*

miðvikudagur, 20. október 2021
Týr
14. júní 2020 09:08

Upphefðin að utan

Þorvaldur Gylfason hefur ekki dregið af sér í þjóðmálaumræðu þó hafnað í kosningum og óverjandi að gera hann að fulltrúa Íslands.

Þorvaldur Gylfason var góður fyrir sinn hatt á öðrum degi mótmæla við Austurvöll vegna frumvarps um slit á aðildaviðræðum við Evrópusambandið.
Haraldur Guðjónsson

Í seinni tíð virðist það orðinn ábatasamur atvinnuvegur að sækja sér bætur til hins opinbera vegna vona og brostinna væntinga um metorð og starfsframa, nú síðast vegna ritstjórastóls norræna hagfræðiritsins Nordic Economic Policy Review, sem gefið hefur verið út fyrir tilstuðlan Norrænu ráðherranefndarinnar í rúman áratug. Þorvaldur Gylfason hagfræðiprófessor telur að sú vegtylla hafi verið af sér höfð fyrir pólitískar vélar og undir það hafa ýmsir í stjórnarandstöðunni tekið hraustlega.

                                          ***

Þar flaska þau þó á einu lykilatriði. Það er nefnilega rangt athugað hjá þeim að fjármálaráðuneytið hafi lagst gegn ráðningunni. Það vildi hins vegar ekki styðja hana þegar nafn Þorvaldar var borið undir það. Sem er ekki sami hlutur.

                                          ***

Hjá Norrænu ráðherranefndinni er vaninn að menn séu samhljóða um veitingar af þessu tagi. NEPR hefur komið út síðan 2009 og til þessa hafa ritstjórar hvers árs verið miklir gráskeggir á hagfræðisviðinu, en aldrei Íslendingur. Tý skilst að á norrænum vettvangi hafi verið rætt um að bæta úr því, fá jafnframt einhvern yngri og ferskari hagfræðing en raunin hefði verið, gjarnan konu, en Þorvaldur uppfyllir þau skilyrði ekki vel.

                                          ***

Íslensk stjórnvöld lögðu því fram tillögur um slíka kandídata og því orðið fremur hvumsa þegar spurt var að utan hvort þau vildu ekki bara styðja einhvern allt annan! Það er bagalegra að ekkert liggi fyrir um hvernig tilnefning Þorvaldar kom til, en Íslendingum var a.m.k. ókunnugt um hana þar einhverjum vikum eftir að starfsmaður Norrænu ráðherranefndarinnar virðist hafa boðið honum starfið í heimildarleysi. Það þarf að upplýsa hvernig það gat gerst og að tilstuðlan hvers.

                                          ***

Nú er Þorvaldur örugglega góður fyrir sinn hatt, eins og sjá má af myndum af honum. En það er hæpið að hann hafi sest í helgan stein frá stjórnmálaafskiptum þó hann hafi horfið úr flokksforystu Lýðræðisvaktarinnar eftir að kjósendur höfnuðu henni í kosningunum 2013.

Hann hefur ekki dregið af sér í þjóðmálaumræðu síðan og vafalaust mun víðar þekktur af henni en fræðastörfum sínum. Sumt raunar þannig að óverjandi væri að gera hann að fulltrúa Íslands á alþjóðavettvangi, eins og þegar hann hafði Helförina í flimtingum í einhverju íslensku stjórnmálagjammi fyrir aðeins tveimur árum.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.