*

laugardagur, 6. júní 2020
Andrés Magnússon
26. janúar 2020 13:43

Umsagnir og usli

Tilhugsunin um að komast á spenann grefur undan ritstjórnarlegu sjálfstæði og trúverðugleika Kjarnans að mati fjölmiðlarýnis.

Skjáskot af vef Kjarnans.

Fréttablaðið birti skoðanakönnun á mánudag, þar sem kom fram að aðeins rúmur fjórðungur svarenda er hlynntur hugmyndum um fjárstuðning hins opinbera við einkarekna fjölmiðla. Rúm 44% segjast andvíg hugmyndunum en tæp 30% eru hvorki hlynnt né andvíg. Ef aðeins er litið til þeirra, sem afstöðu tóku til frumvarpsins, eru 36% hlynnt frumvarpinu en 64% andvíg því.

Að því virtu er varla skrýtið þó brösuglega hafi gengið að koma frumvarpinu inn í þingið og stuðningur við það í ríkisstjórnarliðinu óviss. Líkt og áður hefur verið drepið á í þessum pistlum er frumvarp Lilju Alfreðsdóttur menningarmálaráðherra, um að búa til styrkjakerfi fyrir fjölmiðla nú til meðferðar hjá allsherjar- og menntamálanefnd. Samkvæmt frumvarpinu verður 400 milljónum veitt árlega í stuðning til einkarekinna fjölmiðla, en þó með 50 m.kr. þaki á hvern miðil.

                                          ***

Hér var í liðinni viku minnst á áhuga vefritsins Kjarnans á því að frumvarpið nái fram að ganga, en þar hefur ritstjórinn (sem er meðal eigenda útgáfunnar) fjallað oftsinnis og í löngu máli um mikilvægi þess að ríkissjóður greiði sem stærstan hluta launa blaðamanna Kjarnans. Síðasta ádrepan raunar samstofna umsögn, sem Kjarninn miðlar, sendi Alþingi um frumvarpið. Auk stuðnings við markmið frumvarpsins lagði Kjarninn til þá breytingu að endurgreiðsluhlutfall ritstjórnarkostnaðar yrði hækkað úr 18% í 25% líkt og upphaflegar hugmyndir stóðu til. Svo sagði:

Ef endurgreiðsluhlutfallið er hækkað aftur í 25 prósent mun það skila öflugri og fjölbreyttari fjölmiðlaflóru, sterkari lýðræðisstoðum, fleiri krónum aftur í ríkissjóð í formi aukinna skattgreiðslna samhliða vexti og fleiri störfum fyrir metnaðarfulla blaðamenn. Endurgreiðslur vegna ritstjórnarkostnaðar stærstu fjölmiðla landsins [þeir sem munu fá að hámarki 50 m.kr. í styrk] verða hins vegar þær sömu óháð því hvort að hlutfallið verði 18 eða 25 prósent. Breytingin hefur því engin áhrif á þá. [Leturbreyting Vb.]

Á þetta var drepið hér í síðustu viku og dregið í efa að þetta stæðist. Fjölmiðlarýni barst orðsending þar sem því var mótmælt og honum er því ljúf skylda að hnykkja á þeim efasemdum. Að sjálfsögðu hefur það áhrif á stærri fjölmiðla ef þeir minni fá hærri styrki, en styrkir til hinna stærri haldast óbreyttir í 50 m.kr. Hlutfall styrkjanna í rekstri miðlanna skiptir ljóslega öllu máli.

Ef endurgreiðsluhlutfallið væri hækkað í 50% þá fengi Myllusetur, útgáfufélag Viðskiptablaðsins, svo nærtækt dæmi sé tekið, tæpar 50 m.kr. í styrk. Sem sagt nánast jafnmikið og Morgunblaðið og Fréttablaðið af því að þau reka sig í þakið, en umfang og útbreiðsla þeirra blaða er vitaskuld margföld á við Viðskiptablaðið.

Með þá fjármuni að vopni gætu stjórnendur Mylluseturs valdið stóru blöðunum tveimur alls kyns skráveifum, jafnvel usla, farið í frídreifingu endrum og sinnum, sett upp fasteignavef, stóreflt vefmiðla sína o.s.frv. Einmitt vegna þess að með því fyrirkomulagi væru styrkirnir ekki lengur í neinu samræmi eða jafnvægi við rekstur og stöðu miðlanna, heldur beinlínis til þess fallnir að skekkja samkeppnisstöðu þeirra.

Það eru mikil firn - sér í lagi miðað við margháttaðar yfirlýsingar Kjarnamanna um mikilvægi gagnsæis, aðgát gagnvart hagsmunatengslum, Kínamúra milli ritstjórna og reksturs fjölmiðla og alls þess - að í þessum efnum skuli eiginhagsmunirnir bera skynsemina ofurliði. Þar sést hins vegar glögglega helsta hættan við þessa hugmynd um að gera fjölmiðla háða fjárveitingavaldinu - háða stjórnmálamönnum:

Aðeins tilhugsunin um að komast á spenann grefur umsvifalaust undan ritstjórnarlegu sjálfstæði, trúverðugleika miðilsins og trúnaðarsambandi hans við lesendur. Þá er allt í einu farið að taka tillit til einhverra allt annarra hagsmuna, hvort heldur um ræðir pólitískt erindi einhverra ráðherra úti í bæ, rekstrarstöðu miðilsins eða fjárhags eigendanna.

