*

þriðjudagur, 14. júlí 2020
Óðinn
6. desember 2016 09:59

Umdeilda Járnfrúin og einræðisherrann

Það má segja að Castro og Thatcher hafi verið holdgervingar sinnar hvorrar stjórnmálastefnunnar, en eftirmæli þeirra voru æði ólík.

Á þremur árum hafa tveir afar merkilegir einstaklingar fallið frá, báðir eftir langvarandi veikindi. Ómögulegt er annað en að viðurkenna að báðir höfðu gríðarleg áhrif á eigin heimaríki og reyndar á heiminn allan, en báðir voru lengi á valdastóli.

Viðbrögð fjölmiðla við fráfalli þeirra tveggja hafa hins vegar verið athyglisverð, ekki síst fyrir þeirra hluta sakir að annar valdhafanna fyrrverandi var raunverulegur einræðisherra, sem braust til valda með ofbeldi, hélt völdum með ofbeldi og afhenti svo bróður sínum valdataumana þegar hann þurfti frá að hverfa vegna hrakandi heilsu.

Hinn leiðtoginn var kona sem þurfti alla tíð að synda gegn straumi fordóma gagnvart konum, var lýðræðislega kjörinn formaður síns stjórnmálaflokks og lýðræðislega kjörinn leiðtogi þjóðar sinnar þrisvar sinnum. Þegar samherjar hennar í pólitík nýttu sér lýðræðið til að koma henni frá völdum vék hún þaðan möglunarlaust.

                                                         * * *

Fidel Castro og Margaret Thatcher áttu ekki margt sameiginlegt, en í raun má segja að þau hafi verið holdgervingar þeirrar stjórnmálastefnu sem hvort um sig aðhylltist.

Castro var lengi – og er enn – í sérstöku uppáhaldi hjá mörgum vinstrimanninum og eins eru margir hægra megin við miðju pólitíkurinnar sem hafa dálæti á Thatcher. Eins er óhætt að segja að andúð pólitískra andstæðinga þeirra beggja hafi verið hatrömm.

                                                         * * *

Óðinn er hins vegar á þeirri skoðun að aðdáunin sem skinið hefur í gegnum allan fréttaflutning af Castro frá andláti hans fyrir nokkrum dögum segi meira en mörg orð um þann tvískinnung sem einkennir oft pólitíska umræðu.

                                                         * * *

Enginn efast um það að einræðisherrann Batista, sem Castro og félagar steyptu af stóli á sjötta áratugnum, hafi verið illmenni og að af honum hafi ekki verið nein eftirsjá.

Það má hins vegar ekki verða til þess að algerlega sé horft framhjá glæpum þeirra sem tóku við stjórn Kúbu á eftir honum.

Tugir þúsunda voru teknir af lífi í nafni byltingarinnar og þá flúðu ótalmargir yfir hafið til Bandaríkjanna og lögðu sig í mikla hættu fyrir vikið. Það er ekki til marks um að landi sé vel stjórnað.

                                                         * * *

Hver er árangurinn?

Þeir sem bera í bætifláka fyrir Castro benda oft á árangur kúbverskra yfirvalda í mennta- og heilbrigðismálum – eins og það geti afsakað stórkostleg mannréttindabrot stjórnarinnar – en hversu góður er árangurinn?

Vissulega eru mörg sjúkrarúm á hvern mann á Kúbu, en útgjöld til heilbrigðismála þar í landi eru ekki mikið meiri en í nýfrjálshyggjuríki Thatcher. Færri börn sækja grunnskóla en í Bretlandi og hagvöxtur á hvern íbúa Kúbu hefur verið til skammar.

Áhugavert er að sjá að Alþjóðabankinn hefur ekki aðgang að upplýsingum um það hversu stór útgjöld kúbverska ríkisins til menntamála eru sem hlutfall af landsframleiðslu. Vart væru kúbversk yfirvöld að fela þessar upplýsingar ef þær gögnuðust þeim í áróðursbaráttunni.

                                                         * * *

Kúba er ennþá, þrátt fyrir loforð byltingarinnar, ennþá fátækt ríki. Mánaðarlaun venjulegs fólks eru talin í tugum bandaríkjadala. Eru mánaðarlaun lækna í þessu draumaríki heilbrigðisins aðeins um þrjátíu dalir á mánuði.

Eftir að fjárhagsaðstoð Sovétríkjanna þraut árið 1991 var skorturinn svo mikill að vannæringar gætti í landinu. Eftirlaun eru með því lægsta sem gerist á vesturhveli, eða aðeins um 9,5 dalir á mánuði.

                                                         * * *

Thatcher tókst hins vegar að rífa Bretland, hinn „veika mann Evrópu“, upp úr dal efnahagslegrar stöðnunar og leggja grunninn að ótrúlegri upprisu breska hagkerfisins. Að þessu búa Bretar ennþá.

Hún gerði þetta m.a. með því að lækka skatta, en ekki síst með því að brjóta á bak aftur völd verkalýðsfélaganna, sem orðin voru allt of valdamikil í Bretlandi þegar hún tók við völdum. Þetta hafa vinstrimenn ekki enn getað fyrirgefið henni.

Hún var umdeild

Það var því afar áhugavert að lesa umfjöllun fjölmiðla um dauðsfall einræðisherrans kúbverska, einkum þegar hún er borin saman við sambærilega umfjöllun þeirra um Margréti Thatcher eftir að hún féll frá árið 2013. Á það jafnt við um íslenska sem erlenda miðla.

