*

sunnudagur, 18. ágúst 2019
Týr
26. júlí 2015 17:17

Valdmörk skattsins

Hvernig er upplýsingaöflun skattstjóra um útleigu Íslendinga á íbúðum háttað?

Týr hrökk við þegar hann las viðtal við Skúla Eggert Þórðarson ríkisskattstjóra um eftirlit með skattgreiðslum þeirra sem leigja út íbúðir í gegnum vefsíður eins og Airbnb. Í gegnum slíkar síður getur fólk auglýst íbúðir og hús til leigu til skamms tíma og fær gjarnan greitt inn á greiðslukort, eða inn á Paypal reikning.

* * *

„Við förum ekki inn á heimili fólks til þess að ganga úr skugga um það. Þær athuganir eru gerðar öðruvísi. Við fáum upplýsingar um greiðslur sem fara í gegnum þær vefsíður, sem sjá um slíka útleigu. Í kjölfar þess að fá slíkar upplýsingar göngum við úr skugga um að skattaskilin séu í lagi,“ sagði Skúli við Morgunblaðið.

* * *

Vissulega er gott að vita að útsendarar skattsins séu ekki beinlínis að ryðjast inn á heimili fólks í leit að skattsvikurum, en svar skattstjóra vekur engu að síður upp fleiri spurningar en hún svarar.

* * *

Hvaðan fær skattstjóri umræddar upplýsingar? Varla fá yfirvöld þær sendar frá erlendu miðlunarsíðunum og því síður frá Paypal. Er því nokkuð ljóst að skatturinn er að fá upplýsingar um þá sem fá greitt inn á íslenskt greiðslukort.

* * *

En hvernig fer sú upplýsingaöflun fram? Fær skatturinn sjálfkrafa sendar upplýsingar frá bönkum eða greiðslukortafyrirtækjum um allar greiðslur sem merktar eru Airbnb? Hefur hann e.t.v almennan aðgang að slíkum gögnum? Þarf hann að óska eftir upplýsingum um einstaka skattgreiðendur sem hann vill rannsaka nánar?

* * *

Ekki hafa fengist neinar frekari útskýringar á því hvað í orðum Skúla Eggerts fólst, en þetta eru spurningar sem þarf að svara, vegna þess að almenningur á rétt á að vita að hvaða leyti og við hvaða aðstæður starfsmenn ríkisskattstjóra geta kafað ofan í greiðslusögu þeirra.

* * *

Af gamalli reynslu er Týr því farinn að óttast það versta. Eins og með flesta þá er ekkert á greiðslukortareikningum hans sem hann þarf að skammast sín fyrir, en það þýðir ekki að fulltrúar ríkisvaldsins eigi að hafa óheftan aðgang að þeim upplýsingum. Þótt sumir vinstrimenn virðist vera komnir á þá skoðun að friðhelgi einkalífsins stoppi við bankareikninga fólks, þá er Týr á annarri skoðun.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.