*

miðvikudagur, 8. desember 2021
Týr
31. ágúst 2018 10:18

„Valdníðingur“?

Eftir fjögurra ára starf Stjórnkerfisráðsins við að yfirfara stjórnkerfið brast í vor á með fordæmalausri skæðadrífu áfellisdóma.

Halldór Auðar Svansson.
Haraldur Guðjónsson

Eftir borgarstjórnarkosningar 2014 mynduðu vinstri flokkarnir Björt framtíð, Samfylking, VG og Píratar meirihluta. Stofnað var nýtt ráð á kostnað borgarbúa fyrir Halldór Auðar Svansson, borgarfulltrúa Pírata: Stjórnkerfis- og lýðræðisráð. „Ráðið fer með það verkefni að yfirfara stjórnkerfi Reykjavíkurborgar með það að markmiði að gera það einfaldara og markvissara,“ segir á vef borgarinnar.

                                                                ***

Eftir fjögurra ára starf Stjórnkerfisráðsins undir formennsku Halldórs við að yfirfara stjórnkerfið brast í vor á með fordæmalausri skæðadrífu áfellisdóma yfir stjórnendum borgarinnar frá dómstólum, kærunefndum og umboðsmönnum vegna brota á stjórnsýslureglum, almennum lögum, jafnréttislögum, stjórnarskrá og alþjóðlegum mannréttindasáttmálum. Ef Halldór og dýra ráðið hans hafa haft einhver áhrif á stjórnkerfi borgarinnar hafa þau vart verið til góðs.

                                                                ***

Sjálfur var Halldór gerandi í að minnsta kosti einu lögbrotinu. Hann nýtti valdastöðu sína sem borgarráðsmaður til að brjóta lög á Ástráði Haraldssyni þegar borgarlögmaður var ráðinn. Borgarráð samþykkti ráðninguna að tillögu Dags B. Eggertssonar borgarstjóra 10. ágúst 2017. Niðurstaða kærunefndar jafnréttismála er að lög hafi verið brotin og gengið hafi verið framhjá hæfasta umsækjandanum. Halldór og félagar leyndu minnihluta borgarráðs upplýsingum um málið og hlustuðu ekki á margvíslegar viðvaranir um að ófaglega væri staðið að ráðningunni.

                                                                ***

Svo vel vill til að Halldór hefur gefið nákvæmar lýsingar á því hvernig hann telur að þeir stjórnmálamenn séu innrættir, sem úrskurðað er gegn vegna ráðningarmála. Um þá skrifaði hann sérstaka færslu á Facebook 22. desember 2017. Slíkur stjórnmálamaður væri „valdníðingur“ sem hefði gerst sekur um „grófa valdníðslu“. „Siðrofið er algjört“, bætti Halldór við úr siðferðishásæti Píratans.

                                                                ***

Ætli Halldór sé enn þeirrar skoðunar, að þegar þar til bærar stofnanir þjóðfélagsins leysa úr lögfræðilegum ágreiningi vegna ráðninga, stjórnvaldi í óhag, sé það til marks um að stjórnmálamenn, sem í hlut eiga, séu valdníðingar með algjört siðrof? Svona nú þegar hann sjálfur er með slíka úrlausn á bakinu?

Týr er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.