*

mánudagur, 19. ágúst 2019
Rúnar Guðmundsson
27. júlí 2018 10:44

Upplýsingagjöf og neytendahlutverk Fjármálaeftirlitsins

Framkvæmdastjóri hjá FME fellst ekki á gagnrýni framkvæmdastjóra FÍB á störf eftirlitsins.

Haraldur Guðjónsson

Í aðsendri grein framkvæmdastjóra Félags íslenskra bifreiðaeigenda (FÍB), í Viðskiptablaðinu þann 19. júlí sl. fer hann hörðum orðum um Fjármálaeftirlið og telur að stofnunin hafi dregið úr upplýsingagjöf og neytendahlutverki á vátryggingasviði. Fjármálaeftirlitið telur rétt að leiðrétta nokkrar missagnir í greininni og skýra út hlutverk stofnunarinnar í þeim atriðum sem vikið er að.

Ný lög um vátryggingastarfsemi
Fyrir nærri tveimur árum gengu í gildi ný lög um vátryggingastarfsemi (nr. 100/2016) sem byggja á svonefndri Solvency II tilskipun Evrópusambandsins, sem ætlað er að tryggja fullt samræmi í vátryggingastarfsemi á Evrópska efnahagssvæðinu. Meginmarkmið laganna er að vernda hagsmuni vátryggingartaka og vátryggðra og að tryggja samræmda framkvæmd. Lögin ná til svonefndra þriggja stoða, sem ætlað er að tryggja stöðugan rekstur vátryggingafélags.

Fyrsta stoðin byggir á samræmdu mati á fjárhagsgrundvelli vátryggingafélaga. Það breytti í grundvallaratriðum matsreglum íslenskra vátryggingafélaga við mat á vátryggingaskuld auk þess sem gjaldþolskröfur félaga taka nú mið af áhættu í umhverfi hvers og eins félags. Í öðru lagi innleiddi tilskipunin auknar kröfur til stjórnarhátta vátryggingafélaga, s.s. með ríkari kröfum um áhættustýringu. Þriðja stoðin í framkvæmd laganna tryggir svo samræmi í opinberri upplýsingagjöf og upplýsingastreymi til eftirlitsstjórnvalda.

Birting fjárhagslegra upplýsinga
Í áratugi gaf Fjármálaeftirlitið og forveri þess út upplýsingar um afkomu vátryggingagreina til að „tryggja að jafnvægi væri milli iðgjalda sem krafist er fyrir þá vernd sem vátryggingafélög veita og þeirra tjónabóta, sem greiddar eru, ásamt hæfilegum rekstrarkostnaði“, eins og segir í inngangsorðum fyrstu útgáfunnar frá 1976 sem rímaði við ákvæði laga á þeim tíma. Á þeim tíma sættu iðgjaldaákvarðanir vátryggingafélaga samþykki Tryggingaeftirlitsins fyrirfram og svo var allt þar til ársins 1994 er samningurinn um Evrópska efnahagssvæðið kom til framkvæmda með breyttri löggjöf um vátryggingastarfsemi.

Með gildandi lögum um vátryggingastarfsemi (nr. 100/2016) ákvað löggjafinn að minnka bein afskipti Fjármálaeftirlitsins af iðgjaldaskrám vátryggingafélaga en beina eftirlitinu þess í stað með breiðari hætti að starfsemi vátryggingafélaganna. Eftirlitsferlið er vel skilgreint í nefndum lögum og þar kemur fram að Fjármálaeftirlitið skuli sér í lagi fylgjast með stjórnkerfi, sem vátryggingafélag setur sér að starfa eftir; að vátryggingaskuld sé nægjanleg til að mæta kröfum vátryggingartaka; að gjaldþol sé nægjanlegt svo að félagið geti mætt stórum tapsatburðum og að reglum um fjárfestingar sé fylgt.

Samræming á lagaumhverfi á EES-svæðinu nær einnig til gagnaskila og opinberrar upplýsingagjafar vátryggingafélaga. Við breytingar sem þeim fylgdu jókst umfang gagnaskila verulega og meðal annars er vátryggingafélögum uppálagt að birta opinberlega skýrslu um gjaldþol og fjárhagslega stöðu (Solvency and Financial Condition Report, SFCR) sem fjallað er um í nefndri blaðagrein framkvæmdastjóra FÍB. Tilgangur SFCR-skýrslunnar er að jafnræði sé milli vátryggingafélaga sem starfa á innri markaði EES, að auka gagnsæi upplýsinga og að veita vátryggingafélögum markaðsaðhald. Fjármálaeftirlitið hefur eftirlit með innihaldi SFCR skýrslna en vátryggingafélögin birta hana hvert og eitt á sínu vefsvæði með öðrum fjárhagslegum upplýsingum.

Andstætt því sem fullyrt er í umræddri blaðagrein þá er meginefni skýrslnanna allt á íslensku þótt félögin hafi birt stöðluð dálk- og línuheiti í tölulegri framsetningu á ensku. Fjármálaeftirlitið hefur lagt sig fram við að kynna fyrir greinendum og hagsmunaaðilum efni nýju skýrslnanna og veitt þeim aðstoð við að lesa út og reikna algengar kennistærðir til að varpa ljósi á rekstur félaganna. Framkvæmdastjóri FÍB veit að Fjármálaeftirlitið sinnir leiðbeiningaskyldu sinni og er boðið og búið að aðstoða aðila við að feta sig áfram í nýju lagaumhverfi. Þótt framsetning talnaefnis á vátryggingamarkaði hafi breyst hefur eftirlitið vissu fyrir því að upplýsingarnar gagnist hagsmunaaðilum og öðrum sem láta sig hagsmuni vátryggingartaka varða.

