*

fimmtudagur, 24. september 2020
Týr
13. mars 2020 19:28

Úr sóttkvínni

Týr fékk góð ráð í vikunni um hvernig megi losna megi við heimsendaspámenn á internetinu.

Þetta eru einkennilegir dagar. Kórónuveiran vofir yfir allt í kring, ekki tvær vikur síðan fyrsta tilfellið á Íslandi var greint og nú eru þau orðin 128, svo staðfest sé. Sjálfsagt eru þau fleiri og ugglaust munu fleiri greinast á næstu vikum. Til allrar hamingju hefur enginn látist enn, en það má vera mikil gæfa ef sú verður raunin áður en yfir lýkur.

***

Ekki síður er þó merkilegt að finna og sjá hvernig veiran leggst á huga fólks. Það er varla um annað rætt og fólk tengir ólíklegustu hluti við faraldurinn. Margir vinnufélagar Týs hafa haldið sig heima og sjálfur hefur Týr farið að fordæmi þeirra, án þess þó að hafa fundið fyrir minnstu einkennum. Allur er varinn góður, þó ekki sé nú víst að hann haldi út í tvær vikur hvað þá meira. Enn síður þegar haft er í huga að dag hvern koma börnin heim úr fjölmennum skóla, alræmdri gróðrarstíu alls kyns umgangspest.

***

Á netinu fara allir helstu gárungarnir með gamanmál um faraldurinn. Sumt meira að segja frekar mikið fyndið. Ekki finnst öllum við hæfi að gantast með slík alvörumál, en á móti má spyrja hvort maðurinn hafi nokkra aðra vörn gegn vonleysi örlaga sinna en að henda grátt gaman að öllu saman, kórónuveirunni rétt eins og manninum með ljáinn.

***

Sumt er raunar hlægilegt án þess að það hafi verið ætlunin. Týr las þannig frétt á einum vefmiðlinum með fyrirsögninni „Frægir í sóttkví“. Hann kannaðist reyndar ekki við helminginn af frægðarfólkinu en hitt var kannski verra að hann sá ekkert um sjálfan sig þar. Svona eins og hann væri ekki einu sinni frægur á Íslandi eða enginn hefði tekið eftir því að hann hefði ekki komið til vinnu alla vikuna.

***

Enn sem komið er hefur sóttkvíin farið vel í Tý. Hann er vel birgur af öllu því sem máli skiptir og hefur sprittað sig vel bæði að utan og innan. Hann hefur einnig tekið við innkaupastjórninni á heimilinu og kaupir allt inn á netinu með þeirri afleiðingu helstri að matvöru- „budget“ mánaðarins kláraðist í gær og í bílskúrnum eru nú 160 klósettpappírsrúllur.

***

Besta sóttvarnaráðið fékk Týr þó frá ritstjóra þessa blaðs, sem benti honum á að á Facebook er hægt að snúsa stöku fólk. Það hefur hann gert óspart síðan, svo nú eru allir heimsendaspámennirnir honum horfnir en við blasa endalausir lolkettir. Svei mér ef veiran er ekki að hverfa úr hausnum líka!

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: veira Covid 19 Heimsendaspár
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.