Óðinn fjallaði í Viðskiptablaðinu á fimmtudaginn um nýjar reglur sem verið er að setja innan Evrópusambandsins um leyfi til að virkja endurnýjanlega orku.

Málshraðinn við afgreiðslu verður mun styttri en sett verður hámark á hann. Til dæmis verður hámarksafgreiðslutími á virkjun á endurnýjanlegri orku 24 mánuðir.

Á Íslandi eru öll leyfismál í orkuiðnaði hins vegar í ólestri. Hér á eftir birtist stutt brot úr pistli Óðins en áskrifendur geta lesið hann í heild hér.

Beðið eftir Godot

Það er einn staður á jörðinni sem er algjörlega ósnortinn af hnattrænni hlýnun. Það er íslensk stjórnsýsla. Þar er allt botnfrosið.

Eitt skýrasta dæmið um þetta er saga Suðurnesjalínu II. Hún hefur verið á teikniborðinu í 17 ár. Línan er nauðsynleg til að tryggja örugga afhendingu á raforku fyrir íbúa og fyrirtæki á Suðurnesjum. Líka til þess að atvinnulífið á svæðinu geti vaxið og blómstrað. Íbúum á Suðurnesjum hefur fjölgað mjög hratt og þörf fyrir orku vaxið samhliða. Á meðan línunnar nýtur ekki við eru íbúar og fyrirtæki á svæðinu í spennitreyju.

Línan hefur verið á skipulagi að minnsta kosti frá árinu 2008 en Landsnet og sveitarfélagið Vogar gerðu samkomulag árið 2009 um að hún yrði lögð þar í gegn sem loftlína.

Sveitarfélagið er búið að þráast við að gefa út leyfi fyrir framkvæmdinni frá þeim tíma. Leyfi annarra sveitarfélaga liggja fyrir. Afleiðinganna er farið að gæta en rafmagn sló til dæmis út á öllum Suðurnesjum í tvo klukkutíma nýverið. Verra var það nú ekki. En öryggið er skert.

***

Vandaðasta stjórnvaldsákvörðun mannkynssögunnar?

Í fréttum Ríkisútvarpsins þann 17. janúar sl. var Gunnar Axel Axelsson, bæjarstjóri Voga, spurður eftir hverju væri eiginlega verið að bíða. Svarið var einfalt. „Hér erum við að taka stjórnvaldsákvörðun og þær þurfa að standast skoðun.“

Til samanburðar kynnti John F. Kennedy í maí 1961 áform um að Bandaríkjamenn ætluðu að lenda mönnum á tunglinu fyrir lok þess áratugar. Það tókst í júlí 1969. Apollo-áætlunin tók rúm átta ár, frá hugmynd að veruleika. Óðinn bíður spenntur eftir því að vandaðasta stjórnvaldsákvörðun mannkynssögunnar líti dagsins ljós.

Að öllu gamni slepptu sér hver heilvita maður að málið snýst ekki á nokkurn hátt lengur um vandaða stjórnsýsluhætti. Bæjarstjórinn veit sem er að á meðan sveitarstjórnin situr á leyfinu rennur bættur hagur og tækifæri þúsunda íbúa á svæðinu þeim úr greipum. Það kostar samfélagið gríðarlegar fjárhæðir.

En ábyrgðin liggur víðar en hjá sveitarstjórnarfólki í Vogum. Staðreyndin er sú að regluverk í kringum virkjanaframkvæmdir og uppbyggingu í orkukerfinu er eins og kviksyndi þar sem góðar hugmyndir koma til þess að deyja. Þar víkja meiri hagsmunir fyrir minni og örfáar hræður geta tekið almannahagsmuni í gíslingu svo áratugum skiptir. Ekki í mínum bakgarði. Alþingi samþykkti þessar misheppnuðu leikreglur og ber því einnig mikla ábyrgð.

Pistill Óðins birtist í Viðskiptablaðinu sem kom út fimmtudaginn 23. mars 2022. Áskrifendur geta lesið hann í fullri lengd hér.