Uppljóstrari er einstaklingur sem greinir frá leynilegum upplýsingum eða aðgerðum sem fela í sér brot á lögum, eru ósiðleg eða fela í sér ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitenda þeirra hvort sem þeir starfa hjá hinu opinbera eða á einkamarkaði. Uppljóstrarar geta bæði verið starfsmenn eða aðilar utan fyrirtækis eða einingar.

Mörg dæmi eru um uppljóstrara sem afhjúpað hafa umfangsmikil svik. Árið 2002 afhjúpaði Cynthia Cooper, sem starfaði við innri endurskoðun hjá fjarskiptarisanum WorldCom, ásamt teymi sínu bókhaldssvik þar sem fyrirtækið hafði vantalið útgjöld um 3,8 milljarða dollara. Var um að ræða eitt stærsta bókhaldssvikamál í sögu Bandaríkjanna.

Algengast er að uppljóstranir séu svokallaðar innri uppljóstranir þar sem uppljóstrari getur upplýst nafnlaust um misferli samtarfsmanns eða yfirmanns innan fyrirtækis. Mörg fyrirtæki hafa komið sér upp kerfi þar sem starfsmenn geta tilkynnt um slíkt án þess að hægt sé að rekja tilkynningu til viðkomandi. Algengt er að yfirmenn eftirlitseininga, til dæmis regluvörður eða innri endurskoðandi, fari yfir slíkar tilkynningar og vinni úr þeim.

Ytri uppljóstranir fela í sér að tilkynningar eru sendar til ytri aðila. Getur þessi leið verið ákjósanleg fyrir uppljóstrara ef hann treystir sér ekki til að koma tilkynningunni á framfæri innan fyrirtækis, ef ekki hefur verið brugðist við upplýsingum eða ef önnur leið er ekki fær. Þessir ytri aðilar geta t.d. verið lögmenn, lögregla eða stofnanir. Sem dæmi má nefna að á heimasíðu Fjármálaeftirlitsins er að finna sérstaka samskiptagátt vegna uppljóstrana, hægt er að senda ábendingu um skattsvik til skattrannsóknarstjóra ríkisins og tilkynna bótasvik á heimasíðu Vinnumálastofnunar. Bankar hafa einnig komið sér upp kerfum til að taka nafnlaust við slíkum upplýsingum.

Að afhjúpa leynilegar upplýsingar getur haft gríðarleg áhrif á líf uppljóstrara og ef nöfn þeirra eru opinberuð getur það jafnvel sett líf þeirra í hættu. Hafa mörg lönd því farið þá leið að setja lög um vernd uppljóstrara. Slík lög voru samþykkt á Íslandi 12. maí síðastliðinn – Lög nr. 40/2020 – en taka gildi 1. janúar á næsta ári. Markmið þeirra er stuðla að því að upplýst verði um lögbrot og aðra ámælisverða háttsemi og þannig dregið úr slíku hátterni. Lögin ná bæði yfir starfsmenn opinberra aðila og einkaaðila og verða virk þegar starfsmaður miðlar upplýsingum um alvarleg brot í starfsemi vinnuveitanda síns í góðri trú til þar til bærs aðila. Með góðri trú er átt við að starfsmaður hafi góða ástæðu til að telja gögnin eða upplýsingarnar sem hann miðlar séu réttar, það sé í þágu almennings að miðla þeim og að hann eigi ekki annan kost til að koma í veg fyrir brot.

Sá sem fær upplýsingar frá ytri uppljóstrunum skal gæta leyndar um persónuupplýsingar ef þeim er til að dreifa nema afdráttarlaust samþykki liggi fyrir. Nú er sú skylda sett á fyrirtæki eða aðra vinnustaði með 50 starfsmenn eða fleiri að til staðar séu reglur um verklag við uppljóstrun starfsmanna um lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi. Reglur þessar eiga að vera aðgengilegar öllum starfsmönnum og þar skal fjallað um móttöku, meðhöndlun og afgreiðslu tilkynninga um hugsanleg lögbrot eða aðra ámælisverða háttsemi í starfsemi vinnuveitandans. Mörg fyrirtæki hafa nú þegar innleitt reglur sem þessar en fyrir önnur má benda á að fyrirmynd að reglum skal, samkvæmt lögunum, vera aðgengileg hjá Vinnueftirliti ríkisins.

Í desember sl. sendi kínverski læknirinn Li Wenliang skilaboð á samstarfsfólk um veiru sem hann taldi líkjast SARSveirunni. Lögregluyfirvöld í Kína skipuðu honum hins vegar að hætta að dreifa áróðri gegn kínverskum yfirvöldum. Hver veit nema heimurinn væri á öðrum stað ef Li Wenliang, sem seinna lést úr Covid-19, hefði fengið að koma sínum upplýsingum á framfæri undir öðrum og betri kringumstæðum.

Það liggur í hlutarins eðli að sjaldnast er upplýst um afdrif þeirra mála sem verða til í kjölfar upplýsinga sem koma frá uppljóstrurum en það eru mýmörg mál sem koma upp og fara í úrvinnslu vegna upplýsinga sem koma þessa leið. Það er því gott skref að búið er að setja þessi lög því þannig er tryggð umgjörð um þá sem búa yfir upplýsingum því það er mikilvægt fyrir samfélagið að það fólk stígi fram.

Höfundar eru stjórnarmenn í Félagi um innri endurskoðun