Fjármálaeftirlitið vill að sjálfsögðu stuðla að góðri upplýsingagjöf til aðila á markaði með hagsmuni viðskiptavina að leiðarljósi. Vegna þessa hefur eftirlitið haft til skoðunar að hefja birtingu á lykilupplýsingum út frá Solvency II gagnaskilum vátryggingafélaga og efla þann þátt í starfsemi sinni sem snýr að greiningu fjárhagslegra upplýsinga og mögulegri birtingu slíkra upplýsinga.

Arðgreiðslumál
Það kveður við gamlan tón í grein framkvæmdastjóra FÍB um fyrirhugaðar arðgreiðslur vátryggingafélaga árið 2016, sem Fjármálaeftirlitið hafði til umfjöllunar á sínum tíma og hefur skýrt út á öðrum vettvangi og of langt mál er að rekja hér. Fjármálaeftirlitið vísar á bug ummælum um að eftirlitið hafi hvorki hreyft legg né lið sem og öðrum fullyrðingum í greininni í þá veru.

Um langt skeið hefur fjárfestingastarfsemi vátryggingafélaga borið uppi hagnað af rekstri þeirra en sá angi starfseminnar hefur jafnframt verið sveiflukenndur. Lögin um vátryggingastarfsemi gera vátryggingafélögum heimilt að úthluta arði vegna hagnaðar ef þau fullnægja kröfum um gjaldþol. Það er á ábyrgð vátryggingafélaganna sjálfra að viðhalda trausti viðskiptavina, sem þau þurfa meðal annars að hafa hliðsjón af þegar þau taka ákvarðanir um ráðstöfun hagnaðar og iðgjaldaákvarðanir. Það sýndi sig á árinu 2016 að viðskiptavinir geta haft veruleg áhrif á töku ákvarðana sem þessara. Svo mikil tilfærsla varð þá á viðskiptavinum milli vátryggingafélaga í samkeppni félaganna í milli að hún á sér ekki fordæmi hér á landi.

Neytendamál
Fjármálaeftirlitið vísar á bug gagnrýni framkvæmdastjóra FÍB á því hvernig eftirlitið sinnir neytendahlutverki sínu. Fjármálaeftirlitið sinnir eftirlitshlutverki sínu í samræmi við gildandi löggjöf. Áherslur þess, eins og fjölda annarra fjármálaeftirlita, eru annars vegar á sviði eftirlits með heilbrigðum og eðlilegum viðskiptaháttum og hins vegar áhættumiðað eftirlit.

Fjármálaeftirlitinu berast á ári hverju fjöldi fyrirspurna og ábendinga frá neytendum sem eftirlitið leggur sig fram um að svara. Hlutverk Fjármálaeftirlitsins er að fylgjast með því að starfsemi eftirlitsskyldra aðila sé í samræmi við lög, reglugerðir, reglur eða skilmála sem um starfsemina gilda og að starfsemin sé að öðru leyti í samræmi við heilbrigða og eðlilega viðskiptahætti, sbr. 1. mgr. 8. gr. laga nr. 87/1998, um opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi. Fjármálaeftirlitið hefur hins vegar ekki úrskurðarvald í einstökum ágreiningsmálum eða sker úr um réttindi og skyldur aðila að einkarétti eða ágreiningi um sönnun málsatvika. Í samræmi við leiðbeiningarskyldu stjórnvalda leiðbeinir eftirlitið þeim aðilum sem til þess leita um þau úrræði sem þeim standa til boða við úrlausn þeirra mála með því t.d. að upplýsa um hvaða aðilar fari með úrskurðarvald í ágreiningsmálum. Sérfræðileg eða lagaleg ráðgjöf stendur utan leiðbeiningarskyldu eftirlitsins. Allar ábendingar og kvartanir sem berast eru metnar og skoðað hvort ástæða sé til frekari athugunar. Telji eftirlitið ástæðu til að taka mál til frekari athugunar er það gert á grundvelli almenns eftirlits og leiðir ekki til þess að sá sem kom fram með ábendinguna eða kvörtun sé aðili máls. Upplýsingar um einstök mál eru aðeins veittar í samræmi við gagnsæisstefnu Fjármálaeftirlitsins. Þá hefur eftirlitið samvinnu við aðrar eftirlitsstofnanir, innlendar sem og erlendar, eftir því sem við á t.d. Neytendastofu og Samkeppniseftirlitið.

Fjármálaeftirlitið hafnar órökstuddri umfjöllun um að kvartanir vegna framgöngu vátryggingafélaganna hverfi „undantekningalítið í  svarthol og hending ef þeim er svarað“. Eftirlitið hvetur viðskiptavini vátryggingafélaga til að halda áfram að koma ábendingum og fyrirspurnum á framfæri við eftirlitið.

Fjármálaeftirlitið vinnur markvisst að því að sinna eftirlitshlutverki sínu hvað sem orðum framkvæmdastjóra FÍB líður.

Höfundur er framkvæmdastjóri sviðs lífeyris og vátrygginga hjá Fjármálaeftirlitinu

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.