Greining Samkeppniseftirlitsins (SKE) á framlegð á dagvörumarkaði hefur fengið nokkra umfjöllun að undanförnu, þó vissulega ekki jafnmikla og tímamótagreining stofnunarinnar á sósumarkaði.

Í greiningunni bendir eftirlitið á að verðlag á Íslandi sé almennt hátt og að framlegð í krónum talið hafi aukist seinustu misseri, þó áhrifa heimsfaraldurs á umsvif innlendrar verslunar sé hvergi getið í því samhengi.

Hvorugur þessara þátta segir hins vegar nokkuð til um álagningu fyrirtækja né samkeppnisstöðu þeirra. SKE skoðar þó loks framlegðarhlutfall nokkurra innlendra dagvöruverslana í alþjóðlegum samanburði.

Ein helsta ályktun greiningarinnar, sem fengið hefur víðtæka umfjöllun, er sú að framlegðarhlutfall íslensku fyrirtækjanna sé hátt í alþjóðlegum samanburði, sem veki upp spurningar um samkeppnislegt aðhald. Í greiningunni virðist ýjað að því að íslensk fyrirtæki maki krókinn í því efnahagsástandi sem nú ríkir og að þetta þurfi eftirlitið e.t.v. að rannsaka frekar.

Spurningar hljóta því að vakna um það hvort greiningarhæfni innan stofnunarinnar sé ábótavant eða hvort greiningunni sé hreinlega ætlað að mála upp tortryggilega mynd.

Ef það væri sannarlega tilfellið væri það allrar athygli vert. Þegar nánar er að gáð má hins vegar sjá að enginn fótur er fyrir þessari ályktun!

Alþjóðlega úrtakið er ekki á nokkurn hátt samanburðarhæft. Þá er engin tilraun gerð til að skoða fleiri mælikvarða úr rekstri fyrirtækja sem hafa áhrif á framlegð, né til að greina frá þeim fjölmörgu þáttum sem skýrt gætu mun á framlegð milli fyrirtækja og markaða – allt lágmarkskröfur í samanburðargreiningum. Að auki má hæglega sjá að framlegðarhlutfall t.d. Haga og Festi hefur farið lækkandi samhliða aukinni verðbólgu.

Fjölmargar aðrar athugasemdir má gera við aðferðafræði í greiningunni sem rúmast ekki í þessum pistli. Spurningar hljóta því að vakna um það hvort greiningarhæfni innan stofnunarinnar sé ábótavant eða hvort greiningunni sé hreinlega ætlað að mála upp tortryggilega mynd af rekstri íslenskra fyrirtækja. Hvort verra væri skal ósagt látið.

Pistillinn birtist í Viðskiptablaðinu, sem kom út fimmtudaginn 9. mars 2023.