*

miðvikudagur, 23. september 2020
Leiðari
7. ágúst 2020 19:01

Vandanum ekki ýtt á undan sér

Ríkissjóður er ekki botnlaus hít og getur ekki bjargað öllum. Mikilvægt er að finna út skjótt hvaða fyrirtæki eru á vetur setjandi.

Haraldur Guðjónsson

Sumarið hefur gengið framar væntingum í ferðaþjónustunni. Erfiðari mál bíða hins vegar hausts og vetrarins.

Ásgeir Jónsson seðlabankastjóri bendir á í Viðskiptablaðinu í vikunni að hagræðing í ferðaþjónustunni hafi verið orðið nauðsynleg eftir fall Wow air — ári áður en heimsfaraldurinn skall á. Nú verði hún ekki umflúin. Ekki gangi til lengdar að ferðaþjónustunni sé haldið uppi á lánsfé og styrkjum frá hinu opinbera.

Heimsfaraldurinn lendir með misþungum hætti á greinum hagkerfisins. Ferðaþjónustan, veitingasölumenn, listamenn og fleiri verða illa fyrir barðinu á veirunni. Þau sem selja fyrst og fremst innlendum neytendum hafa flest gert það gott á meðan almenningur ferðast ekki utan lands og kaupmátturinn er að mestu læstur innan landamæranna. Stjórnvöld hafa gripið til aðgerða til að reyna að dreifa birgðunum jafnar.

Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, varar við því á öðrum stað í Viðskiptablaðinu að of mikið af greininni endi í fanginu á bönkunum. Hrunið fyrir áratug hafi kennt okkur að það sé til lítils gagns að láta atvinnueignir standa ónýttar tímunum saman. Bankarnir eiga mikið undir.

Frá fjórðungi og hátt í þriðjungs fyrirtækjalána bankanna eru til ferðaþjónustufyrirtækja. Þeir hafa lánað greininni um 250 milljarða sem öll teljast nú til áhættusamari lána. Þetta fé mun ekki allt vera greitt til baka. Þar verður ríkissjóður einnig fyrir tjóni sem eigandi tveggja af þremur stóru bönkunum.

Segja má að ríkisstjórnin hafi uppfyllt óskalista ferðaþjónustunnar að mestu í vor. Þau stuðningsúrræði sem greinin bað um fékk hún að mestu. Búið er að lækka stýrivexti niður í 1% og halli ríkissjóðs mun að líkindum nema hundruð milljörðum króna. Eflaust verður ákall um að úrræðum verði bætt við eða þau framlengd í haust. Þann stíg þarf að feta varlega. Ríkissjóður er nefnilega ekki botnlaus hít og getur ekki bjargað öllum. Verði það raunin er viðbúið að Ísland muni fara úr öskunni í eldinn.

Kröfuhafar og eigendur fyrirtækjanna verða sjálfir að finna lausn á því hvernig haga skal málum. Einhver verður að lokum að bera tjónið sem í faraldrinum felst. Fjöldi fyrirtækja mun þurfa að fara í greiðsluskjól sem veitir þeim að mestu andrými frá kröfuhöfum í nokkra mánuði. Fyrir einhver fyrirtæki verður það einungis gálgafrestur, vandanum er skotið á frest en á meðan hafa stjórnendur tíma til að reyna að bjarga rekstrinum.

Mikilvægt er að finna út skjótt og örugglega hvaða fyrirtæki eru á vetur setjandi og hver ekki. Fyrirtæki sem með réttu eiga að fara í þrot verða að fara í þrot svo hægt sé að koma bestu bitunum úr þrotabúinu í verð og leyfa nýjum aðilum að halda áfram þegar óveðrinu slotar. Ábyrgð stjórnenda fyrirtækjanna og aðstoðarmanna í greiðsluskjóli verður þar mikil. Engum er greiði gerður með því að fresta því óumflýjanlega.

Vandi margra af hagkerfum sunnar í Evrópu síðastliðinn áratug hefur að talsverðum hluta falist í að bankar og fyrirtæki voru hvorki sett í þrot né var almennilega tekið til í efnahagsreikningum þeirra. Mörg hver voru í raun lifandi dauð en látin skrölta áfram með því að lengja sífellt í og bæta í lánastabbann. Sum landanna voru enn nokkuð frá því að ná sömu lífskjörum og íbúar upplifðu árið 2008 áður en heimsfaraldurinn skall á. Þetta víti þarf að varast hér á landi.

En úrlausn mála í ferðaþjónustunni verður ekki sársaukalaus. Búið er að byggja upp innviði til að taka á móti ríflega tveimur milljónum ferðamanna á ári. Á meðan þeir verða ekki nema brot af því — jafnvel ekki nema nokkur hundruð þúsund á ári — segir sig sjálft að ekki geta allir haldið starfsemi áfram.

Á endanum þarf að aðlaga hagkerfið að breyttum veruleika. Gott væri ef leitin að nýjum tækifærum— „einhverju öðru“ til að fylla í skarðið — myndi hefjast fyrr en seinna.

Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.