Flest erum við sammála um að öflugt skatteftirlit er nauðsynlegt. Það er mikilvæg forsenda þess að borgarar greiði skatta lögum samkvæmt. Án virks skatteftirlits er því miður víst að fleiri borgarar myndu koma sér undan réttum skattgreiðslum.

Í talsverðan tíma hefur stjórnsýslunni verið skipt upp á milli skatteftirlits, sem er hjá ríkisskattstjóra, og skattrannsókna, sem er hjá skattrannsóknarstjóra. Þó stundum sé talsverðum tilviljunum háð hvoru megin hryggjar málin lenda þá hefur flokkun þeirra mikil áhrif á stöðu skattborgarans.

Sá sem lendir í skatteftirliti hjá ríkisskattstjóra getur átt á hættu að fá endurálagningu á skatta sína auk álags. Sá sem lendir hins vegar í skattrannsókn getur lent í eftirfarandi aðstöðu.

» Mál er opnað hjá skattrannsóknarstjóra áður en 6 ára fyrningarfrestur er liðinn og framlengist þá fyrningarfresturinn frá og með þeim tíma;

» Viðkomandi er tilkynnt að hann hafi réttarstöðu sakbornings;

» Í einstaka tilfellum eru nýttar víðtækar heimildir til húsleita, haldlagningar gagna og kyrrsetningu eigna;

» Rannsóknin getur tekið um 1-3 ár og við lok rannsóknar fær skattborgari afhenta skýrslu skattrannsóknarstjóra þar sem niðurstöðum rannsóknar er lýst; og

» Samrit af skýrslu skattrannsóknarstjóra eru send á ríkisskattstjóra og í öllum stærri málum líka á héraðssaksóknara

Vandinn við ofangreint verklag skattrannsókna er margþætt. Í hnotskurn er þó vandinn sá að embætti skattrannsóknarstjóra býr til skýrslur en þær fara svo í sjálfstæða athugun hjá tveimur öðrum embættum sem í raun bera ábyrgð á þeim stjórnsýsluákvörðunum sem á endanum eru teknar. Mál geta verið þannig vaxin að fullkomlega óljóst er hvað verður um mál skattborgarans sem umrædd skýrsla fjallar um. Næsta framhald málsins gæti því verið með eftirfarandi hætti:

» Skýrslan er send ríkisskattstjóra til nánari ákvörðunar um mögulega endurákvörðun skatta;

» Um þremur mánuðum síðar vísar skattrannsóknarstjóri málinu einnig til rannsóknar héraðssaksóknara og sendir því embætti samrit af skýrslu sinni í málinu;

» Ríkisskattstjóri sendir um 6 mánuðum síðar fyrirspurnarbréf til skattborgara og biður um nánari skýringar á tilteknum atriðum; og

» Um svipað leyti kallar héraðssaksóknari viðkomandi skattborgara til yfirheyrslu og aftur er hann með stöðu sakbornings og eignir hans jafnvel kyrrsettar.

Framhald málsins veltur svo á ýmsu. Niðurstaða af sjálfstæðri athugun ríkisskattstjóra getur leitt til þess að hann ákveður að endurákvarða skatta til samræmis við niðurstöður skattrannsóknarstjóra. Hún getur líka verið sú að ákveða að gera það ekki. Í síðarnefnda tilvikinu þá er það endir málsins hjá ríkisskattstjóra og yfirleitt hjá saksóknara líka. Í þeim tilvikum hefur skattborgari að ósekju haft stöðu sakbornings í fjölda ára og hann og fjölskylda hans þurft að búa við mikið andlegt álag og óbeina hótun um gjaldþrot. Ætti það að vera sjálfstætt rannsóknarefni fjármálaráðuneytis eða umboðsmanns Alþingis að athuga hversu oft þetta hafi gerst undanfarin 10 ár og um hve háar fjárhæðir hafi verið að ræða. Er það skoðun undirritaðs, og fleiri lögmanna, að niðurstaða úr slíkri athugun myndi koma á óvart.

Það einfaldar ekki stöðu þessara mála að Mannréttindadómstóll Evrópu hefur gert athugasemdir við tvöfalda málsmeðferð í skattamálum hér á landi og Hæstiréttur síðan reynt að túlka niðurstöður dómstólsins.

Þeir sem starfa sem verjendur fólks á þessu réttarsviði hafa orðið þess varir að skattrannsóknarstjóri á það til að túlka skattalög með nokkuð sjálfstæðum hætti. Þegar embættinu er bent á hvernig ríkisskattstjóri og yfirskattanefnd og eftir atvikum dómstólar hafa túlkað umþrætt ákvæði þá er það reynsla okkar að það heyri til undantekninga að fallist sé á þau rök í lokaskýrslu embættisins. Er því yfirleitt nokkuð fyrirséð strax í upphafi skattrannsóknarmáls að óháð því hversu góður eða slæmur málsstaður skattborgarans er þá þurfa mál að fara í þann farveg sem að ofan er lýst. Eins og áður segir þá er vandinn sá að embætti skattrannsóknarstjóra ber ekki sjálfstæða ábyrgð á niðurstöðum sínum. Þær eru bara skýrslur sem verða hluti af málsgögnum hjá öðrum embættum sem raunverulega bera ábyrgð á endanlegum stjórnsýsluákvörðunum – löngu síðar. Það er ekki einu sinni hægt að kvarta til umboðsmanns Alþingis yfir embættisfærslum skattrannsóknarstjóra þar sem ekki er um endanlegar ákvarðanir á stjórnsýslustigi að ræða. Á sama tíma hefur skattrannsóknarstjóri víðtækar heimildir til að beita borgarann miklu harðræði.

En hvort sem ríkisskattstjóri telur að skattborgari hafi talið rétt fram eða ekki þá hljóta flestir að vera sammála um að heildarmálsmeðferð í skattrannsóknum er allt of löng og réttaröryggi er ógnað vegna málshraðans og þeirrar staðreyndar að skattrannsóknarstjóri ber takmarkaða ábyrgð á verkferlum og niðurstöðum sínum.

Það er því brýnt að finna leiðir til að stytta rannsóknartímann og hafa samfellda rannsókn mála að meginstefnu á einni hendi hjá þeim stjórnsýsluaðila sem raunverulega ábyrgð ber á málinu og málsmeðferðinni. Þannig færi betur á því að efla annars vegar skatteftirlit ríkisskattstjóra og hins vegar rannsóknarteymi héraðssaksóknara í skattamálum. Ríkisskattstjóri myndi þá senda skilgreind mál til rannsóknar hjá héraðssaksóknara sem tæki sjálfstæða ákvörðun um framhald málsins.

Höfundur er lögmaður og einn eiganda LOGOS.