*

mánudagur, 6. desember 2021
Katrín Júlíusdóttir
23. júní 2017 11:04

Umbylting á umhverfi fjármálaþjónustu

Tækifæri fjármálafyrirtækja til þess að nýta sér stafræna tækni og framfarir í gervigreind eru nánast ótakmarkandi.

Fjármálafyrirtæki á Íslandi og erlendis standa í senn frammi fyrir miklum tækifærum og áskorunum vegna hraðrar framþróunar hinnar stafrænu byltingar. Tækifæri fjármálafyrirtækja til þess að nýta sér stafræna tækni, framfarir í gervigreind og tækninýjungar á borð við raðreitatækni (e. blockchain) – svo einhver dæmi séu tekin –  til að umbreyta fjármálamálaþjónustu og gera hana enn hagkvæmari eru nánast ótakmarkandi.

Að sama skapi standa þeir sem fyrir eru á fleti frammi fyrir aukinni samkeppni. Um er að ræða beina og óbeina samkeppni nýrra fyrirtækja sem einnig nýta sér svokallaða fjármálatækni (e. fintech) og tryggingatækni (e.insurance tech) við fjármálafyrirtæki annars vegar  og vátryggingafélög hins vegar.

Breytingarnar sem þessi þróun er að valda eru svo miklar að sérfræðingar telja að umbylting eigi sér nú stað á umhverfi fjármálaþjónustu og innan fárra ára muni það eiga fátt skylt við það sem við höfum til þessa vanist. Í raun og veru má segja slíka byltingu vera nauðsynlega: Kynslóðin sem nú vex úr grasi er vön að skipta við alþjóðleg fyrirtæki á borð við Amazon, Apple og Spotify á Netinu og „splitta reikningum“ og greiða smáskuldir við vini með smáforritum fjármálafyrirtækja. Þegar þessi kynslóð fer að ráðast í fjárfestingar vegna íbúðarkaupa og fyrirtækjarekstur og annarrar fjármálaumsýslu mun hún gera aðrar kröfur en við sem eldri erum.

Lægri aðgangshindranir og tækifæri til hagræðingar

Ástæðurnar fyrir að tækniframþróunin er að leiða til aukinnar samkeppni á fjármálamarkaði er meðal annars sú að hún ryður úr vegi aðgangshindrunum og lækkar þröskulda inn á fjármálamarkaði..  En það þarf ekki eingöngu að treysta framþróun fjármálatækni til þess að ná fram auknu hagræði, meiri samkeppni og betri þjónustu.

Í skýrslu sem ráðgjafafyrirtækið Oliver Wyman gerði fyrir Samtök fjármálafyrirtækja fyrir nokkrum árum kemur fram  að hægt væri að ná fram mikilli hagræðingu í íslensku fjármálakerfi með auknu samstarfi um rekstur upplýsingatæknikerfa og annarra grunninnviða sem ekki snerta á samkeppnisþáttum í rekstri fjármálafyrirtækja.

Í skýrslunni kemur m.a. fram að  þróunin í nágrannalöndunum hefur verið á þá leið að fjármálafyrirtæki hafa í auknum mæli tekið sig saman um rekstur slíkra grunnkerfa. Þá hafa þau einnig úthýst skyldum verkefnum. Þessi þróun er bein afleiðing tækniþróunar sem og áhrif vegna flóknara regluverks  sem hefur leitt til aukins kostnaðar og ýtt undir hagræðingu i greininni.

Aukið samstarfi um rekstur innviða

Í skýrslu Oliver Wyman er tekið dæmi um að minni bankar í Danmörku og Svíþjóð hafi heimild til samstarfs á þessu sviði og hefur það leitt til lægri kostnaðar og eflt samkeppnisstöðu þeirra gagnvart alþjóðlegum bönkum. Þá er bent á að í Svíþjóð eiga stærstu bankarnir sameiginlegt hraðbankakerfi - Bankomat - og rauntímagreiðslukerfi - Swish - sem aðrir bankar hafa greiðan aðgang að. Þá eiga norsk tryggingafélög í samstarfi um rekstur sameiginlegs tjónagagnagrunns. Samstarfið hefur skilað miklum árangri í að koma í veg fyrir vátryggingasvik sem svo hefur leitt til lægri iðgjalda. Samkvæmt Oliver Wyman hefur þetta leitt til sparnaðar sem nemur um 3-5% af heildariðgjöldum norskra vátryggingafélaga. Ef þetta er heimfært upp á heildariðgjöld skaðatryggingafélaganna hér á landi árið 2014 væri um að ræða sparnað upp á 2,2 milljarða króna. Mikilvægt er að stjórnvöld og fjármálafyrirtæki vinni á hverjum tíma saman að því að finna hagkvæmustu leiðirnar til reksturs fjármálaþjónustu því hún tekur örum breytingum.  Á þessum tímapunkti er því mikilvægt að skoða þessa leið nánar hér á landi og hvort slíkur samrekstur geti leitt til minni kostnaðar fyrir neytendur og lægri þröskulda inn á markaðinn. Tæknibreytingar og breyttar áherslur eftirspurnar er að umbreyta fjármálaþjónustu á Vesturlöndum. Á sama tíma eykst kostnaður í rekstri fjármálafyrirtækja vegna aukins regluverks. Til þess að íslensk fjármálafyrirtæki – bæði þau sem eru starfandi í dag og þau sem koma til með líta dagsins ljós – geti verið í fremstu röð við nýta sér tækifærin sem af tæknibyltingunni hlýst , þarf að fara alla leið í skoðun á því hvort hægt sé að skilgreina tæknigrunn sem geti verið grundvöllur fyrir útvistun og eða samreksturs. Þannig getur samkeppni um þjónustu sem „stungið er í samband“ við slíkan grunn tekið flugið og kostnaður neytenda lækkað.

Höfundur er framkvæmdastjóri Samtaka fjármálafyrirtækja.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.