Nú eru um það bil 10 mánuðir frá því að íslensk stjórnvöld byrjuðu að grípa til aðgerða vegna covid-19 faraldursins. Aðgerðirnar hafa verið bæði á sviði sóttvarna og efnahagsmála og miðast við það annars vegar að takmarka eins og kostur er útbreiðslu farsóttarinnar og hins vegar að milda hin efnahagslegu áhrif á fyrirtækin og heimilin í landinu.

Hvað sem mönnum finnst um einstakar aðgerðir í þessu sambandi og útfærslu þeirra þá liggur ótvírætt fyrir að aðgerðirnar fela í sér verulega aukin ríkisafskipti af hinum ýmsu sviðum þjóðfélagsins. Á grundvelli sóttvarnasjónarmiða hafa fjölmargar hömlur verið settar á bæði persónulegt frelsi einstaklinga og athafnafrelsi fyrirtækja og á sama tíma hafa beinir ríkisstyrkir og fleiri stuðningsaðgerðir af opinberri hálfu verið notaðar til að draga úr hinu efnahagslega höggi. Ég þori að fullyrða að hér á landi þarf að leita að minnsta kosti einhverja áratugi aftur í tímann til að finna sambærileg inngrip ríkisins í líf fólksins í landinu. Þetta er staðreynd, hvort sem mönnum finnst að þessar aðgerðir séu réttlætanlegar, æskilegar og nauðsynlegar eða ekki.

Sjálfur hef ég verið þeirrar skoðunar að aðgerðir á efnahagssviðinu hafi í meginatriðum átt rétt á sér og að nauðsynlegt hafi verið að beita krafti ríkisins til að auðvelda fyrirtækjum og heimilum í gegnum mestu erfiðleikana. Ég hef líka talið að réttlætanlegt væri að grípa til margvíslegra sóttvarnaráðstafana, þótt ég hafi á ýmsum stigum lýst áhyggjum af því að lagastoð þeirra væri óskýr og að deila mætti um hvort jafnræðis og meðalhófs væri alltaf gætt við útfærslu reglnanna. Mér sýnist að frumvarp til breytinga á sóttvarnalögum, sem nú er til umræðu í þinginu, með þeim breytingum sem velferðarnefnd vinnur nú að, komi að einhverju leyti til móts við þessar áhyggjur mínar. Á næstu dögum mun skýrast hver niðurstaða þess máls verður.

En nóg um það að sinni.

Sérstakar aðstæður en ekki varanlegar

Í byrjun nóvember skrifaði ég grein sem birtist hér í Viðskiptablaðinu þar sem ég lagði mikla áherslu á að við mættum ekki láta þessi víðtæku ríkisafskipti komast upp í vana. Við mættum ekki gleyma því að ástandið sem við glímum nú við er tímabundið, fordæmalaust og afbrigðilegt. Afskipti ríkisins réttlætast af þessum sérstöku aðstæðum, þau eru undantekningar og eiga ekki við undir öðrum kringumstæðum.

Mér finnst nauðsynlegt að ítreka þessa skoðun mína enda er mikil hætta á að ríkisafskipti af þessu tagi festist í sessi, að stjórnmálamenn og embættismenn venjist um of þeirri hugsun að það sé bæði þeirra hlutverk og skylda að gefa einstaklingum og fyrirtækjum fyrirmæli um bæði stærri og smærri mál, sem varða daglegt líf þeirra og starfsemi. Að það sé hlutverk þeirra að úthluta fjármunum skattgreiðenda til að styrkja sum atvinnufyrirtæki en ekki önnur. Að sumar atvinnugreinar eigi rétt á ríkisstyrkjum en aðrar ekki. Að stjórnmálamenn og embættismenn eigi að hafa það hlutverk að velja „sigurvegarana“ í atvinnulífinu – þeir séu betur til þess fallnir að koma auga á viðskiptatækifæri og góða kosti til atvinnuuppbyggingar heldur en markaðurinn.

Það er afar mikil hætta á að hugsunarháttur af því tagi festist í sessi. Það þarf ekki að fara langt aftur í tímann til að finna dæmi þess hér á landi. Tímabundið ástand, eins og við glímum nú við, má ekki verða til þess að við festumst varanlega í neti víðtækra ríkisafskipta.

Almennar aðgerðir en ekki sértækar lausnir

Við erum enn í djúpri efnahagslægð en það er engu að síður mikilvægt að við förum að huga að því hvaða leiðir við förum til að ná okkur á strik aftur. Það verður sennilega enginn skortur á tillögum stjórnmálamanna um margvíslegar sértækar aðgerðir í þágu einstakra atvinnugreina, byggðarlaga eða hópa. Einhverjar þeirra verða vafalaust nothæfar en engin þeirra mun skila neinum umtalsverðum árangri fyrir efnahagslífið til lengri tíma litið. Raunverulegur árangur, öflugur hagvöxtur og bætt lífskjör munu ekki nást nema með almennum aðgerðum til að bæta starfsskilyrði allra. Ekki bara sumra. Almennar skattalækkanir, minni reglubyrði og einfaldara starfsumhverfi fyrirtækja úr öllum greinum er miklu vænlegri leið til árangurs heldur en sértækar aðgerðir í þágu tiltekinna hagsmuna.

Höfundur er þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins.