Nýlega birtist frétt með fyrirsögninni að „Helmingur efast um endurvinnslu Sorpu“. Hér er vissulega um umhugsunarverða staðreynd að ræða fyrir þær sakir að allir ættu að efast um endurvinnslu Sorpu sem og tilvist Endurvinnslusjóðs. Fulltrúi fyrirtækisins kveður fast að orði og telur „merkilegt“ að fólk skuli efast um endurvinnslu og nefnir máli sínu til stuðnings þá staðreynd að búið sé að verja hundruðum milljóna af almannafé í móttöku og endurvinnslustöðvar.

Þess ber kannski fyrst að geta að líklega er ámóta einfalt að ná heildaryfirliti yfir endurvinnsluiðnaðinn eins og jafnréttisiðnaðinn og umhverfisiðnaðinn sem skiptist niður í sjóði, ráð og deildir, ýmist á sveitarstjórnar- eða ríkisstigi. Því verður í þessari grein aðeins minnst á nokkur dæmi um hve glórulausan rekstur er að ræða sem byggist á pólitískum rétttrúnaði, sérfræðingaveldi og meinlokuhugsun.

Gler mulið og urðað

Nú getur vel verið að endurvinnsla geti staðið undir sér í milljónasamfélögum þar sem landrými er að auki takmarkað en slíkt á ekki við hér á landi. Því mun endurvinnsla hér ávallt verða kostnaður sem leggst á vöruverð á endanum. Endurvinnslugjald eða skilagjald er lagt á flesta hluti; vörubretti, umbúðir og jafnvel innihald eins og rafhlöður sem augljóslega hækkar vöruverð til neytenda.

Sem dæmi má nefna að einstaklingar, veitingastaðir og stofnanir leggja á sig ærna fyrirhöfn við að safna og koma á móttökustöðvar glerflöskum, hvort heldur er undan bjór, víni, gosdrykkjum eða öðru. Sorpa og Endurvinnslusjóður sjá svo um að endurgreiða skilagjaldið. Því miður þarf hinsvegar meiri orku í að endurvinna gler heldur en fer í að búa til nýtt og því er allt gler einfaldlega mulið og urðað hér á landi. Því hlýtur að mega spyrja, hvers vegna glerið geti ekki einfaldlega verið undanþegið skilagjaldi og farið óflokkað í ruslið til urðunar með öðru sorpi?

Rafhlöður líka urðaðar

Einnig má nefna að endurvinnslugjaldi sem innheimt er af rafhlöðum er hvorki skilað til baka til neytenda við skil til Sorpu né heldur er það notað í eiginlega endurvinnslu því samkvæmt upplýsingum frá Sorpu fara 93% af öllum rafhlöðum einfaldlega sömu leið og glerið, þ.e. í urðun! Hér er því um hreina skattheimtu að ræða sem fer í rekstur á sjálfhverfri hít endurvinnsluiðnaðarins.

Líklega nær sirkus fáránleikans hæstu hæðum þegar kemur að söfnun og endurvinnslu á dagblaða- og umbúðapappír. Eftir allan tilkostnað vegna söfnunar, böggunar og útflutnings, kemur í ljós að baggarnir eru afhentir ýmist ókeypis eða því sem næst á hafnarbakka erlendis.

Umhverfisvæn urðun

En hvað með umhverfið, kunna sumir að spyrja, er ekki hræðilega „óumhverfisvænt“ að grafa bara pappírinn í jörðu? Því er til að svara að áður fyrr voru víða gerð afdrifarík mistök við urðun á sorpi, m.a. í mýrlendi sem síðan olli mengun. Engu slíku er til að dreifa í dag og pappír er meira að segja hentugur til að flýta fyrir jarðvegsmyndun í sorphaugum. Á móti kemur að nytjaskógar á norðurslóðum hafa líklega aldrei verið stærri þrátt fyrir að starfsemi skógarbænda þurfi að takast á við skefjalausa samkeppni við niðurgreiddan pappír frá endurvinnslustöðvum.

Svo geta menn velt fyrir sér hvort sé umhverfisvænna að nú skuli tvær gerðir söfnunarbíla keyra um götur landsins í stað einnar til þess eins að hirða húsasorp.

Pistill Arnars birtist í Viðskiptablaðinu 30. maí 2013. Áskrifendur geta nálgast blaðið í heild hér að ofan undir liðnum tölublöð .