*

þriðjudagur, 7. júlí 2020
Týr
31. maí 2020 09:08

Úr sóttkvínni

Finnarnir hafa nú aflagt 2 m regluna og tekið 5 m regluna upp á ný, meðan Íslendingar virðast hættir í varúðinni.

Haraldur Guðjónsson

Týr kemst víst ekki upp með það öllu lengur að aflétta sinni sjálfskipuðu sóttkví, sem nú hefur staðið í rúma tvo mánuði. Hann er að vísu enn mjög vel birgur af klósettpappír, gæti sem hægast lifað af eins og einn kjarnorkuvetur að því leyti, en sennilega endar hann á því að senda gríslingana út með rúllurnar til þess að selja til styrktar KR. Sömuleiðis verður tómatpasta sennilega á matseðlinum fram að jólum eigi Týr að eiga einhverja von um að geta nokkru sinni notað bílskúrinn í annað en vistir fyrir bönkerinn.

                                                                                        ***

Það er að vísu ekki svo að honum hafi borist nokkur beiðni um að snúa aftur á skrifstofuna þó hann sjái það á fjarfundunum að þangað eru flestir aðrir starfsmenn snúnir aftur og virðist bara heilsast vel. Einu athugasemdirnar sem Týr hefur fengið þaðan um að hann gæti komið út í dagsbirtuna aftur snúa að hárvextinum, sem er óneitanlega orðinn óþægilega mikið 80s. Jafnvel 70s. Týr veit samt ekki, honum finnst mölletið vera eins konar samstöðutákn í baráttunni við heimsfaraldurinn. Aðrir fjölskyldumeðlimir eru ekki sammála því.

                                                                                        ***

En kannski er ástæðulaust að vera að hugsa um einhverja samstöðu í því lengur. Þrenningin búin að syngja sinn lokasöng og svona. Týr fann það líka um daginn, þegar hann þurfti nauðsynlega að rjúfa sóttkvína til þess að fara út í búð, að hann var eiginlega einn eftir í varúðinni. Í hvert sinn sem hann mætti öðru gangandi fólki steig hann eitt lítið vinstra hopp til þess að fara í tveggja metra fjarlægð í kringum aðra vegfarendur en allt kom fyrir ekki.

Þeir tóku bara gamla, góða íslenska fruntann á þetta, gengu á lagið og inn í hinn ósýnilega sóttvarnahring. Tveir fóru meira að segja alla leið og ráku öxlina í Tý á leiðinni fram hjá að gömlum og góðum sið. Svo kannski það sé ekki allt breytt eftir plágu. Kannski það sé ekki neitt breytt, nema það að enginn megi ræskja sig án þess að minnast á fordæmalausa tíma.

                                                                                        ***

Svo hún var til einhvers þessi félagslega firð, sem Týr hafði tileinkað sér í sóttkvínni. Það var að vísu ekkert erfitt, bara rebranding á þeirri andfélagslegu firð, sem hann hefur tileinkað sér alla tíð. Sem minnir á að Finnarnir hafa nú aflagt 2 m regluna og tekið 5 m regluna upp á ný. Týr ætlar að reyna að hafa hana í huga þegar hann læðist á barinn í kvöld og fær sér Finlandia einn og átta. Kannski hann panti klippingu fyrir helgina.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér

Stikkorð: KR Finnar Sóttkví möllet
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.