Fjallað var um þöggunartilburði þingmanns Pírata gagnvart blaðamanni Morgunblaðsins á þessum vettvangi fyrir viku, en Arndís Anna Kristínardóttir Gunnarsdóttir, þingmaður Pírata, sakaði blaðamann Morgunblaðsins um ófagleg vinnubrögð og birti samskipti sín við hann sem sýndu fram á hið gagnstæða. Þingmenn flokksins halda áfram að höggva í sama knérunn.

Fjölmiðlanördar er Facebook-hópur þar sem áhugamenn um fjölmiðlun skiptast á skoðunum. Fyrir viku lagði Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata, orð í belg á þeim vettvangi. Björn vísar í frétt sem fjallar um að Edda Falak segðist hafa misst út út sér „missögn“ til að vernda sjálfa sig og aðra. Björn skrifar:

„Einföld spurning.
Nú er það staðreynd að ansi margir pistlar sem ýmsir fjölmiðlar bera ábyrgð á (augljósast að nefna staksteina og hrafnana) innihalda bókstaflega lygar um fólk (nei, það þarf ekki að útvega dæmi). Það telst ekki vera fréttnæmt almennt séð. Á sömu forsendum, af hverju er þetta svona fréttnæmt? Er það af því að verknaðurinn var utan fjölmiðlunar?”

Það verður að teljast með miklum ólíkindum að þingmaður ráðist svona að tveimur fjölmiðlum, Morgunblaðinu, þar sem dálkurinn Staksteinar birtist, og Viðskiptablaðið, þar sem Huginn og Muninn krúnka vikulega um menn og málefni með gamansömum hætti, og sakar þá um að birta lygar um fólk. Og ekki nóg með það telur þingmaðurinn enga ástæðu til þess að færa rök fyrir þessum dylgjum. Minnir þetta á stjórnmálamann vestanhafs sem hikar ekki við að nota hugtökin „falsfréttir“ og „falsfréttamiðlar“ yfir þá fjölmiðla sem eru honum ekki þóknanlegir. Það kemur á óvart að þingmenn á Íslandi sæki sér innblástur í þann stjórnmálamann.

***

Dálkar á borð við Staksteina og Huginn og Muninn eru ekki skrifaðir úr launsátri eins og stundum er ýjað að. Skrifin eru nafnlaus og ábyrgðarlaus fyrir þann sem heldur á penna í það og það skiptið. En þau eru samt ekki ábyrgðarlaus. Þetta er ritstjórnarefni og þar af leiðandi á ábyrgð ritstjórnar þess miðils sem birtir slík skrif.
Ef einhver telur að meiðyrði um sig séu látin falla í slíkum dálkum að geta þeir einfaldlega höfðað mál gegn ritstjóra og útgefanda viðkomandi miðils. Ætla mætti á skrifum Björn Levís að slíkar málshöfðanir væru daglegt brauð gagnvart Morgunblaðinu og Viðskiptablaðinu vegna skrifa sem birtast í Staksteinum og á heimavelli hrafnanna. Það er fjarri lagi eins og þingmaðurinn ætti að vita.

Auðvitað fer Björn með staðlausa stafi þegar hann heldur því fram að slíkir dálkar séu uppfullir af lygum, vísvitandi rangfærslum, enda getur hann ekki nefnt eitt dæmi um slíkt. Þar birtast hins vegar iðulega neyðarlegar tilvitnanir, ábendingar og athugasemdir, sem umfjöllunarefnunum þykja örugglega misskemmtilegar, en varla kemur á óvart að Morgunblaðið og Viðskiptablaðið, borgarapressan, beina skeytum sínum oftar til vinstri en til hægri.
***

Það er ekki nýtt að þeir sem um er fjallað í dálkum sem þessum amist við þeim og finna þá oftast að því að þeir séu skrifaðir í skjóli nafnleysis. En um hverja er þar helst verið að fjalla nema einmitt valdafólk í þjóðfélaginu: stjórnmálamenn, viðskiptajöfra, hagsmunagæslufólk eða fjölmiðla? Það eru einmitt slík valdaöfl, sem nauðsynlegast er að fái aðhald og þá duga sjaldnast einhver vettlingatök.

