*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Andrés Magnússon
1. júní 2020 07:46

Umgengni og aðgát

„Mál af þessu tagi eru ævinlega einstaklega viðkvæm, það eru barnssálir í spilinu, og oftast ákaflega heitar tilfinningar líka.“

Haraldur Guðjónsson

Að undanförnu hefur borið nokkuð á fréttaflutningi af umgengnismálum, einatt blandin umræðu um svokölluð tálmunarmál. Það er sjálfsagt að fjölmiðlar fjalli um slíkt, en það verða þeir þó að gera af stillingu og sanngirni. Mál af þessu tagi eru ævinlega einstaklega viðkvæm, það eru barnssálir í spilinu, og oftast ákaflega heitar tilfinningar líka. Um það allt eiga fjölmiðlar erfitt með að fjalla, þar ræðir iðulega um ströng einkamál, ást sem snúist hefur í hatur, ævinlega orð á móti orði um jafnvel einföldustu hluti og oftlega ásakanir um yfirgang, jafnvel saknæma hegðun, sem reynst getur afar erfitt, jafnvel ómögulegt að staðfesta.

Þar er fjölmiðlum mikill vandi á höndum. Þar geta verið mál, sem þarf að segja frá á opinberum vettvangi, en samt er fjölmargt í þeim sem ákaflega hæpið er að eigi erindi til almennings. Þar reynir bæði á dómgreind og vinnubrögð.

Af viðbrögðum á félagsmiðlum (og lestrartölum) verður ekki annað ráðið en að margir hafi mikinn áhuga á þessum fréttum. Má raunar teljast með ólíkindum hve margir treysta sér til þess að fjalla með mjög afdráttarlausum hætti um forsjár- og umgengnisdeilur fólks á netinu, deilur sem það eðli máls samkvæmt getur aðeins haft mjög yfirborðskennda vitneskju um, en ekki sjaldnar má þó draga í efa að sú vitneskja byggi á traustum heimildum.

Hugsanlega réttlæta einhverjir þátttöku í slíkri umræðu fyrir sér og öðrum með því að það þekki eitthvað til, sé tengt hlutaðeigandi með einhverjum hætti, nú eða bara að það telji sig hafa verið í sambærilegri stöðu sjálft. Það kann að vera fólki réttmætt tilefni til þess að tjá sig um hið almenna í þessum málum, en ekki hið sértæka.

Svipað má segja um fjölmiðlaumfjöllun af slíkum málum, sem ávallt er sögð af öðrum málsaðila, yfirleitt vegna þess að fólkið telur sig slíkum órétti beitt, að það eigi einskis annars úrkosti en að leita til fjölmiðla til þess að rekja raunir sínar og leita þannig samúðar almennings, sem hugsanlega gæti orðið til þess að rétta hlut þess, þó ekki væri nema að almenningsáliti. Vel má vera að það finni einhverja hugarsvölun í því, en það breytir ekki því að sú ákvörðun kemur nær óhjákvæmilega niður á þeim sem síst skyldi: börnunum. Eða eins og Dagbjört Hákonardóttir, lögmaður og persónuverndarfulltrúi Reykjavíkurborgar, orðaði það ágætlega: „Ákvörðun um að leggja allt á borð fyrir fjölmiðla er aldrei neyðarúrræði heldur er foreldrið að setja sínar þarfir í fyrsta sæti."

Þetta þurfa fjölmiðlar að hafa í huga, aðgát skal höfð og allt það. En svo stendur líka eftir ritstjórnarlegt mat á því hvað eigi erindi við almenning. Það á ekki að vera einvörðungu háð þörf fólks til þess að tjá sig um viðkvæm málefni.

