*

laugardagur, 4. desember 2021
Huginn og muninn
16. október 2021 08:55

Valkvíði varaþingmannsins

Erna Bjarnadóttir lá undir feldi í nokkra daga enda valið ekki eins augljóst og ætla mætti.

Erna Bjarnadóttir, varaþingmaður Miðflokksins.
Aðsend mynd

Útskýringar Birgis Þórarinssonar, nú Sjálfstæðisflokki en áður Miðflokki, á liðhlaupi sínu eru hjúpaðar miklum ólíkindablæ en hrafnarnir ætla ekki að gera sér frekara mat úr þeim. Það verk dæmir sig sjálft.

Hrafnarnir voru aftur á móti spenntari yfir því hvað Erna Bjarnadóttir, varaþingmaður Birgis, myndi til bragðs taka. Eftir vistaskiptin lá Erna undir feldi í nokkra sólarhringa enda með tengingar víða og valið því nokkuð flókið.

Átti hún að feta í fótspor móðurbróður síns, Jóns Bjarnasonar, og stofna sinn eigin flokk? Þá má ekki gleyma því að Bjarni Jónsson Bjarnasonar er, sem stendur hið minnsta, nýkjörinn þingmaður Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi.

Hver veit, kannski var hún að velta fyrir sér að ganga í Viðreisn til að bæta þeim tapið sem fylgdi orðum Ásgeirs frænda um loftfimleika með gengið?

Við þessar vangaveltur ómuðu orð kattarins úr Lísu í Undralandi í höfði hrafnanna: „Ef þú veist ekki hvert þú ert að fara skiptir engu máli hvert þú ferð.“ 

Huginn og Muninn er skoðanadálkur sem birtist í Viðskiptablaðinu. Áskrifendur geta nálgast blaðið undir Tölublöð, aðrir geta skráð sig í áskrift hér.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.