Slíkir dálkar hafa verið í öllum íslenskum dagblöðum um lengri eða skemmri tíma, Staksteinar í Morgunblaðinu, Austri og Klippt og skorið í Þjóðviljanum, Svarthöfði í Tímanum og síðar DV, að ógleymdum ýmsu „Heyrst hefur…“ smælki í alls kyns öðrum blöðum eins og Helgarpóstinum og Pressunni, sem oft voru mest lesna efni blaðsins. Þessir dálkar hafa í gegnum tíðina notið vinsælda enda efnistökin oft áhugaverð. Flestir lesendur hafa getað lesið þessa dálka með þeim fyrirvara að ekki sé verið að segja eiginlegar fréttir heldur lýsa skoðunum á mönnum og málefnum með ákveðnum tón á gagnrýninn hátt.

Í þess háttar dálkum er háðið oft skæðasta vopnið og það er bráðnauðsynlegt að valdhafar af öllum stærðum og gerðum fái að kenna á því. Ef það má ekki gera gys að greifunum, hvaða séns á pöpullinn þá?

Aðeins af þeirri ástæðu getur verið fín ástæða fyrir því að slíkir dálkar séu nafnlausir, jafnvel þó þeir séu aðallega skrifaðir af stríðni. Því það er ekki óhugsandi að fólk í valdastöðu hugsi þeim sem skrifar þegjandi þörfina og geri jafnvel eitthvað í því ef þeir vita nafnið. Þess eru ýmis dæmi úr íslenskri fjölmiðlasögu, sumt greinilega ætlað öðrum til viðvörunum en annað sjálfsagt aðallega af hefndarhug. Fyrrnefndur atvinnurógur Arndísar Önnu er dæmi um það og það er augljóst hvað Birni Leví finnst.
***

Annars er merkilegt hversu oft menn fetta fingur út í nafnlaus skrif í fjölmiðlum, þó þau séu augljóslega á ábyrgð miðilsins sjálfs.

Fyrir nafnlausum skrifum er löng hefð í dagblöðum og má raunar halda því fram að upphaf dagblaða sé nátengt þeim. Það átti við um flugrit í Englandi og Frakklandi á 18. öld og sjálfstæðisbaráttan vestanhafs var að miklu leyti drifin áfram af hugmyndum manna eins og Thomas Paine og Benjamín Franklín, sem skrifuðu mikið nafnlaust eða undir dulnefni.

Nafnlaus skrif eru svo vitaskuld bráðnauðsynleg þegar ástæða er til þess að óttast að yfirvöld vilji þagga niður í fólki eða refsa því fyrir að láta í ljós „rangar“ skoðanir. Um það höfum við nýleg dæmi frá Rússlandi og Íran, í ýmsum nýlendum á liðinni öld og í Austur-Evrópu undir oki kommúnismans. Það eru ekki vinir tjáningarfrelsisins, sem mæla gegn því.
***

Björn Leví
Björn Leví
© Aðsend mynd (AÐSEND)

Sama dag og ofangreint innlegg Björns Levís birtist í hópnum Fjölmiðlanördar hélt hann áfram árásum sínum á íslenska fjölmiðla. Í þetta sinn á sinni eigin Facebook-síðu. Þar fullyrðir hann að að árið 2022 hafi 23,8% fjölmiðla ekki kannað sannleiksgildi efnisins sem þeir gefa út. Síðan skrifar Björn:

„Vissuð þið að markmið stjórnvalda er að minnka þetta hlutfall niður í 21% á næsta ári og niður í 18% árið 2028?“

Í framhaldinu koma svo vandræðalegar vangaveltur þingmannsins hvað stjórnvöld geti gert til að fækka fjölmiðlum sem kanna ekki sanngildi frétta sinna. Vangavelturnar eru vandræðalegar af því að Björn er þarna að vísa til könnunar sem Fjölmiðlanefnd lét gera fyrir tveimur árum um árvekni almennings gagnvart falsfréttum.

Niðurstaða könnunarinnar er að 23,8% aðspurðra sögðust ekki kanna sannleiksgildi frétta sem þeir lesa með því að kanna aðrar heimildir. Þátttakendur í könnuninni voru sem sagt ekki fjölmiðlar heldur almenningur.

Það er óskiljanlegt að þingmaðurinn hreinlega skáldi upp niðurstöður könnunar á fjölmiðlalæsi almennings og getu hans til að greina falsfréttir frá öðrum fréttum til þess eins að koma höggi á fjölmiðla. Nánast útilokað er að um misskilning að ræða enda er skýrslan býsna skýr og enginn þar að velkjast um vafa hvort könnunin nái til almennings eða fjölmiðla eins og þingmaðurinn heldur fram. Nema auðvitað að læsi þingmannsins sé ekki betra en þetta.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins.