*

miðvikudagur, 29. janúar 2020
Óðinn
20. mars 2018 13:31

Valdatafl í Brussel

Martin Selmayr er nýr aðalritari framkvæmdastjórnar ESB eftir tilfæringar sem sumir kalla djarft valdarán.

Martin Selmayr er nýr aðalritari framkvæmdastjórnar ESB eftir það sem sumir kalla valdarán.
epa

Evrukrísan svokallaða, sem um tíma var svo alvarleg að sumir voru farnir að efast um framtíð evrunnar og Evrópusambandsins, hefur legið í dvala síðustu misseri og mun gera það um tíma enn. Enginn skal þó efast um annað en að vandanum hefur aðeins verið slegið á frest. Evruríkin eru mörg allt of skuldsett og ef að því kemur að vaxtastig fer að síga upp á við á ný má búast við því að skuldir ríkjanna verði fréttamatur á ný.

                                               ***

En þetta andrými hefur orðið til þess að enn á ný eru íslenskir stjórnmálamenn farnir að gæla við þá firru að Ísland bindi trúss sitt við ESB. Það hefur oftast verið gert undir rós með því að tala um krónuna sem handónýtan gjaldmiðil og látið í það skína, eða jafnvel fullyrt berum orðum, að framtíð Íslands sé háð upptöku evrunnar.

                                               ***

Með öðrum orðum eru skilaboðin þau að vandi evrunnar og ESB sé leystur og að ekkert sé því til fyrirstöðu að Ísland gangi í klúbbinn, enda sé ástandið hér á Íslandi skelfilegt, með spillingu og skorti á gagnsæi og virðingu fyrir lýðræðinu. Hér verður ekki púðri eytt í að benda á að efnahagslega hefur Ísland verið á mun stöðugri og kröftugri siglingu en ESB-ríkin og mun gera það næstu árin – það hefur verið gert áður og verður eflaust gert á ný.

                                               ***

Hér verður eingöngu rakin lítil saga sem segir gríðarlega margt, og það ekki gott, um stöðu mála innan einnar æðstu stofnunar ESB.

                                               ***
Hver er þessi Selmayr?

Það segir sína sögu um gagnsæið í ranghölum Evrópusambandsins að afar fáir Íslendingar þekkja manninn Martin Selmayr. Selmayr er 47 ára gamall Þjóðverji sem var til skamms tíma starfsmannastjóri JeanClaude Juncker, forseta framkvæmdastjórnar ESB. Hann fékk á dögunum mjög veglega og óvenjulega stöðuhækkun og það ferli allt varpar ljósi á það hvernig kaupin raunverulega gerast á eyrinni í Brussel.

                                               ***

Jean Quatremer skrifaði mjög ítarlega og góða grein í breska tímaritið Spectator um aðdraganda og eftirmála þess sem hann kallar sjálfur valdarán og hvetur Óðinn lesendur til að kynna sér efni hennar.

                                               ***

Klukkan 9.39 að morgni miðvikudagsins 21. febrúar fengu um þúsund fréttamenn í Brussel tölvupóst þar sem þeir voru boðaðir á blaðamannafund með Juncker, sem hefjast átti 50 mínútum seinna, eða klukkan 10.30. Þetta var allt mjög óvenjulegt, bæði vegna þess hversu stuttur fyrirvarinn var, en ekki síður vegna þess að Juncker hefur haldið afar fáa blaðamannafundi sem forseti framkvæmdastjórnarinnar.

                                               ***

Á fundinum var blaðamönnunum tilkynnt að Selmayr hefði verið skipaður nýr aðalritari framkvæmdastjórnarinnar, sem gerir hann að æðsta yfirmanni allra 33.000 starfsmanna framkvæmdastjórnarinnar. Blaðamönnunum kom þetta á óvart, vegna þess að ekkert hafði gefið til kynna að sitjandi aðalritari, Alexander Italianer, væri á leiðinni út.

                                               ***
Quatremer talaði við einn meðlim framkvæmdastjórnarinnar sem lýsti því sem gerðist á fundi hennar áður en boðað var til blaðamannafundarins. Það segir sitt um stöðu Selmayr að þessi heimildarmaður, sem á að heita einn valdamesti maður ESB, vildi ekki koma fram undir nafni.

                                               ***
Framkvæmdastjórnin fífluð

Juncker boðaði framkvæmdastjórnina á fund klukkan 9.30 þann 21. febrúar. Þar greindi hann þeim frá því að Selmayr ætti að fá stöðuhækkun. Hann átti þó ekki að fá embætti aðalritara, heldur embætti aðstoðaraðalritara, sem var laust. Þetta kom meðlimum framkvæmdastjórnarinnar aðeins á óvart, en Juncker sannfærði þá um að Selmayr væri vel að upphefðinni kominn.

                                               ***

Svo var trompinu spilað. Þegar Selmayr hefði verið staðfestur aðstoðaraðalritari tilkynnti Juncker framkvæmdastjórninni að Italianer aðalritari hefði sagt af sér og að Selmayr, sem aðstoðarmaður hans, myndi taka við embætti aðalritara þann 1. mars.
„Við vorum þarna vitni að skipulögðu og djörfu valdaráni,“ sagði heimildarmaðurinn. Framkvæmdastjórninni var ekki gefinn neinn tími til að bregðast við, enda var tölvupósturinn sendur blaðamönnum níu mínútum eftir að fundur stjórnarinnar hófst.

                                               ***

Selmayr hefur ekki setið aðgerðalaus og hefur þegar látið berlega í ljós hvaða augum hann sér sitt nýja starf. Nokkrum dögum eftir að hann tók við aðalritarastarfinu sendi hann öllum starfsmönnum framkvæmdastjórnarinnar bréf. Sendingin sem slík er óvenjuleg, því venjulega er það aðeins forsetinn sem sendir þau.

Í bréfinu, sem Quatremer, líkir við árlegt ávarp Páfans, sagði Selmayr að embættismenn ESB ættu ekki sætta sig við það að vera „vélin sem lætur stofnun okkar ganga“, sem er merkilegt í ljósi þess að það er nákvæmlega hlutverk framkvæmdastjórnarinnar. Selmayr sagði að hlutverk embættismannanna væri að vera „hjartað og sálin í framkvæmdastjórninni“. Með þessum orðum var Selmayr í raun að segja að framkvæmdastjórnin sjálf, sem skipuð er af aðildarríkjum ESB, væri aukaatriði.

                                               ***

Framkvæmdastjórnin fær sitt

Í ljósi alls þessa er áhugavert að velta því fyrir sér af hverju framkvæmdastjórnin lætur þetta yfir sig ganga. Gæti það verið vegna þess að Selmayr er að undirbúa gríðarlega aðlaðandi pakka fyrir sitjandi meðlimi framkvæmdastjórnarinnar. Þegar meðlimir hennar hætta störfum eiga þeir rétt á greiðslum sem nema 2/3 launa þeirra í um tvö ár, en hæstar geta greiðslurnar orðið 13.500 evrur á mánuði, andvirði um 1,7 milljóna króna – skattfrjálst að sjálfsögðu. Selmayr hyggst nú framlengja þessar greiðslur þannig að þær vari í allt að fimm ár.

Auk þess munu fyrrverandi meðlimir framkvæmdastjórnarinnar fá skrifstofu í höfuðstöðvum framkvæmdastjórnarinnar, einkabíl með bílstjóra og tvo aðstoðarmenn. Selmayr er sem sagt að tryggja fráfarandi framkvæmdastjórum um það bil tvisvar til þrisvar sinnum meira en þeir fá nú.

                                               ***

En það þurfti meira til að tryggja framgang Selmayrs. Þetta hefði aldrei gengið upp nema með samvinnu Irene Souka, sem er yfirmaður mannauðsmála hjá framkvæmdastjórninni. Í síðasta mánuði var reglum um starf hennar breytt þannig að hún mun ekki þurfa að hætta störfum þegar hún nær eftirlaunaaldri. Það sama var gert fyrir eiginmann hennar, Dominique Ristori, sem er yfirmaður orkumála hjá framkvæmdastjórninni.

                                               ***

Það er ágætt að setja þetta í samhengi við umræðuna um greiðslur til íslenskra þingmanna vegna aksturs um kjördæmi þeirra.

                                               ***

Að sjálfsögðu þurfti Juncker sjálfur að samþykkja þetta allt, en það hefur um skeið verið opinbert leyndarmál að Selmayr er sá sem raunverulega hefur haldið um valdataumana hjá embættismannakerfi framkvæmdastjórnarinnar. Juncker hefur feginn eftirlátið Selmayr alla vinnuna og er nú að verðlauna sinn mann.

                                               ***

Af hverju þessi flýtir? En af hverju þurfti að fara þessa leið? Af hverju að snúa svona harkalega á framkvæmdastjórnina sjálfa? Juncker mun sitja í embætti til ársins 2019 og því í raun ekkert sem segir að Selmayr hefði þurft að gera þetta núna.

                                               ***

Í fyrsta lagi þá þurfti Selmayr að vera fljótur, því ef farið hefði að kvisast út að embætti aðalritara væri að losna hefðu Frakkar viljað fá sinn mann þar inn. Fyrir voru Þjóðverjar með tvær af fjórum mikilvægustu stöðunum innan embættismannakerfis ESB (forseta þingsins og yfirmann utanríkisþjónustunnar) og nú eru Þjóðverjarnir orðnir þrír með upphafningu Selmayrs.

                                               ***

Quatremer segir svo aðra ástæðu fyrir flýtinum. Juncker mun hætta sem forseti á næsta ári og Selmayr vill tíma til að haga hlutunum þannig að næsti forseti verði honum þóknanlegur. Selmayr tók virkan þátt í því að koma á svokölluðu Spitzenkandidat kerfi við val á forseta. Það felur það í sér að hver flokkur innan Evrópuþingsins verður að setja fram sitt forsetaefni fyrir kosningar til þingsins.

Þingflokkur miðjuhægrimanna á þinginu, European People’s Party (EPP), fékk flesta þingmenn og því varð þeirra forsetaefni, Juncker, fyrir valinu. Næsta verkefni Selmayr verður að fá EPP til að setja Frakkann Michel Barnier á oddinn fyrir næstu kosningar. Barnier stýrir nú samningaviðræðum við Breta um útgöngu þeirra úr ESB, og var það Selmayr sem sá til þess að hann fékk það hlutverk.

                                               ***

Selmayr er að takast það að verða valdamesti maðurinn innan framkvæmdastjórnar ESB og það án þess að hafa nokkru sinni þurft að leggja verk sín í dóm kjósenda.

                                               ***

Dæmi hver fyrir sig hvort þetta er batterí sem við Íslendingar höfum eitthvert erindi í.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.