                                          ***

Í því samhengi er svo auðvitað athyglisvert að Kjarninn, sem er einstaklega duglegur við að taka upp fréttir annarra miðla, ekki síst niðurstöður skoðanakannana, virðist ekki hafa tekið eftir þessari forsíðufrétt Fréttablaðsins á mánudag. Fjölmiðlarýnir fær a.m.k. ekki séð að þar hafi komið stafkrókur um þessa skoðanakönnun um fjölmiðlafrumvarpið, sem Kjarninn er þó alla jafna mjög áhugasamur um. Ekki einu sinni slóð að fréttinni hjá Fréttablaðinu á leslista Kjarnans undir hattinum Úr öðrum fjölmiðlum.

                                          ***

Meira um fjölmiðlafrumvarpið, eins og lofað var í síðustu viku: Fleiri hafa skilað inn umsögnum um það en Kjarninn, þar á meðal Samkeppniseftirlitið og Fjölmiðlanefnd. Og hugsanlega er Kjarnamönnum vorkunn varðandi misskilninginn, sem fyrr var rakinn, því í umsögn Fjölmiðlanefndar kemur sama dellan fram, að áhrif breytingar á endurgreiðsluhlutfallinu muni „líklega" engin áhrif hafa á stóru miðlana.

Það er auðvitað ekki í fyrsta sinn sem Fjölmiðlanefnd skriplar á skötunni um málefni fjölmiðla. Raunar eilítið fyndið að í umsögninni er fundið að því ekki skuli vikið betur að eignarhaldi fjölmiðla og yfirráðum og ekkert afskaplega fínlega gefið til kynna að nefndin þurfi ríflegri valdheimildir til þess að ganga úr skugga um það, sér í lagi ef eignarhaldið er í öðrum löndum, þar sem gagnsæi eignarhalds kunni að vera ábótavant.

Sem er vitaskuld hlægilegt í ljósi þess að Fjölmiðlanefnd hefur frá öndverðu ekki auðnast að hafa eignarhaldsskrána í lagi þó það liggi allt í tveimur póstnúmerum á Íslandi. En svo má líka spyrja hvort það sé í takt við góða stjórnsýslu að Fjölmiðlanefnd sé að láta í ljós álit á ýmsum álitaefnum, sem heita mega pólitísk, ekki þó síst þegar haft er í huga að forstöðumaður nefndarinnar sat á sínum tíma í nefnd þeirri, sem gerði upphafleg drög að tillögum um bætt rekstrarumhverfi fjölmiðla.

Þar beið hann lægri hlut um sumar tillögurnar, en var síðan fenginn af menningarmálaráðherra til þess að „fara yfir" tillögurnar, sem aðallega gekk út á að breyta þeim í þá veru sem forstöðumaðurinn hafði viljað en meirihluti nefndarinnar ekki. Og nú fær allsherjar- og menntamálanefnd umsögn frá þessum sama forstöðumanni um frumvarpið sem hann hefur átt svo margháttaða aðkomu að á öllum stigum!

Það er meira varið í umsögn Samkeppniseftirlitsins (SKE), en þó má finna í því alls kyns mótsagnir. Þar segir t.d. að ein af forsendum virkrar samkeppni sé að jafnræði ríki milli keppinauta. Þurfi þeir meðal annars að njóta jafnræðis í skilningi laga og í samskiptum við stjórnvöld. Undir það má heilshugar taka. SKE nefnir þetta þó aðeins í því samhengi að verði frumvarpið að lögum muni það skekkja samkeppnisstöðu fjölmiðla, sem fjalla um sérhæfða eða afmarkaða þætti samfélagsins, en þar er m.a. vísað til héraðsfréttablaða og íþrótttamiðla.

Nú er nokkuð tillit tekið til héraðsmiðlanna í frumvarpinu og ekki loku fyrir það skotið að það verði gert á fleiri hátt (auk þess sem þeir njóta margir stuðnings sveitarfélaga). En þegar komið er að íþróttamiðlunum vandast málið og ástæða til þess að huga nánar að markmiðum frumvarpsins. Það hefur til þessa ávallt verið ætlað til þess að styrkja almenna, reglulega og tíða fréttamiðlun í landinu, sem stendur ákaflega höllum fæti og hefur gert um nokkra hríð.

Ástæðan er sú að almennt er viðurkennt að það snúi sérstaklega að almennri upplýsingu í virku lýðræðisþjóðfélagi. Falla íþróttamiðlar undir þá skilgreiningu? Og ef svo er, á það þá ekki eins við málgagn Handprjónasambandsins eða Barþjónafélagsins? Fjölmiðlarýnir óttast að þá muni frumvarpið fljótt missa marks og mátti það þó ekki við miklu fyrir!

Samkeppniseftirlitið virðist hins vegar alveg gleyma fyrrnefndum orðum um virka samkeppni og jafnræði þegar kemur að stóru miðlunum, því þá virðist jafnræðinu helst náð með því að púkka sérstaklega upp á litlu miðlana og aftengja hina virku samkeppni. Því öll samkeppni á markaði hlýtur að vera undir neytendum komin, að fjölmiðlar dafni fyrir þeirra tilstuðlan, en ekki hugdettur Samkeppniseftirlitsins eða velþóknun stjórnmálamanna.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.