*

föstudagur, 18. júní 2021
Örn Arnarson
5. október 2020 07:13

Upp með dalina! Niður með fjöllin!

Ef Móna Lísa hefði farið í fegrunaraðgerð.
epa

Í síðustu viku birti Hagstofan yfirlit yfir heildareignir fjölskyldna á árinu 2019. Eins og segir í tilkynningu Hagstofunnar þá teljast eignir sem fasteignir, ökutæki, innistæður í bönkum og verðbréf. 2019 var hlutur fasteigna af heildareignum fjölskyldu um 75,9%, ökutækja 4,3%, bankainnistæðna 11,1% og verðbréfa 7,5% og voru litlar breytingar frá fyrra ári. Eignir fjölskyldna í hæstu tíund eigna námu 3.267 milljörðum króna eða um 43,9% af heildareignum sem er nánast sama hlutfall og árið 2018 (44,6%).

Fjölmiðlar lögðu mest upp úr síðasta punktinum í umfjöllun sinni um málið. Að sama skapi stukku þingmenn á vinstri vængnum á vagninn og hrópuðu um óréttlæti þess að einn eigi meira en annar og blönduðu við óskyldum málum á borð við veiðigjöld og fiskveiðistjórnarkerfið. Þetta gátu þeir gert óáreittir þar sem fjölmiðlar settu ekki tölur Hagstofunnar í neitt samhengi fyrir lesandann.

Til þess að skipa sér í flokk hæstu tíundarinnar samkvæmt tölum Hagstofunnar þurfa hjón eða samskattað sambýlisfólk að eiga sem nemur 67 milljónum umfram skuldir. Þetta er sem nemur andvirði venjulegrar blokkaríbúðar á höfuðborgarsvæðinu. Það getur vart talist til marks um gríðarlegan eignaójöfnuð ef hjón sem eiga skuldlausa íbúð við lok starfsaldur skipi sér í efstu tíundina þegar kemur að skiptingu eigna í samfélaginu.

Staðreynd málsins er sú að eldra fólk er alla jafna eignameira en það yngra. Ungt fólk skuldsetur sig við upphaf vinnuferils þegar það er að koma sér þaki yfir höfuðið og stofna fjölskyldur. Eignamyndunin eykst þegar fram líða stundir. Tölur Hagstofunnar sýna þetta með skýrum hætti. Þannig má setja þær fram að 16% elstu Íslendinganna eigi 39% alls eigin fjár eða þá að fólk sem er komið á sjötugs aldur og upp úr eigi 58% alls eigin fjár á Íslandi. Á komandi kosningavetri mætti spyrja þá stjórnmálamenn sem svíður þetta meinta ranglæti með hvaða hætti þeir ætli að bregðast við. Er verið að boða stefnumál sem fela í sér stórfellda eignatilfærslu frá eldri kynslóðum til þeirra yngri?

                                                            ***

Landsfundur Viðreisnar fór fram um síðustu helgi. Í setningarræðu sinni sagði Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir, formaður flokksins, að kórónuveirufaraldurinn hefði leitt í ljós að tvær þjóðir búa í landinu: „Þjóðin, sem kreppan bítur – og bítur fast, og þjóðin sem kreppan lætur enn sem komið er í friði.“ Þetta er rétt hjá Þorgerði þó svo að hún skauti framhjá hvar hin raunverulega gjá sem aðskilur þjóðirnar tvær liggur. Og er það í raun undarlegt að fjölmiðlar geri slíkt hið sama ekki síst í ljósi grafalvarlegrar stöðu á vinnumarkaði.

Í stuttu máli má segja að gjáin liggi á milli starfsmanna hins opinbera annars vegar og þá sem starfa í einkageiranum hins vegar. Þeir fyrrnefndu búa við mikið starfsöryggi – sérstaklega í ljósi þeirra viðsjárverðu tíma sem nú eru uppi – á meðan starfsöryggi þeirra síðarnefndu er lítið á tímum kórónuveirufaraldursins. Í þessu ljósi er áhugavert að skoða hlutfall starfa í opinbera geiranum af heildarstarfafjölda í hagkerfinu.