* * *

Eva Hauksdóttir vék að þessum málum í áhugaverðum skrifum í Kvennablaðinu, þar sem hún rakti umræður á félagsmiðlum eftir að hún deildi yfirlýsingu Dofra Hermannssonar, en þar talaði hann um umfjöllun Stundarinnar um umgengnismál honum tengd sem ofsóknir. Jón Trausti Reynisson, ritstjóri og útgefandi Stundarinnar, lagði þar orð í belg og fann að því að Kvennablaðið ynni ekki rannsóknarvinnu í þeim málum, sem það fjallaði um, deildi svo „ásökun á miðilinn sem þó [ynni] rannsóknarvinnuna", birti þannig ásakanir á hendur nafngreindri konu án þess að þekkja málið og að í yfirlýsingunni hefði Dofri snúið út úr orðalagi Stundarinnar.

Eva svaraði þessu sem fyrr segir í Kvennablaðinu og sagði nær að Jón Trausti tæki til heima hjá sér. Hún minnti á að í lok árs 2015 hefði Stundin birt sögu Dofra, sem m.a. sagði fv. eiginkonu hafa beitt sig ofbeldi og skaðað samband hans við börn þeirra. Það hefði verið einhliða „drottningarviðtal", sem væri gagnrýnivert þegar umfjöllun varðaði almannahagsmuni, en gæti vel átt rétt á sér í öðru samhengi og væri raunar viðtekin venja þegar um reynslusögur einstaklinga væri að ræða. Eftir sem áður hefði það verið Stundin sem opnaði málið og miðað við gagnrýni Jóns Trausta þá hlyti Stundin að hafa gengið úr skugga um réttmæti ásakana hans.

Ekkert hefði verið um þessi mál fjallað í fjölmiðlum fyrr en í liðnum mánuði, eftir að Dofri birti grein á Vísi, en í framhaldinu birtu uppkomnar dætur hans yfirlýsingu á félagsmiðlum, þar sem þær lýstu Dofra sem ofbeldismanni, án þess að skýra það frekar, en Stundin hefði sagt frá þessari yfirlýsingu skýringalaust. Eva kveðst af orðum Jóns Trausta ætla að vönduð rannsóknarvinna hafi legið á bak við ritstjórnarákvörðun hans um að birta þá yfirlýsingu dætra Dofra sem frétt hálftíma síðar.

Eva kveðst í framhaldinu hafa leitað viðtals við Dofra og greinir frá því hvernig hún hafi aflað sér heimilda og staðfestinga á því að frásögn hans hafi verið rétt og eins rekur hún hvernig Stundin hefði dregið upp mynd af Dofra sem ofbeldismanni út frá einhliða frásögn, bæði með viðtali við dætur hans og í formi frétta, sem hann gæti tæplega látið ósvarað. Stundin hefði - vonandi í góðri trú - birt ranga og ærumeiðandi frétt af honum. Og segir svo:

Stundin getur auðvitað ekki frekar en ég eða nokkur annar vitað hvað nákvæmlega hefur gerst í samskiptum Dofra, dætra hans og barnsmóður. Við getum ekki slegið því föstu hver beitti hvern gaslýsingu, hver laug upp á hvern eða hver beitti hvern ofríki í tilvikum þar sem engar heimildir eru fyrir hendi nema frásagnir hlutaðeigandi. Það sem við getum gert við frásagnir sem ekki er hægt að staðfesta er að meta hvort þær eigi erindi við almenning og ef svo er að setja þær þá fram á þann hátt að lesendum dyljist ekki að um einhliða frásögn er að ræða.

* * *

Það er hverju orði sannara. Fjölmiðlarýnir ætlar fyrir sitt leyti ekki að blanda sér í þessar deilur Kvennablaðsins og Stundarinnar, þó honum þyki Eva óneitanlega hafa meira til síns máls. En eftir sem áður er vandinn sá að þarna ræðir oftast um flókin og erfið mál, jafnvel voðaleg, sem sjaldnast eiga erindi við almenning Fjölmiðlar mega ekki veigra sér við því að rekja það sem sannarlega á erindi við almenning, sem er þá yfirleitt hið almenna og þarf að varast að gera persónulegt. En þeir þurfa einnig að varast að gera sér mat úr viðkvæmum einkamálum af því tagi. Enn frekar þó þegar fólk fer í fjölmiðla sem hluta af herferð í málum sem ekki verða útkljáð á þeim vettvangi. Og fórnarlömbin ávallt þau sem síst skyldi.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.