*

föstudagur, 19. júlí 2019
Leiðari
12. janúar 2013 10:25

Vandmeðfarið traust

Ein af ástæðum hrunsins var vitlaus verðlagning á áhættu.

Getty Images

Mikil hækkun hlutabréfa í desember og janúar gefur tilefni til að velta fyrir sér hvað býr að baki eins og gert er í úttekt Viðskiptablaðs vikunnar. Ljóst er að miklir peningar eru að safnast saman í íslensku hagkerfi innan fjármagnshafta. Þessar krónur komast ekki út. Það er stundum sagt að of margar krónur séu að elta of fáar eignir. Þessi staða er farin að hafa veruleg áhrif á fjárfestingarákvarðanir og verðlagningu á áhættu.

Vitlaus verðlagning á áhættu var ein af ástæðum hruns fjármálakerfisins hér og víða erlendis. Mesti lærdómurinn var endurmat á áhættu, eins og reyndir fjárfestar hafa orðað það. Hins vegar virðist sem hætta sé á endurteknum mistökum við núverandi aðstæður þar sem skortur á fjárfestingarkostum veldur því að fjárfestar geta ekki leyft sér að vera eins vandlátir og æskilegt væri. Það er að myndast bóla innan hagkerfisins þar sem ekki er hægt að fjárfesta erlendis og fjárfestingarkostir hér á landi eru takmarkaðir.

Þessi staða endurspeglast ekki bara í verði hlutabréfa. Í skuldabréfaútboðum Regins og Eikar má sjá að áhættuálag fjárfesta er orðið lágt. Takmarkaðir fjárfestingarkostir mynda með öðrum orðum hvata til aukinnar áhættutöku. Staðan er í raun ekkert svo frábrugðin því sem viðgekkst hér fyrir hrun. Þá var mikið af peningum dælt inn í hagkerfið, meðal annars með ódýrum, erlendum lánum, sem gerði það að verkum að áhættan var stórlega misverðlögð. Það sama er að gerast nú. Nú eins og þá er peningastefnan uppspretta óstöðugleika.

Kristján Markús Bragason, sérfræðingur í greiningardeild Íslandsbanka, segir í úttekt Viðskiptablaðsins að „fáir liðir í jöfnunni í dag“ bendi til lækkunar á hlutabréfum innanlands. Helstu skýringar eru þær að hlutabréfasjóðir hafa stækkað sem leita að tækifærum til ávöxtunar, lífeyrissjóðir hafa til viðbótar við nettó innflæði iðgjalda nýlega fengið níu milljarða greidda úr Framtakssjóðnum auk þess sem spákaupmenn eru virkari á markaðnum en áður.

Það þarf að fjölga fjárfestingartækifærum á markaðnum. Viðbrögð fjárfesta nú má ef til vill rekja til væntinga þeirra um að losun fjármagnshafta muni tefjast enn frekar miðað við yfirlýsingar og aðgerðir eða aðgerðarleysi stjórnvalda. Þessir peningar munu ekkert komast út. Upplýst er í Viðskiptablaðinu í dag að TM verður skráð á markað í lok apríl eða byrjun maí. Það er jákvætt. En fleira væri hægt að gera ef vilji stjórnvalda væri fyrir hendi.

Agnar Tómas Möller, sjóðsstjóri hjá Gamma, bendir meðal annars á í áramótablaði Viðskiptablaðsins að ríkisstjórnin hafi slegið út af borðinu möguleika á að til dæmis lífeyrissjóðir fjárfesti í Landsvirkjun, sem hefur tekjur í Bandaríkjadollurum. Tafir hafi hamlað aðkomu þeirra að framkvæmdum í orkufrekum iðnaði. Og úreltur lagarammi um fjárfestingaheimildir takmarki heimildir þeirra til að koma að rekstri óskráðra eigna. Það gæti verið fjármögnun á arðbærum samgöngumannvirkjum eða kaupum á fyrirtækjum ríkis eða sveitarfélaga.

Miklar hækkanir á hlutabréfum að undanförnu eru meðal annars vegna aukinnar þátttöku almennings á hlutabréfamarkaðinum. Það verður að teljast jákvæðar fréttir að þrátt fyrir að hér hafi orðið hrun fyrir fimm árum er almenningur enn tilbúinn að fjárfesta í íslensku atvinnulífi. Slíkt getur orðið mikil lyftistöng í nýrri sókn atvinnulífsins og hjálpað til við afnám haftanna. Hins vegar er traustið vandmeðfarið. Það er því nauðsynlegt að efnahagslegur og lagalegur rammi stuðli að stöðugleika fremur en óvissu. Á meðan svo er ekki eigum við á hættu að glata trausti almennings á ný.

Stikkorð: Leiðari
Fréttabréf
Vikulegt fréttabréf Viðskiptablaðsins þar sem greint er frá því helsta sem gerst hefur í íslensku og erlendu viðskiptalífi.