*

laugardagur, 19. september 2020
Leiðari
5. júní 2020 07:10

Úr klóm drekans

Að mörgu er að huga þegar heimsfaraldurinn er genginn yfir, en þar verða samskipti við kommúnistastjórnina í Kína ofarlega á blaði.

epa

Að mörgu er að huga þegar heimsfaraldurinn er genginn yfir, en þar verða samskipti við kommúnistastjórnina í Kína ofarlega á blaði. Yfirhylmingu og fals um faraldurinn og upphaf hans má ekki líða. Fjölmargir erlendir miðlar hafa greint frá því einræðisherrann Xi Jinping hafi vitað af veirunni og að hún væri bráðsmitandi milli manna, löngu áður en umheiminum var greint frá.

Af þeim völdum hafa 6 milljónir manna veikst og 376 þúsund látist, þar af 10 á Íslandi. Fórnarlömbin þó örugglega fleiri, því tölfræði frá Kína ber með sér að vera skáldskapur. Mitt í faraldrinum notar Xi svo tækifærið til þess að herða þumalskrúfurnar í Hong Kong, þvert á gerða samninga, sendir herlið yfir landamærin við Indland og er með vopnaskak við Taívan. Einn lærdóm má því draga nú þegar: Einræðisherranum Xi og kommúnistastjórninni í Kína er ekki treystandi.

Því er mikilvægt að minnka ítök hennar á alþjóðavettvangi. Það er brýnast í Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni (WHO), en eins blasir við að það voru mistök að hleypa Kína í Alþjóðaviðskiptastofnunina (WTO) árið 2001. Ekki er heldur unnt að líta hjá því lengur að einangrunarstefnan gagnvart Taívan, sem heimsbyggðin hefur umborið, er ekki aðeins röng heldur hættuleg. Þaðan komu fyrstu viðvaranir um faraldurinn á meginlandinu, en WHO lét eins og þær væru ekki til, til þess að styggja ekki manninn í Peking. Það er tímabært að lýðræðisríkið Taívan verði tekið inn í alþjóðasamfélagið.

Hér heima bíða ýmis mál. Hið brýnasta varðar þátt Huawei í uppbyggingu innviða 5G-kerfisins, sem samrýmist hvorki þjóðaröryggi né netöryggi. Þrátt fyrir að áhyggjur af því hafi verið viðraðar í þjóðaröryggisráði virðist samgönguráðherra draga lappirnar og einu viðbrögðin óljóst orðuð grein í hinu ógnarlanga frumvarpi til fjarskiptalaga, sem ósennilegt er að verði samþykkt fyrr en á næsta þingi. Þar er ekki eftir neinu að bíða og hæg heimatökin að samþykkja sérlög um öryggishagsmuni við uppbyggingu farneta.

Þá er tímabært að íslensk stjórnvöld taki af skarið um málaleitan Peking um þátttöku í hinu stórfenglega fjárfestingarverkefni um „Belti og braut“, sem hefur verið til skoðunar í skúffu í Stjórnarráðinu. Henni ber að hafna. Íslenskir innviðir mega ekki vera háðir blóði drifinni einræðisstjórn, sem skirrist ekki við að beita bolabrögðum þegar henni hentar. Sú áminning er einkar viðeigandi í dag, 4. júní, þegar 31 ár er liðið frá fjöldamorðunum á Torgi hins himneska friðar.

Viðkvæðið um samskipti ríkjanna er jafnan að ekki megi stefna íslenskum viðskiptahagsmunum í hættu. Þær röksemdir standast illa. Á undanförnum áratug nemur útflutningur þangað 91 ma.kr., en á sama tíma nam innflutningur þaðan 490 ma.kr. Það sér hver maður að útflutningsverðmætin eru nánast skiptimynt, aðeins 1,5%. Vöruskiptahallinn er hins vegar galinn, vel ríflega fimmfaldur, 7,4% innfluttrar vöru á áratugnum. Burtséð frá þessu mikla misvægi í viðskiptum landanna, sem má að miklu leyti rekja til ófyrirleitinnar gengisstefnu Kína, þá eru útflutningshagsmunirnir hverfandi en Íslendingar óþægilega háðir Kínverjum um innflutning.

Það er því full ástæða til þess að endurskoða samskipti Íslands við Peking, sem hafa einkennst af undanlátssemi við harðstjórnina, án nokkurs árangurs fyrir aðra en ferðaglaða embættismenn, og ekki til þeirra hagsbóta fyrir Ísland sem látið hefur verið. Það má ekki gerast að ítök Peking-stjórnarinnar verði meiri, þvert á móti þarf að koma þeim í jafnvægi í kjölfar plágunnar og losa Ísland úr klóm drekans.

Nánar er fjallað um málið í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Stikkorð: Kína Kína Xi Jinping
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.