Á þriðja degi ársins birtist frétt í Kjarnanum um hvernig Íslendingar lepja nú dauðann úr skelinni sem aldrei fyrr. Inntak fréttarinnar var að yfirdráttarlán heimila hefðu aukist á árinu. Í fréttinni segir:

Heimili landsins juku við yfirdráttarlán sín um 4,1 milljarð króna á fyrstu tíu mánuðum síðasta árs. Alls stóðu yfirdráttarlánin í 11,9 milljörðum króna í lok október 2022. Þetta er mesta hækkun á yfirdráttarlánum innan árs frá árinu 2012, þegar þau jukust um 6,8 milljarða króna. Raunar hefur það verið þannig flest árin síðan að heimilin hafa verið að greiða niður yfirdráttarlán sín frekar en að auka við þau. Það gerðist frá byrjun árs 2013 og út árið 2017 og aftur á árinu 2020. Á þeim árum sem yfirdrættirnir hækkuðu – 2018 til 2019 og á árinu 2021 – voru hækkanirnar mun hóflegri en í ár, frá 640 milljónum króna upp í 2,1 milljarð króna. Þetta má lesa út úr hagvísum Seðlabanka Íslands um útlán lánakerfi til heimila landsins.

Gallinn við þessa framsetningu er að ofangreindar hagtölur er alls ekkert hægt að lesa úr hagvísum Seðlabankans sem vísað er til. Upphæðirnar sem nefndar eru í umfjöllun fást ekki staðist. Þannig er vísað til 640 milljóna króna hækkunar á yfirdráttarlánum árið 2021. Það gerir um þrjú þúsund kall á hvert heimili í landinu.

Hið rétta er að yfirdráttarlán íslenskra heimila námu tæplega 100 milljörðum í árslok 2022 og þau jukust um ríflega tíu milljarða á árinu. Hverju sem því líður þá er þessi frétt Kjarnans ekki lengur aðgengileg á vef miðilsins. Engar útskýringar eru á því gefnar.

Fjölmiðlarýni er einn af skoðanadálkum Viðskiptablaðsins. Þennan pistil má lesa í heild í Viðskiptablaðinu sem kom út þann 12. janúar 2023.