*

sunnudagur, 19. september 2021
Týr
18. október 2020 09:08

Vald fjölmiðlaráðherra

Það vill enginn stjórnamálamaður fá RÚV upp á móti sér ári fyrir kosningar.

Lilja Dögg Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Lilja Dögg Alfreðsdóttir menntamálaráðherra gerði um nýliðna helgi „alvarlegar athugasemdir“ við forsíðufrétt Morgunblaðsins, hvar fullyrt var að ráðherrann hefði gert nýjan þjónustusamning við Ríkisútvarpið ohf. (RÚV). Í fréttinni kom fram að tekjur ríkisfjölmiðilsins hefðu verið tryggðar og að engar breytingar yrðu á stöðu risans á auglýsingamarkaði. Athugasemdir ráðherrans hröktu þó hvorki fyrrnefnd efnisatriði né fólu í sér efnislegar leiðréttingar heldur sneru að öðrum minni þáttum.

                                                          ***

Týr þykist vita að drög að samningnum liggi fyrir þó hann hafi enn ekki verið formlega undirritaður. Í þeim drögum eru tekjur RÚV tryggðar sem og staða stofnunarinnar á auglýsingamarkaði. Í pólitísku tilliti eru það skýr skilaboð til þeirra sem hafa léð máls á því að styðja fjölmiðlafrumvarp Lilju með því skilyrði að RÚV ýmist hverfi eða minnki umsvif sín á auglýsingamarkaði. Á hinn bóginn kann að vera skynsamlegt hjá ráðherranum að gera tilraun til að halda starfsmannafélaginu í Efstaleiti góðu. Það vill enginn stjórnamálamaður fá RÚV upp á móti sér ári fyrir kosningar.

                                                          ***

Það er þó annað sem Týr hefur áður vakið athygli á. Það er fjölmiðlaumhverfi sem háð er velvild og duttlungum stjórnmálamanna – ekki síst mennta- og menningarmálaráðherra sem er á góðri leið með að hafa líf allflestra fjölmiðla í hendi sér. Í formála athugasemda við frétt Morgunblaðsins sagði ráðherrann að hún væri vön góðum samskiptum við fjölmiðla og þekkti starfsfólk Morgunblaðsins af góðu einu. Týr myndi öllu jafna ekki líta á þetta sem hótun, nema fyrir þær sakir að sami ráðherra kann – ef fer sem horfir – að hafa talsvert um það að segja hvernig næsta úthlutun fjölmiðlastyrkja ríkisins verður háttað.

                                                          ***

Til að gæta sanngirni mætti, umræðunnar vegna, taka Lilju D. Alfreðsdóttur út úr menginu og setja hvaða stjórnmálamann sem er í staðinn. Það myndi sem dæmi ekki koma Tý á óvart ef menntamálaráðherra úr röðum Samfylkingarinnar eða Pírata hefði frekar áhuga á því að styrkja hliðholla vefmiðla en Morgunblaðið, svo tekið sé dæmi. Það er undarleg staða fyrir alla – bæði stjórnmálamenn og fjölmiðla – að umfjöllun um störf stjórnmálamanna sé háð því hvort þeir taki upp veskið fyrir hönd skattgreiðenda eða ekki.

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.