Við leyfum oft tilfinningum að ráða för í umræðu um jöfnuð í íslensku samfélagi. Að undanförnu hefur því ítrekað verið haldið fram að ójöfnuður hér á landi hafi aukist. Sú bjagaða mynd er einnig dregin upp í nýlegri skýrslu á vegum sérfræðingahóps verkalýðshreyfingarinnar.

Tölur Hagstofunnar sýna hið gagnstæða. Ef litið er til dreifingar heildarlauna hækkuðu neðstu tvær tekjutíundir um 7 prósent á milli áranna 2019 og 2020 og efstu tvær tekjutíundir um 5 prósent. Litið fimm ár aftur í tímann hafa neðstu tekjutíundir einnig hækkað hlutfallslega meira en þær efstu. Tekjujöfnuður hefur því aukist undanfarin ár og næstum hvergi er tekjujöfnuður meiri en á Íslandi, eins og alþjóðastofnanir á borð við OECD hafa margstaðfest.

Því hefur einnig verið haldið fram að eignaójöfnuður hafi aukist, m.a. með þeim rökum að húsnæðiseigendur hafi notið góðs af lágum vöxtum og hækkun fasteignaverðs. Hvergi er í því samhengi minnst á að hlutfall fyrstu kaupenda hefur aldrei verið hærra.

Hagstofan birtir einnig eignadreifingu landsmanna eftir tíundum aftur í tímann. Mælikvarðinn er ekki gallalaus en sá skásti sem til er. Eiginfjárstaða allra tíunda batnaði milli áranna 2019 og 2020, hlutfallslega mest hjá neðstu tíundum og hlutfallslega minnst hjá efstu tíundum. Ef litið er fimm ár aftur í tímann fæst álíka niðurstaða.

Þótt krónutala hinna efnamestu hækki meira en annarra er hlutfall þeirra af kökunni að minnka. Á mannamáli þýðir þetta að eignaójöfnuður fer minnkandi. Ekki verður betur séð en að sérfræðingar verkalýðshreyfingarinnar og aðrir skelli skollaeyrum við tölulegum staðreyndum.

Vafasöm túlkun fólks sem er áberandi í þjóðfélagsumræðunni um að ójöfnuður á Íslandi fari vaxandi getur alið á óánægju, kynt undir þjóðfélagsleg átök og aukið fylgi popúlista, sem er engum til bóta. Við eigum að fagna umræðu um jöfnuð, en hún verður að vera byggð á gögnum.

Pistlahöfundur er aðstoðarframkvæmdastjóri SA