*

fimmtudagur, 2. desember 2021
Rafnar L. og Signý Sif
18. júní 2021 12:22

Upp um deild á Orkumóti Norðurlanda

„Í byrjun þessa mánaðar fengum við þær ánægjulegu fréttir að matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefði hækkað lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar um einn flokk í viðbót, í BBB+.“

Aðsend mynd

Við hjá Landsvirkjun einsettum okkur fyrir um 10 árum að komast jafnfætis helstu raforkufyrirtækjum á hinum Norðurlöndunum í lánshæfismati.  Á þeim tíma var félagið ekki í úrvalsdeild eins og þau heldur 5-6 flokkum neðar, í spákaupmennskuflokki. Há skuldsetning, mikil fjárhagsáhætta og samþjöppun viðskiptavina var sannarlega áskorun í kjölfar efnahagshruns. Brekkan fram undan var brött og jafnvel óklífanleg, en hvað hefur gerst síðan þá?

Skuldir Landsvirkjunar hafa lækkað um 130 milljarða króna. Á sama tíma hafa verið byggðar þrjár nýjar aflstöðvar og raforkuvinnsla aukist verulega. Íslenska ríkið studdi vel við Landsvirkjun á þessari vegferð til styrkari reksturs. Þótt enginn velkist í vafa um mikilvægi Landsvirkjunar í orkuvinnslu, sem vinnuveitanda víða um land og sem eins stærsta tannhjólsins í íslensku efnahagskerfi, þá var það samt svo að beinar arðgreiðslur til ríkisins voru ekki miklar.

Fjárhagsáhætta hefur snarlega minnkað. Breytingar á vöxtum, gengi gjaldmiðla og álverði hafði mikil áhrif á rekstur félagsins. Vaxta- og gengisáhætta er lítil sem engin í dag í kjölfar nýrra lánasamninga og áhættuvarna, bæði aðkeyptra og náttúrulegra. Einhliða álverðsáhætta í raforkusölusamningum hefur minnkað með fjölbreyttari tekjugrunni.

Viðskiptavinahópur fyrirtækisins hefur stækkað og fjölbreytnin aukist. Við höfum jöfnum höndum fagnað nýjum viðskiptavinum og samið upp á nýtt við eldri viðskiptavini. Staðan hefur gjörbreyst til batnaðar sem gerði okkur kleift að takast á við þær áskoranir og það krefjandi tímabil sem fylgdi heimsfaraldrinum á síðasta ári. Á sama tíma gátum við stutt viðskiptavini okkar í erfiðu viðskiptaumhverfi þeirra vegna faraldursins.

Á sama tíma og ofangreind vinna átti sér stað, ákváðum við einnig að hætta að taka lán með ríkisábyrgð og höfum ekki gert um langt skeið. Nú eru einungis fáein ár þangað til eldri lán koma á gjalddaga og ríkisábyrgð verður að baki. Við vorum því einnig að færa lánshæfismatseinkunn frá því að vera með ábyrgð ríkisins yfir í að vera með einkunn án nokkurrar ábyrgðar, brekkan varð brattari. Öll þessi vinna bar árangur og lánshæfismat félagsins hækkaði jafnt og þétt.

Merkilegum árangri náð

Í byrjun þessa mánaðar fengum við þær ánægjulegu fréttir að matsfyrirtækið S&P Global Ratings hefði hækkað lánshæfiseinkunn Landsvirkjunar um einn flokk í viðbót, í BBB+. Með þessari hækkun stendur fyrirtækið nú jafnfætis helstu raforkufyrirtækjum á hinum Norðurlöndunum. Fyrirtækjum sem vinna á mun stærra efnahagssvæði en við, með margfaldan rekstur og í ríkiseigu stærri grannþjóða okkar að hluta eða öllu leyti. Við erum ákaflega stolt af þessum árangri sem við settum okkur að ná fyrir 10 árum, brekkan er unnin.

Það er ekki svo að við setjumst niður, á toppi brekkunnar, og sláum slöku við. Þessi staða gerir Landsvirkjun enn öflugri til að takast á við næstu tækifæri. Verkefnin eru ærin, en við höfum styrkinn og þekkinguna til að leysa þau vel af hendi. Vinnustaðurinn býr að mörgu öflugu starfsfólki til að takast á við áskoranir og grípa tækifæri, en mikil áhersla hefur einmitt verið lögð á jafnréttismál hjá fyrirtækinu á undanförnum árum með góðum árangri. Jafnrétti kynja er einmitt ein af grunnstoðum fyrir betri ákvörðunartöku og þar með enn betri rekstri.

10 til 20 milljarða arður

Nú er svo komið að árlegar arðgreiðslur til eigandans, íslensku þjóðarinnar, geta verið á bilinu 10 til 20 milljarðar króna á komandi árum. Þetta eru háar tölur, enda eru orkuauðlindir þjóðarinnar mikil verðmæti. Landsvirkjun hefur einsett sér að hámarka afrakstur þeirra auðlinda, með hagkvæmi og sjálfbærni að leiðarljósi.

Framtíðarsýn okkar er sjálfbær heimur, knúinn endurnýjanlegri orku. Á sama tíma eru loftslagsmálin efst á baugi í heiminum og óendurnýjanlegir orkugjafar þurfa að víkja fyrir endurnýjanlegum. Þar eru fjölmörg tækifæri fyrir Ísland. Tækifæri í orkuskiptum yfir í ýmiss konar rafeldsneyti sem hægt er að framleiða á Íslandi. Tækifæri í vistvænum matvælum. Tækifæri til að nýta vind til raforkuvinnslu. Fjölmörg tækifæri sem við sjáum nú þegar og öll hin, sem við vitum að eiga eftir að koma í ljós.

Rafnar Lárusson er framkvæmdastjóri fjármála og upplýsingatækni Landsvirkjunar og Signý Sif Sigurðardóttir er forstöðumaður fjárstýringar Landsvirkjunar.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.