta hljómar einfalt og sennilega myndu öll fyrirtæki segja „þetta er nú það sem við erum að gera“, en lean gerir þessa hluti á annan hátt en hefðbundnar stjórnunaraðferðir kenna manni. Það er t.d. ekki verið að nýta stærðarhagkvæmni sem megin hreyfiafl breytinga og miðstýring og skriffinnska eru ekki lausnir sem lean býður upp á. Þvert á móti með einfaldleikann að vopni er búið til vinnukerfi þar sem teymi vinna saman að því að koma virði út til viðskiptavina á sem skemmstum tíma, í réttum gæðum, á réttum stað og á réttum tíma.

Algengasta nálgun fyrirtækja (líka á Íslandi) er að innleiða tól og tæki sem tilheyra lean eins og t.d. töflur, 5S, umbótavinnustofur, virðisstraumsgreiningar, kanban o.s.frv. ofan á gamlar stjórnunaraðferðir sem þegar eru fyrir hendi og útkoman er í flestum tilfellum að fyrirtækjum tekst að ná árangri í einstaka verkefnum, en menning fyrirtækjanna er ekki að breytast í takt við innleiðinguna.

Þetta er í raun vandamál í sjálfu sér því stærsta tækifæri lean aðferðanna felst í mannauðnum og menningunni en ekki einstaka verkefnum. Lean á heldur ekkert skylt við verkefnastjórnun en þessu er venjulega ruglað saman og lean aðferðir notaðar til að festa í sessi gamalgrónar hugmyndir um stjórnun sem er alls ekki tilgangurinn.

Á ráðstefnunni „Umbylting í iðnaði“ sem haldin verður þriðjudaginn 21. maí mun Jim ásamt öðrum erlendum og innlendum fyrirlesurum fara yfir inntak lean aðferðanna og hvernig maður nær framúrskarandi árangri með innleiðingu þeirra. Lögð verður áhersla á að tala um þann árangur sem getur náðst umfram það sem venjulega kemur út úr því að keyra vel heppnuð hagræðingarverkefni.

Árangur eins og 50% minni plássþörf, 50% minni fjárbinding í birgðum, margfalt betri gæði, mun styttri afhendingartímar og þar með umtalsvert betra fjárflæði eru dæmi um það sem fjallað verður um í dæmisögum dagsins.

Höfundur er stofnandi Icelandic Lean Institute.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.
25 ára afmælistilboð VB – 50% afsláttur af áskrift

Afmælistilboð VB

Viðskiptablaðið er 25 ára og af því tilefni býðst nýjum áskrifendum að kaupa áskrift á 50% afslætti.
Afmælisverðið er aðeins 2.500 krónur.

Tilboðið er fyrir nýja áskrifendur. Núverandi áskrifendur geta bætt við sig áskrift á þessu verði. Gildir í 4 mánuði. Áskrifendur fá Viðskiptablaðið, Frjálsa verslun og Fiskifréttir sent ásamt vefaðgangi að vb.is og fiskifrettir.is