Fyrirferð Marel hf. hefur aukist í hagkerfinu frá árinu 2016 og sömuleiðis áhætta sem henni fylgir. Virði félagsins var 350 milljarðar króna við lok viðskipta síðastliðinn þriðjudag eða 35% af heildarvirði skráðra hlutabréfa og 10% af heildarvirði allra skráðra verðbréfa í Kauphöllinni. Virði þess jafnast á við virði allra skráðra fyrirtækjaskuldabréfa, er 90 milljörðum frá virði allra óverðtryggðra ríkisskuldabréfa, og 130 milljörðum meira en öll útlán stóru viðskiptabankanna til ferðaþjónustu.

Félagið vegur nú um 56% í Úrvalsvísitölunni ( OMXI8 ) og veldur því að verðbréfasjóðir sem miða umframávöxtun við hana eða OMXI8cap eru líklegir til þess að eiga stóran hlut í Marel.

Þriðjungur safns virðismesta innlenda hlutabréfasjóðsins, Stefnis ÍS-15 , samanstendur af Marel eða um 5,5 milljarðar króna samkvæmt heimasíðu Stefnis. Marel hefur um 22% vægi í Úrvalsbréfum Landsbréfa og 16% í Hlutabréfasjóði Íslandssjóða samkvæmt upplýsingablöðum sjóðanna. Í heildina halda þessir þrír virðismestu innlendu hlutabréfasjóðir á 8 milljörðum í Marel af um 30 milljörðum í stýringu.

Þeir 12 lífeyrissjóðir sem voru meðal tuttugu stærstu hluthafa í Marel 1. apríl síðastliðinn samkvæmt Kodiak Excel eiga um 35% af félaginu. Samtals virði eignarhlutarins er um 121 milljarður króna og var um 25% af heildareign lífeyrissjóða í innlendum hlutabréfum í febrúar samkvæmt Seðlabanka Íslands.

Frá árinu 1992 hefur vörusala Marel aðallega farið fram á erlendum mörkuðum og árið 2018 mátti rekja 46% tekna til sölu í Evrópu og 30% í Bandaríkjunum. Myndin sýnir annars vegar raunþróun hagnaðar Marel á hlut (vinstri ás) og hins vegar hagvöxt viðskiptalanda Íslands (hægri ás). Í ástandi 2% hagvaxtar hefur hagnaður Marel vaxið mikið frá 2014 en ári síðar var rekstur félagsins endurskipulagður ásamt því að félagið keypti þrjú erlend félög 2016 til 2018 með tilheyrandi veltuaukningu. Til marks um samsetningu eigna hefur Marel keypt fimm erlend félög frá 2005 og á sama tíma hefur bókfærð viðskiptavild farið úr 8% af heildareignum félagsins í 40% árið 2018.

Frá áramótum hefur virði Marel aukist um 40% og horft til hlutfalls verðs á móti hagnaði er miðgildi þess 22,5 frá árinu 1994. Síðastliðinn þriðjudag var hlutfallið 22,8 sem gefur til kynna að fjárfestar telji óbreyttan hagnað í ár ásættanlega. Hagnaður á hlut hefur vaxið að miðgildi um 3% frá 1994 en hagvöxtur ríflega 2,4%. Í þeim tólf tilfellum sem hagvöxtur viðskiptalanda hefur farið dvínandi milli ára hefur hagnaður Marel dregist saman um 8% að miðgildi. Samkvæmt spá Alþjóðagjaldeyrissjóðsins sem birt var síðastliðinn þriðjudag eru væntingar um að hagvöxtur í helstu viðskiptalöndum Marel verði 1,65% næstu tvö ár.

Grein þessi er einungis rituð og birt í upplýsingaskyni og skal ekki með neinum hætti líta á hana sem fjárfestingarráðgjöf. Hún byggir á opinberum upplýsingum sem tiltækar voru er hún var rituð. Helstu heimildir eru m.a. efnahagslegar skýrslur, birt uppgjör og upplýsingar sem hafa verið birtar opinberlega. Skoðanir og spár geta breyst án fyrirvara, t.d. með tilkomu nýrra upplýsinga. Hafa skal í huga að þær upplýsingar sem fram koma í greininni geta verið rangar þrátt fyrir að reynt hafi verið að koma í veg fyrir það. Viðskiptablaðið getur ekki borið ábyrgð á röngum upplýsingum og afleiðingum þeirra.