                                                         * * *

Höfum það í huga að annað þeirra vann meirihluta í breska þinginu þrennar kosningar í röð, hitt náði völdum með blóðugri byltingu og hélt völdum í krafti hersins.

                                                         * * *

Í grein Boga Ágústssonar, „Einstakur ferill Margaret Thatcher“, sem reyndar er um margt ágætur, segir að Thatcher hafi líklega átt „jafn marga óvini og aðdáendur“, að andlát hennar hafi ekki verið „öllum harmdauði“ og að „tillitsleysi hennar og nánast dónaleg framkoma við nána samstarfsmenn“ hafi aflað henni óvildarmanna innan Íhaldsflokksins.

Í frásögn Ríkisútvarpsins af útför Thatcher var tekið fram að hún hafi verið „afar umdeild“ og að stefna hennar hafi verið sögð „hafa valdið atvinnuleysi og eymd“. Línan um það hvað Thatcher var „umdeild“ var endurtekin síðar sama dag þegar greint var frá mótmælum við útförina.

                                                         * * *

Fyrir fráfall Thatcher greindi Ríkisútvarpið frá því að Bretar hefðu valið hana áhrifamestu konu síðustu 200 ára. Enn á ný var tekið fram að Thatcher hefði „alla tíð verið umdeild í Bretlandi“ og sérstaklega tekið fram að „aðeins“ fjórðungur breskra kvenna hefði valið hana áhrifamestu konuna í könnuninni.

Fleiri dæmi má nefna. Í frétt Eyjunnar af fráfalli Thatcher var tekið fram að hún hefði verið „umdeild“. Þegar Bjarna Benediktssyni varð á að vitna í þau orð Thatcher að vandinn við sósíalismann væri sá að á endanum yrði fé annarra uppurið, varð allt vitlaust í netheimum vinstrimanna.

Hallgrímur Helgason rithöfundur kallaði þá Thatcher „djöfulandstæðing verkalýðsbaráttunnar“ og Birgitta Jónsdóttir Pírati sagði: „Vá, makalaust að fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins sé svo veruleikafirrtur að á sjálfum 1. maí vísi hann í böl sósíalisma með tilvitnun þar að lútandi í járnfrúna“. Glæpur Bjarna var ekki aðeins sá að voga sér að vitna í Thatcher, heldur að hafa gert það á 1. maí.

                                                         * * *

Byltingarhetja og forseti

Fidel Castro hefur hins vegar átt marga vini og viðhlæjendur á þeim sama degi og eru ótalmörg dæmi um að myndum af honum eða vini hans, Che Guevara, hafi verið veifað í kröfugöngunni, fána Kúbu verið flaggað og hefur Óðinn ekki tölu á því hversu oft setningin Hasta la victoria siempre! hefur heyrst við þessar aðstæður.

                                                         * * *

Merkilegt nokk var nefnilega farið með öðrum og mildari höndum um Fidel Castro í fjölmiðlum en Thatcher, sem þó var lýðræðislega kjörinn leiðtogi síns lands.

Þó er Óðni ljúft og skylt að vekja athygli á því að í frétt Ríkisútvarpsins af andláti Castro er hann réttilega kallaður „fyrrverandi einræðisherra“.

Í frétt MBL.is var látið nægja að segja að Castro hefði verið byltingarleiðtogi og í frétt Vísis var hann einfaldlega titlaður fyrrverandi forseti Kúbu.

                                                         * * *

Í engum þessara frétta íslensku miðlanna er einu orði minnst á það að Castro lét myrða tugi þúsunda eigin samborgara á árunum eftir byltinguna 1959. Ekki er minnst á það að ótalinn fjöldi samkynhneigðra og annarra „óæskilegra“ þegna ríkisins var fangelsaður og að HIV smitaðir voru settir í sérstakar fangabúðir.

Af skyldurækni er sambúð Kúbu og Bandaríkjanna rakin í öllum fréttunum, en meira gert úr misheppnaðri innrásartilraun, kenndri við Svínaflóa, en þeirri staðreynd að Castro gerði allt hvað hann gat til að sannfæra Sovétmenn um að varpa kjarnorkusprengjum á bandarískar borgir.

                                                         * * *

Sigurgeir Sigurðsson var bæjarstjóri á Seltjarnarnesi í næstum fjörutíu ár. Pólitískir andstæðingar hans um allt land voru farnir að kalla hann Castro vegna þaulsetu hans í bæjarstjórastólnum. Það sýndi fyrst og fremst lítinn skilning þeirra á Kúbu.

Þeir horfðu hins vegar framhjá þeim augljósa mun á þeim tveimur að á fjögurra ára fresti þurfti Sigurgeir fyrst að keppa um sæti á lista flokksins í prófkjöri og svo að leggja störf sín í dóm kjósenda í sveitarfélaginu. Og alltaf gjörsigraði hann andstæðingana.

                                                         * * *

Þetta gerði Castro aldrei, enda var hann jafn mikill hatursmað¬ ur lýðræðisins og hann hataðist út í kapítalisma, einstaklingsfrelsi, samkynhneigð og Bandaríkin.

Kúbverjar eru enn að gjalda fyrir valdatíð Castro og kúbverskra kommúnista og munu gera það enn um langa hríð.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.