*

laugardagur, 28. nóvember 2020
Hersir Aron Ólafsson
29. október 2020 12:18

Vald og vandlæting

„Það er engum greiði gerður með stöðugum upphrópunum og óverðskuldaðri tortryggni þegar texti minnisblaðs er ekki tekinn hrár upp í reglugerð.“

Svandís Svavarsdóttir, heilbrigðisráðherra.
Haraldur Guðjónsson

Íslendingar eru um margt heppnir á annars óheppilegum tímum.

Það er til dæmis heppilegt að eiga panel þriggja sérfræðinga sem veita dýrmæta ráðgjöf og spjalla í sjónvarpi á hverjum degi, þó það sé nóg að gera. Sömuleiðis er heppilegt að búa við ríkisstjórn sem eftirlætur sérfræðingum sviðið þegar rætt er um tölur og staðreyndir frekar en að baða sig í athyglinni, líkt og margir myndu eflaust gera.

Þessi heppilega staða hefur þó líka leitt af sér nokkuð óheppilegar ályktanir og orðræðu.

Nærtækt dæmi er umfjöllun um nokkurra daga gamla reglugerð heilbrigðisráðherra um umfang samkomutakmarkana. Þar ákvað ráðherra að fylgja ráðum sóttvarnarlæknis og leyfa íþróttir innanhúss að virtum ströngum reglum um fjarlægð, hámarksfjölda og snertileysi. Ráðherra heimilaði ekki aðeins „crossfit, yoga og annað sambærilegt" eins og sóttvarnarlæknir lagði til í minnisblaði, heldur einnig aðra hóptíma í heilsurækt með sömu ströngu skilyrðum.

Í kjölfarið fylgdi óvænt atburðarás, þar sem nokkrir dagar voru undirlagðir umfjöllun um meint misræmi milli ráðlegginga sóttvarnarlæknis og reglugerðarinnar. Til viðtals voru meðal annars landsþekktur leikstjóri, ættingi smitaðra hnefaleikakappa og forstjóri líftæknifyrirtækis, sem fundu misræminu allt til foráttu. Á samfélagsmiðlum birtist óbeisluð vandlæting og jafnvel látið að því liggja að annarlegar hvatir byggju að baki ákvörðun ráðherra.

Nú kunna umræður um líkamsrækt sannarlega að virðast léttvægar í ljósi aðstæðna. Hins vegar er nauðsynlegt að staldra við, enda kristallast í málinu ákveðinn misskilningur um hvar endanlegt vald og ábyrgð liggur.

Líkt og sóttvarnarlæknir hefur ítrekað bent á felst hlutverk hans í að veita stjórnvöldum ráðgjöf, þar sem fyrst og fremst er litið til sóttvarnarsjónarmiða. Ráðherra ber svo að vega og meta ráðgjöfina með hliðsjón af ýmsum þáttum á borð við andlega og líkamlega heilsu, lífsviðurværi borgaranna og sjónarmið um jafnræði og meðalhóf, áður en ákvörðun er tekin.

Ef að líkum lætur eigum við eftir marga mánuði af samvist við veiruna. Til að lífið verði allavega bærilegt á þeim tíma er mikilvægt að umræðan sé hófstillt og skynsamleg. Það er engum greiði gerður með stöðugum upphrópunum og óverðskuldaðri tortryggni þegar texti minnisblaðs er ekki tekinn hrár upp í reglugerð.

Endanlegt vald til að setja reglugerðir er nefnilega falið lýðræðislega kjörnum fulltrúum úr hópi ráðherra með lögum. Það eru enda þeir sem að lokum þurfa að axla ábyrgð á teknum ákvörðunum.

Slík ábyrgð hvílir ekki á sóttvarnarlækni og því síður á íslenskum leik- eða forstjórum.

Höfundur er lögfræðingur

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.