*

föstudagur, 21. febrúar 2020
Leiðari
23. ágúst 2019 13:25

Váleg tíðindi skiptastjóra

Hafi Wow verið ógjaldfært um mitt síðasta ár virðist sem þátttakendur í skuldabréfaútboðinu hafi verið blekktir.

Haraldur Guðjónsson

Föstudaginn 16. ágúst var haldinn skiptafundur vegna gjaldþrots Wow air. Þegar fundurinn var haldinn var nánast slétt ár síðan fyrstu fréttir bárust af því að Wow air hygðist sækja sér aukið fjármagn með skuldabréfaútboði. Þetta var 15. ágúst 2018. Fréttirnar bárust eftir að fjárfestakynning í tengslum við útboðið lak í fjölmiðla. Þessi kynning sýndi svart á hvítu að fjárhagsstaða félagsins var gríðarlega erfið. Félagið var rekið með tapi, vaxtaberandi skuldir námu tugum milljarða króna og eiginfjárstaðan var mjög léleg. Samkvæmt sex mánaða uppgjöri félagsins, sem birt var í júlí, var eiginfjárhlutfallið 4,5%. Þó að fjárhagsstaðan væri erfið voru framtíðaráætlanir Wow mjög brattar og eigandinn bjartsýnn. Skuldabréfaútboðinu lauk síðan 18. september í fyrra og samkvæmt uppgefnum tölum seldust skuldabréf fyrir 50.150.000 evra eða tæpa 7 milljarða króna.

Í skýrslu sem Deloitte vann fyrir skiptastjóra Wow air og lögð var fram á skiptafundinum í lok síðustu viku kemur fram að félagið hafi verið orðið ógjaldfært um mitt ár 2018. Þá telja skiptastjórar vísbendingar um að eigið fé Wow hefði í raun átt að vera neikvætt um mitt ár 2018 áður en skuldabréfaútboð félagsins hófst. Vegna þessa telja skiptastjórar óhjákvæmilegt að nánari greining fari fram á því hvenær Wow var sannarlega ógjaldfært.

Hafi Wow verið ógjaldfært um mitt síðasta ár og hafi eiginfjárhlutfallið verið neikvætt virðist sem þátttakendur í skuldabréfaútboðinu, sem lauk í september, hafi verið blekktir. Heimildir Viðskiptablaðsins herma reyndar að hópur þeirra sé nú þegar að íhuga málsókn gegn stjórnendum félagsins.

Í lok nóvember í fyrra, rúmlega tveimur mánuðum eftir að ríflega 50 milljóna evra skuldabréfaútboðinu lauk, birti Wow tilkynningu þess efnis að langtímafjármögnun félagsins væri ótrygg. Þessi tilkynning vakti óneitanlega upp margar spurningar því fjármunirnir sem fengust í útboðinu og áttu að duga til að fleyta fyrirtækinu í gegnum næstu átján mánuði, dugðu sem sagt í rúma tvo.

Í leiðara sem birtist í Viðskiptablaðinu morguninn 28. mars eða sama dag og Wow varð gjaldþrota var fjallað um þessa staðreynd. Þar sagði: „Engar upplýsingar voru gefnar á því í hvað þessir fjármunir fóru. Vissulega hefur hluti farið í að greiða laun en í hvað fór allt hitt? Hvaða langtímakröfur, eða kannski heldur skammtímakröfur, voru greiddar á þessum tveimur mánuðum?“

Nú eru svörin við þessum spurningum smám saman að berast eins og kemur fram í skýrslum Deloitte og skiptastjóra. Í skýrslu Deloitte segir: „Þeim fjármunum sem söfnuðust var að mestu varið til uppgreiðslu gjaldfallinna krafna, eða rúmum 33 m. USD af þeim tæpum 50 m. USD sem voru til ráðstöfunar eftir greiðslu þóknunar og ráðstöfun fjármuna á vaxtagreiðslureikning. Um 20 m. USD var varið til uppgreiðslu við aðila er sjálfir voru þátttakendur í útboðinu…“ Þar með virðist ljóst að ekki hafi allir setið við sama borð í skuldabréfaútboðinu.

Nú þegar er fjöldi riftunarmála til skoðunar hjá skiptastjóra Wow. Raunar er þegar búið að krefjast riftunar á 108 milljóna króna greiðslu Wow til Títan, félags í eigu Skúla Mogensen, eiganda Wow. Þessi greiðsla var á gjalddaga 30. apríl en sem kunnugt er varð Wow gjaldþrota 28. mars. Greiðslan var hins vegar innt af hendi þann 2. febrúar. Þess má geta að á þeim tíma var Wow hætt að standa skil á mótframlagi til starfsmanna vegna séreignarsparnaðar.

Á mánudaginn sendi Skúli Mogensen tilkynningu til fjölmiðla, þar sem hann fer yfir það sem hann telur vera rangfærslur skiptastjóra Wow air. Hann segir fjölda sérfræðinga hafa yfirfarið gögnin sem tengdust skuldabréfaútboði Wow en skiptastjórarnir töldu þær upplýsingar sem komu fram í fjárfestakynningu fyrir skuldabréfaútboðið gefa villandi mynd af stöðu félagsins. Þá sé röng mynd dregin upp af arðgreiðslum Cargo Express og ábyrgðum sem Títan gekkst í fyrir Wow. Því miður eru rök Skúla ekki sannfærandi.

Eftir fall Wow heyrðust sums staðar raddir um að vegna ríkra þjóðhagslegra hagsmuna hefði ríkið hefði átt bjarga félaginu frá gjaldþroti. Það var og er einörð afstaða Viðskiptablaðsins að ríkisstjórnin hafi gert rétt með því að stíga ekki inn í og þær upplýsingar sem nú eru að berast styðja það. 

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.