*

þriðjudagur, 23. júlí 2019
Huginn og muninn
21. apríl 2019 07:55

Hver tekur við stjórn Arion banka?

Leit stendur yfir að nýjum forstjóra hjá Isavia, IKEA, Íslandspósti, Sýn, bankastjóra hjá Arion banka og framkvæmdastjóra hjá LSR.

Uppgrip eru hjá ráðningafyrirtækjum þessi misserin enda hafa verið óvenjumörg forstjóraskipti hjá stórfyrirtækjum að undanförnu. Starfsmenn ráðningafyrirtækjanna eru eflaust að lúslesa nýjasta tölublað Frjálsrar verslunar um fólk á uppleið í atvinnulífinu. Forstjórar IKEA, Íslandspósts, Isavia, Sýnar sem og bankastjóri Arion banka hafa sagt starfi sínu lausu á síðustu vikum auk þess sem leitað er að nýjum framkvæmdastjóra LSR, stærsta lífeyrissjóðs landsins.

Mikil eftirvænting er eftir nýjum bankastjóra Arion banka, en arðsemi félagsins hefur verið undir væntingum og bankinn hefur verið lánveitandi í mörgum af stærstu gjaldþrotum síðustu ára. Margir eru orðaðir við starfið, þar á meðal Benedikt Gíslason, stjórnarmaður í Arion banka, en Benedikt hefur starfað fyrir Kaupþing, sem enn er stærsti hluthafi bankans. Þá hafa hrafnarnir einnig heyrt nafn Sigurðar Viðarssonar, forstjóra TM, nefnt. Tómas Már Sigurðsson, aðstoðarforstjóri Alcoa, er sagður hafa sýnt stjórnunarstöðum hér á landi áhuga en ekki er víst að hann sækist eftir starfinu enda tók hann nýlega sæti í stjórn Íslandsbanka. Vilji eigendur bankans yngri bankastjóra hafa Linda Jónsdóttir, fjármálastjóri Marel, Sveinn Sölvason, fjármálastjóri Össurar, og Marínó Örn Tryggvason, aðstoðarforstjóri Kviku banka, öll verið nefnd á nafn. Þá er spurning hvort Ármann Þorvaldsson, bankastjóri Kviku banka, hafi áhuga á að snúa aftur til bankans en hann var framkvæmdastjóri Kaupþings á Bretlandi þar til bankinn féll árið 2008.

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.