*

mánudagur, 16. maí 2022
Óðinn
25. ágúst 2021 07:04

Uppsagnarbréf forstjóra Landspítala

Óðinn hvetur forstjóra Landspítalans til að láta hér staðar numið og skrifa sitt síðasta bréf í starfi forstjóra.

Almannavarnir

„Það var pólitísk ákvörðun að svelta heilbrigðiskerfið og það er þess vegna sem það ræður ekki við meira álag en orðið er. Heilbrigðisstarfsfólk sem er að niðurlotum komið er kallað úr sumarfríi, jafnvel fæðingarorlofi og leggur sig fram við að hjúkra sjúklingum. Hleypur um gangana á smitsjúkdómadeild Landspítalans sveitt í sóttvarnarbúningunum á meðan aðgerðum sem hægt er að fresta er frestað. Og biðlistarnir lengjast. Sýnatökur og bólusetningar er einnig viðbótarálag á heilbrigðisstofnanir um land allt sem búa fyrir við mikla manneklu."

Oddný Harðardóttir, aðsend grein í Morgunblaðinu 10. ágúst.

                                                                      ***

Pólitísk umræða hefur breyst hratt á undanförnum árum. Virðing stjórnmálamanna fyrir skattfé, peningum almennings, hefur minnkað hratt. Það á við um stjórnmálamenn úr öllum flokkum. Sá hópur sem hefur algjörlega misst fótanna í þessum efnum er þeir sem eitt sinn nefndust kratar.

                                                                      ***

Heilbrigðiskerfið á Íslandi hefur ekki verið fjársvelt. Það er reyndar mjög langt þar í frá, því framlögin hafa hækkað um 116% á tíu árum, frá árinu 2010 til ársins 2020, samkvæmt tölum Hagstofunnar. Á síðasta ári runnu 248 milljarðar til heilbrigðiskerfisins. Þá eru ótaldir 46 milljarðar sem einkaaðilar vörðu í heilbrigðismál. Núvirt eru framlögin 515 þúsund á hvert mannsbarn á ári en þau voru 463 þúsund árið 2010.

                                                                      ***

Því eru tilvitnuð orð Oddnýjar Harðardóttur ekki pólitískur áróður í aðdraganda kosninga heldur ömurleg ósannindi og til vitnis um það hvað fólk getur lagst lágt til að reyna að koma höggi á pólitíska andstæðinga.

                                                                      ***

Ekkert væl í Birni

Björn Zoëga, forstjóri Karólínska sjúkrahússins í Stokkhólmi, ræddi við Dagmál Morgunblaðsins á dögunum. Þar kom margt fram sem bendir til þess að rekstrarvandi Landspítalans sé mun djúpstæðari en Óðinn hafði talið.

                                                                      ***

Í viðtalinu sagði Björn að þegar Covid-19 fór að breiðast út í Svíþjóð hefði afkastageta gjörgæslu sjúkrahússins verið fimmfölduð, úr 30-40 rúmum í tæp 200.

                                                                      ***

Hann sagði að mikill rekstrarvandi hefði verið á sjúkrahúsinu þegar hann tók við árið 2019. Eftir sex vikur í starfi sagði hann upp um 500 skrifstofumönnum og ekki löngu síðar 400 læknum og sjúkraliðum. Það er tæplega 6% fækkun í starfsliðinu en í dag starfa um 15 þúsund manns á sjúkrahúsinu.

„Við vorum í u.þ.b. 88% af kröfunni um það sem við áttum að framleiða, einhverjir kalla það pöntunina til okkar. Í fyrra enduðum við í 105,5% og með nærri 1.000 færri starfsmenn. Það segir ýmislegt."

Samkvæmt þessu hefur framleiðni á Karólínska sjúkrahúsinu aukist í kringum fjórðung frá því að Björn Zoëga tók við starfi forstjóra. Þó verður að hafa í huga að starfsfólk er misdýrt og því er framleiðnin (27%) ekki nákvæm tala. Þess má geta að Björn var forstjóri Landspítalans á árunum 2008-2013.

Framlögin aukist mikið

Framlög ríkisins til Heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins jukust um 24% á árabilinu 2017-2020. Aukning til Landspítala nam um 12% á sama tímabili, 8% til Sjúkrahússins á Akureyri og 10% að meðaltali til heilbrigðisstofnananna sex sem starfa um allt land.

                                                                      ***

Ráðgjafarfyrirtækið McKinsey gerði skýrslu fyrir heilbrigðisráðuneytið vegna reksturs heilbrigðisstofnananna árin 2015 - 2019. Þar segir:

„Hlutfall sjúkraliða á móti hjúkrunarfræðingum á Landspítala og Sjúkrahúsinu á Akureyri er lægra (um 50% færri sjúkraliðar) en á viðmiðunarsjúkrahúsunum. Fjölgun sjúkraliða gæti tryggt að allir hópar starfsfólks sinni viðeigandi verkefnum miðað við menntun og þar af leiðandi sparað kostnað, þar sem hlutfallslegur munur á starfsmannakostnaði milli hjúkrunarfræðinga og sjúkraliða á Íslandi er meiri (um 25-40%) en á Skáni (um 20%)."

Framleiðni á Landspítala og Akureyri hefur farið hratt minnkandi. Framleiðni lækna hefur minnkað um 5,5% á Landspítala og 7,5% á Akureyri á árunum 2015-2019. Framleiðni hjúkrunarfræðinga er svipuð á Landspítala (5,9) og á Skáni (5,4-6,8). Aftur á móti hefur hjúkrunarstundum á hvern sjúkling fjölgað um 2,1% á ári á Landspítala, sem þýðir í raun að dregið hefur úr framleiðni síðastliðin fimm ár.

                                                                      ***

Ef sami rekstrarárangur næðist á Landspítalanum og Karólínska sjúkrahúsinu væri sparnaðurinn 10-15 milljarðar króna. Enginn veit hvort það er gerlegt, en allir sæmilega læsir á rekstur sjá að sparnaðurinn gæti verið gríðarlegur.

Áhugalausir stjórnendur

En stjórnendur Landspítalans virðast hvorki hafa vilja né getu til að bæta reksturinn heldur vilja að skrúfað sé enn meira frá peningakrana skattgreiðenda til spítalans.

                                                                      ***

Í minnisblaði sem Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, og Már Kristjánsson, formaður farsóttanefndar spítalans, sendu til heilbrigðisráðherra á mánudag í síðustu viku kemur fram að einu lausnir stjórnendanna séu að losa spítalann við vandann.

                                                                      ***

Annars vegar með því að færa hann annað, til einkarekinna heilbrigðisfyrirtækja eða annarra opinberra heilbrigðisstofnana, og hins vegar að fækka Covid-smitum í landinu og benda þeir sérstaklega á ferðamenn.

                                                                      ***

Þegar minnisblaðið var sent inn voru 27 inni á Landspítalanum með Covid-19, þar af sex á gjörgæslu.

                                                                      ***

Það er ljóst að stjórnendur Landspítalans eru ekki vandanum vaxnir. Allir sjá að Covid-19 hefur haft mikil áhrif á rekstur spítalans. En það er verkefni stjórnenda að bregðast við vandanum en ekki að koma stöðugt fram í fjölmiðlum og senda stjórnvöldum minnisblöð og væla yfir stöðunni. Það er ekkert gagn að slíkum mönnum og allra síst þegar reynir á.

                                                                      ***

Óðinn hvetur því forstjóra Landspítalans til að láta hér staðar numið og skrifa sitt síðasta bréf í starfi forstjóra - uppsagnarbréfið.

Óðinn er pistill sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.