*

miðvikudagur, 21. apríl 2021
Bragi Freyr Gunnarsson
20. mars 2021 13:43

Upplýsingatækni í öruggri höfn

Fjármálamarkaðurinn hér á landi hefur fengið og fær að njóta mikillar framþróunar undir nafni Nasdaq.

24. ágúst 2020 markaði tímamót á íslenskum fjármálamarkaði, þegar Nasdaq verðbréfamiðstöð sameinaðist systurfyrirtæki sínu innan Nasdaq samsteypunnar, Nasdaq CSD SE. Í kjölfar sameiningarinnar starfar Nasdaq verðbréfamiðstöð sem útibú frá Nasdaq CSD SE hér á landi á grundvelli íslenskrar löggjafar og þjónustar áfram fjármálafyrirtæki og útgefendur verðbréfa á íslenskum fjármálamarkaði. Samfara sameiningunni var tekið í notkun nýtt uppgjörskerfi hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð. Rekstrarfyrirkomulag og kerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar uppfyllir nú allar kröfur Evrópulöggjafar um starfsemi verðbréfamiðstöðva og uppgjör verðbréfaviðskipta sem lögfest var hér á landi með lögum nr. 7/2020 (CSDR reglugerðin).

Verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar fellur undir skilgreiningu fjármálastöðugleikaráðs á kerfislega mikilvægum innviðum á fjármálamarkaði ásamt stórgreiðslu- og jöfnunarkerfum Seðlabanka Íslands, en kerfið er eina verðbréfauppgjörskerfið á Íslandi sem nýtur viðurkenningar skv. 3. gr. laga nr. 90/1999, um öryggi fyrirmæla í greiðslukerfum og verðbréfauppgjörskerfum, með tilheyrandi réttaráhrifum. Rekstur viðurkennds uppgjörskerfis og starfsleyfi á grundvelli CSDR felur í sér aukna eftirlitskröfu með starfsemi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar sem fjármálaeftirlit Seðlabanka Íslands annast samkvæmt lögum í samstarfi við eftirlitsaðila í þeim löndum sem Nasdaq CSD SE starfar. Einnig eru ítarlegar kröfur gerðar til áreiðanleika og stöðugleika í rekstri verðbréfamiðstöðva sem starfa á grundvelli CSDR-reglugerðarinnar og reka kerfislega mikilvæg verðbréfauppgjörskerfi.

Gagnvart íslenskum fjármálafyrirtækjum sem tengjast hinu nýja verðbréfauppgjörskerfi Nasdaq verðbréfamiðstöðvar þýða þessar breytingar nýtt og betra viðmót í umsýslu og uppgjöri verðbréfaviðskipta sem hefur nú þegar sýnt sig að er mikill ávinningur fyrir íslenskan verðbréfamarkað.

Upplýsinga- og gagnaöryggi í algjörum forgangi

Minna augljós og sýnilegur er sá ávinningur sem felst í færslu á rekstri undirliggjandi upplýsingakerfa inn í tækniumhverfi Nasdaq en sameining við Nasdaq CSD SE var til þess fallin að tryggja aukin gæði og öryggi gagna og upplýsingakerfa Nasdaq verðbréfamiðstöðvar verulega.

Við innleiðingu hins nýja uppgjörskerfis var allur rekstur upplýsingatækniinnviða Nasdaq verðbréfamiðstöðvar færður inn í sameiginlegt rekstrar- og öryggisumhverfi Nasdaq samstæðunnar. Við það opnaðist aðgangur að meiri og fjölbreyttri sérfræðiþekkingu og aðbúnaði, en Nasdaq setur upplýsingaöryggi í algjöran forgang í sinni starfsemi og ver tugum milljóna Bandaríkjadala á ári hverju í fjárfestingar í upplýsingatækni og upplýsingaöryggi til að tryggja samfelldan rekstur allra fjármálainnviða innan samsteypunnar og eru samnýtingaráhrif þekkingar og búnaðar mjög mikil.

Viðskiptavinir Nasdaq verðbréfamiðstöðvar beintengjast nú, yfir lokað net, þjónum Nasdaq CSD SE sem hýstir eru í gagnaverum Nasdaq í Svíþjóð og stýrt er og viðhaldið af fjölþjóðlegu teymi Bandaríkjamanna, Svía, Eista, Letta, Litháa og Íslendinga. Raunar er einföldun að tala um eitt teymi í þessu samhengi, því sérhæfing í rekstri ólíkra sviða upplýsingatækni innan Nasdaq er mikil enda rekstrarumhverfið flókið og umfangsmikið. Sérstakar deildir og teymi innan þeirra sjá um skipulag, viðhald og rekstur ólíkra þátta upplýsingatækniumhverfisins, svo sem upplýsingaöryggi, áhættustýringu, rekstur sýndarumhverfis, rekstur netumhverfis, eldveggja og öryggisumhverfis, vélabúnaðar og vélarsala og svo mætti áfram telja. Sólarhringsvöktun, allan ársins hring, er á öllum tækniinnviðum og mikilvægum kerfum, sem tryggir uppitíma kerfa og aðgengileika gagna með mun áreiðanlegri hætti en hægt var að gera fyrir sameiningu. Rekstur upplýsingatæknikerfa Nasdaq verðbréfamiðstöðvar var því með samrunanum færður úr höndum fámenns hóps starfsmanna og verktaka í hendur breiðs hóps sérfræðinga á ólíkum sviðum innan Nasdaq.

Samruni Nasdaq verðbréfamiðstöðvar á Íslandi og Nasdaq CSD SE ásamt tæknilegri samþættingu hefur því bæði aukið öryggi þeirra eignarréttinda yfir verðbréfum sem gefin eru út hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð sem og stórbætt gæði og öryggi í upplýsingatækni fyrirtækisins verulega, íslenskum fjármálamarkaði til mikilla hagsbóta. Sérfræðiþekking innan Nasdaq og tækniinnviðir munu að auki stórauka möguleika á nýjungum þegar fram líða stundir. Nasdaq er eitt stærsta tæknifyrirtæki á fjármálamörkuðum í heiminum, en tækni fyrirtækisins er notuð á um 50 mörkuðum um allan heim. Að auki rekur samsteypan kauphallir og aðra fjármálainnviði á um 30 mörkuðum, m.a. hér á landi eins og þekkt er orðið, síðastliðin 15 ár eða svo. Fjármálamarkaðurinn hér á landi hefur fengið og fær að njóta mikillar framþróunar undir nafni Nasdaq sem gerir okkur kleift að vera á svipuðum stað og nágrannamarkaðir okkar hvað varðar þjónustu til viðskiptavina okkar, gæði, tækni og gagnaöryggi til framtíðar litið.

Höfundur er yfirmaður upplýsingatæknimála hjá Nasdaq verðbréfamiðstöð.   

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.