*

sunnudagur, 21. júlí 2019
Jón Elvar Guðmundsson
9. febrúar 2017 10:49

Uppbyggileg umræða um aflandsfélög

Jón Elvar Guðmundsson, lögmaður á lögmannastofunnu Logos, telur skýrslu um aflandsfélög áhugaverða en ónákvæma.

Aðrir ljósmyndarar

Undanfarið hefur átt sér stað umræða um skýrslu unna á vegum fjármála og efnahagsráðuneytisins um eignir Íslendinga á aflandssvæðum. Hún er áhugaverð en ónákvæm um ákveðna hluti. Til dæmis er þar sett fram að á grundvelli tvísköttunarsamninga við Holland og Lúxemborg hafi ekki verið haldið eftir sköttum á Íslandi af arð- og vaxtagreiðslum til þessara landa. Því er síðan bætt við að tekjurnar hafi ekki verið skattlagðar í viðkomandi löndum og sú ályktun dregin að þetta megi kalla misnotkun tvísköttunarsamninga. Í umfjöllun Kastljóss virðist vísað til þess af formanni nefndar sem vann skýrsluna að Íslendingar hafi verið plataðir til að gera viðkomandi samninga og svo farið yfir það myndrænt að í samningsgerð hafi falist að arð- og vaxtagreiðslur hafi verið gerð- ar mögulegar til félaga í nefndum löndum án skattlagningar á Íslandi og án skattlagningar í viðkomandi löndum – þau þar með gerð að skatta paradísum. Við þetta má gera athugasemdir

Nauðsynlegt er að gera greinarmun á arði og vöxtum. Arðgreiðslur stafa af rekstrartekjum sem búið er að skattleggja hjá viðkomandi rekstrarfélagi. Því leiðir skattlagning arðgreiðslna hjá eignarhaldsfélögum til tvískattlagningar viðkomandi tekna. Af þeirri ástæðu er kveðið á um það í íslenskum skattalögum að raunskattlagning arðgreiðslna milli félaga sé engin, það á við bæði innanlands og þegar arður er greiddur til sambærilegra félaga innan EES. Arðinum er þá ekki ætlað að vera skattlagður fyrr en við greiðslu til einstaklinganna sem fara með eignarhald viðkomandi félaga. Svipaðar reglur gilda í öðrum ríkjum innan EES auk þess sem tilskipun innan ESB er ætlað að tryggja svipaða niðurstöðu vegna arðgreiðslna milli ríkja Evrópu. Því er ofangreind framsetning úr umræðu undanfarinna daga ekki í samræmi við viðurkenndar reglur, þ.á m. íslenskar reglur.

Annað gildir um vaxtatekjur þar sem vaxtagreiðslur leiða alla jafna til frádráttarbærs kostnaðar hjá greiðanda. Því er ekki búið að skattleggja þær við greiðslu. Af þeirri ástæðu gildir öfug regla miðað við arðinn, þ.e. vaxtatekjurnar eru skattskyldar hjá móttakanda samkvæmt íslenskum skattalögum, sama á almennt við í öðrum löndum enda ekki um tvískattlagningu að ræða. Þegar vextir eru greiddir úr landi koma ýmis atriði til skoðunar. Í samhengi við þá tvísköttunarsamninga sem nefndir hafa verið til sögunnar er ástæða til að nefna að þegar þeir voru gerðir þá lagði Ísland ekki skatt á vaxtagreiðslur úr landi og er það í samræmi við algenga reglu í ríkjum norður Evrópu. Því breyttu samningarnir engu á þeim tíma sem þeir voru gerðir. Auk þess voru reglur þeirra að þessu leyti í samræmi við samningsfyrirmynd OECD, því eiga athugasemdir um plat sér ekki stoð. Þá er það rangt sem haldið hefur verið fram að vextirnir séu ekki skattskyldir hjá félögum í Hollandi og Lúxemborg. Í báðum tilfellum er um skattskyldar tekjur að ræða. Vissulega var frávik frá því í tilfelli sérstakra félaga í Lúxemborg, s.k. 1929 félaga sem voru að mestu undanþegin skatti. Þau félög voru hins vegar undanskilin gildissviði tvísköttunarsamningsins við Ísland og nutu því ekki góðs af honum.

Enginn var plataður og ákvæðin eru í samræmi við tillögur OECD. Nánari umræða um þessi mál gæti verið í löngu máli en hún getur ekki átt sér stað hér. Undirrituðum fannst þó ástæða til að vekja athygli á ofangreindu. Bæði til þess að verða til gagns í umræðunni sem og að vekja athygli á því að við opinbera umfjöllun sem og skýrslugerð á vegum hins opinbera kann að vera góð ástæða til þess að leita utanaðkomandi sjónarmiða og upplýsinga.

Höfundur er lögmaður á lögmannsstofunni Logos.

Stikkorð: skýrsla umræða Aflandsfélög skoðun
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.