*

föstudagur, 16. apríl 2021
Týr
20. desember 2020 13:07

Umsvifin sem aldrei urðu

Hagkerfi heimsins þurfa síst af öllu á stjórnmálamönnum að halda sem berjast gegn atvinnulífinu.

Tæknirisinn Amazon tilkynnti í byrjun árs 2019 að fyrirtækið væri hætt við að byggja nýjar höfuðstöðvar sínar í hverfinu Queens í New York. Fyrirtækið hafði óskað eftir tilboðum frá borgum víðs vegar um Bandaríkin og um 240 borgir buðu ýmiss konar fyrirgreiðslur og fríðindi til að byggja nýjar höfuðstöðvar.

New York borg, með stuðningi borgarstjórans og ríkisstjórans (sem báðir eru demókratar), bauð Amazon fyrirgreiðslu að andvirði þriggja milljarða dala, að mestu í formi skattaafsláttar. Nýjum höfuðstöðvum var ætlað að skapa um 25.000 ný störf, flest hálaunastörf en einnig önnur störf, s.s. við öryggisgæslu, þjónustu og annað. Samkvæmt eigin útreikningi áætlaði félagið að greiða á ársgrundvelli um 10 milljarða dala í skatttekjur à svæðinu.

                                                                 ***

Alexandria Ocasio-Cortez, fulltrúardeildarþingmaður Demókrata fyrir New York ríki og ein helsta vonarstjarna róttækra vinstri manna á Vesturlöndum (þ.m.t. hér á landi), mótmælti þessum áformum harðlega. Hún fór mikinn í baráttu sinni gegn uppbyggingu Amazon og gagnrýndi að eitt tekjuhæsta fyrirtæki heims nyti fyrirgreiðslu borgarinnar. Þá sagði hún að nær væri að verja sömu fjárhæð til að styðja við tekjulægri einstaklinga.

                                                                 ***

Ocasio-Cortez fagnaði sigri þegar Amazon hætti við uppbygginguna. Fyrirtækið leigir að vísu stórt skrifstofuhúsnæði í borginni, en umsvif þess og sköpun nýrra starfa eru hvergi nálægt því sem áætlað var. Á þessu ári hefur Amazon ráðið um 1.400 starfsmenn á dag víðs vegar um Bandaríkin. Það má því velta fyrir sér hver sé hinn raunverulegi sigurvegari. Það er allavega ekki fólkið sem fékk ekki störfin og ekki borgarsjóðurinn sem fékk ekki skatttekjurnar.

                                                                 ***

Nú er Týr er ekki talsmaður fyrirgreiðslna eða ívilnana og vissulega var ekkert fast í hendi í áætlunum Amazon. Skattar ættu almennt að vera lágir og einfaldir og þá munu þeir laða að bæði fólk og fyrirtæki. Það er þó sjaldnast þannig og því getur hið opinbera laðað að fyrirtæki með hóflegum fyrirgreiðslum þegar svo ber undir.

                                                                 ***

Nú þegar hagkerfi hins vestræna heims munu þurfa að endurræsa sig eftir COVID-19 faraldurinn þurfa þau síst af öllu á stjórnmálamönnum að halda sem berjast gegn atvinnulífinu. Það á jafnt við á Íslandi og í Bandaríkjunum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.