Á fyrsta fjórðungi ársins 2017 voru 186.719 störf í hagkerfinu og þar af voru 51.207 hjá hinu opinbera. Á fyrri helmingi þessa árs voru 191.818 störf innt af hendi og þar af 61.186 í opinbera geiranum. Þetta þýðir að störfum á almenna markaðnum fækkaði um tæp 5 þúsund á meðan þeim fjölgaði um 10 þúsund hjá hinu opinbera. Að öllu óbreyttu mun þessi þróun halda áfram og vekur það upp áleitnar spurningar um hvort ástandið fái staðist til lengdar.

                                                            ***

Í þessu ljósi er áhugavert að velta fyrir sér niðurstöðu þjóðaratkvæðagreiðslu á Ítalíu í síðustu viku um fækkun þingmanna. Yfirgnæfandi meirihluti ítalskra kjósenda samþykkti þá að fækka þingmönnum í neðri deild þingsins og öldungadeild þess úr 945 og niður í 600. Fréttir af þessu voru sagðar í íslenskum fjölmiðlum. Vakti það athygli að enginn miðill setti þessa ákvörðun í samhengi við heimildir í sveitastjórnarlögum frá árinu 2011 um fjölgun sveitarstjórnarmanna.

Sem kunnugt er þá samþykkti borgarstjórn Reykjavíkur að nýta heimildina og fjölga kjörnum fulltrúum næsta kjörtímabil. Furðu vekur að engin umræða eigi sér nú stað um hvort ekki sé rétt að draga þessa ákvörðun til baka í ljósi efnahagsástandsins og ískyggilegrar stöðu fjármála Reykjavíkurborgar – ekki nema það sé almenn sátt um að líta á starf borgarfulltrúa sem atvinnubótavinnu í kreppuástandi.

                                                            ***

Meira af borgarmálunum: Um þarsíðustu helgi birtust myndir í fjölmiðlum af grjóthnullungum, möl og þangi út um allan Eiðsgranda. Vakti það athygli að þetta var ekki umhverfislistaverk á vegum borgarmeirihlutans heldur afleiðing mikils sjógangs.

                                                            ***

Lestur kynningarblaða dagblaðanna er oft hin mesta skemmtun enda eru þau skrifuð af miklum þrótti. Síðastliðinn laugardag fylgdi Fréttablaðinu kynningarblað um fegrunar- og lýtalækningar. Þar var að finna eina eftirminnilegustu fyrirsögn og undirfyrirsögn síðari tíma. Fyrirsögnin var: Útlitslækningar reyna stundum á listræna hæfileika læknisins.

Og eftir fylgdi: Útlitslækning á Grensásvegi er kósí lækna- og tannlæknastofa sem veitir persónulega þjónustu. Hún sinnir lýtahúðlækningum á breiðum skala, almennum húð- og kynsjúkdómalækningum, tann- og munngervalækningum, en einnig almennum tannlækningum. Það er fagnaðarefni að skógargöngu þeirra sem hafa leitað að læknum með listræna hæfileika sem veita kósí og persónulega þjónustu þegar kemur að húð- og kynsjúkdómum sé loksins lokið.

                                                            ***

Mikil gróska hefur verið í hlaðvarpsflórunni hér á landi undanfarin misseri. Segja má að þjóðin hafi bókstaflega sannað fyrirsögnina sem birtist á Vísi við umfjöllun forsprakka Podcast-stöðvarinnar á dögunum: Það geta allir byrjað með hlaðvarp. Þessi gróska hefur auðgað fjölmiðlaumhverfið hér á landi og mörgum afbragðshlaðvörpum er haldið úti um þessar mundir. Fjölmiðlarýnir finnur sig knúinn til að mæla sérstaklega með hlaðvarpinu Draugum fortíðar sem gítarjötnarnir Flosi Þorgeirsson og Baldur Ragnarsson halda úti. Þar er á ferð eitt allra skemmtilegasta og fróðlegasta útvarpsefni sem völ er á um þessar mundir.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.